Bækur
Einar Falur Ingólfsson
Þegar Siddharta hittir Govinda æskuvin sinn aftur undir lok ævinnar, eftir að hafa eytt henni í að leita sannleikans, þá segir hann um þá leit: „Viska er ekki miðlanleg. Viska, sem vitringur reynir að veita, hljómar alltaf eins og heimska.“ Og þegar Govinda hváir bætir Siddharta við að þekkingu megi gefa öðrum en ekki visku. „Það er unnt að finna hana, unnt að lifa hana, hún getur leitt mann, með henni er hægt að gera kraftaverk en það er ekki hægt að tjá hana eða kenna hana“ (123). Það er ein af niðurstöðum lífslangrar leitar þessarar kunnu sögupersónu þýska Nóbelskáldsins Hermans Hesse (1877-1962) að því sem kalla má sannleika, og um leið tilgang með lífinu.
Útgáfusaga þessarar stuttu skáldsögu, Siddharta, er á margan hátt athyglisverð. Hún kom fyrst út á frummálinu á því magíska bókmenntaári 1922, þegar einnig komu á prent sögufræg lykilverk bókmennta tuttugustu aldar, Ulysess eftir James Joyce og The Waste Land eftir T.S. Eliot. Hesse var þá kominn hátt á fimmtugsaldur og hafði þegar sent frá sér tólf skáldsögur og nóvellur. Hann hafði lengi haft áhuga á guðspeki og andlegum málefnum, eins og það er gjarnan kallað í dag, glímdi sjálfur við spurningar um tilganginn og hafði lesið sér vel til um indversk trúarbrögð, hindúisma og ýmiskonar afleggjara út frá honum, eins og jain-trú og búddisma. Hesse lætur söguna gerast fyrir um 2.600 árum, þegar prinsinn Siddhartha Gautama var uppi en hann varð fyrir andlegri uppljómun þar sem nú er Bihar-ríki og byrjaði að prédika nokkru vestar þar sem er Sarnath, rétt fyrir utan borgina Varanasi. Og var þá orðinn Búdda. Hesse lætur sögupersónu sína bera sama nafn, Siddharta, en lesendur kynnast honum fyrst þar sem hann er unglingur, fæddur inn í stétt bramína, en þeir eru prestar og kennarar. Vinirnir Siddharta og Govinda heyra af Búdda, sem fer um með hirð áhangenda, og þeir ákveða að rífa sig upp úr fastnjörvuðu samfélagi fjölskyldna sinna á toppi stéttapíramídans og fara að leita sannleikans. Eftir að hafa sagt skilið við veraldlegar þarfir og hugsanir, í samfélagi strangtrúaðra hindúa langt inni í skógi, leggja þeir land undir fót og hitta Búdda. Govinda verður handgenginn honum en Siddharta er sjálfstæðari og eftir að hafa rætt við Búdda kýs hann að halda leitinni að tilganginum og andlegri uppljómun áfram á eigin vegum og helgar líf sitt þeirri leit.
Saga Hesse vakti nokkra athygli þegar hún kom fyrst út. Tekið var að þýða hana á fleiri tungumál upp úr miðri síðustu öld en sagan náði síðan miklum vinsældum þegar leið á sjöunda áratuginn á tímum hippa og stóraukins áhuga á austurlenskum trúarbrögðum, og þá einkum búddisma, á Vesturlöndum. Síðan mun hún líka hafa orðið mjög vinsæl í Asíu og ekki síst á Indlandi, þar sem hún er skrifuð í anda prédikana og frásagna sem eru eignaðar Búdda og lærisveinum hans.
Haraldur Ólafsson mannfræðingur (f. 1930) íslenskar söguna og í eftirmála hans kemur fram að þýðingin hafi lengi verið til. Haraldur kynntist einhverjum verka Hesse þegar hann var við nám í Strasbourg á sjötta áratug síðustu aldar en síðar fékk hann eintak af Siddharta í hendur í enskri þýðingu þegar hann annaðist kennslu í mannfræði með sérstakri áherslu á trúarbrögð. Haraldur skrifar að honum hafi þótt enska þýðingin „eitthvað undarleg“, náði hann sér þá í þýska textann og sá að enskumælandi þýðandinn hafði sums staðar stytt sér leið. Þýddi Haraldur svo bókina og las hana í útvarp árið 1979. Og nú er hún loks komin á prent, hálfum fimmta áratug síðar.
Sjálfur las ég Siddhartha fyrst í enskri þýðingu fyrir hátt í fjórum áratugum. Þótti sagan þá athyglisverð, að fylgjast með leit unga mannsins að tilganginum og hvernig hún er sögð, á einföldu, ljóðrænu máli, sem er að vissu leyti í anda hinna fornu frásagna. Sem bókmenntaverk stendur hún höfuðverkum Hesse þó nokkuð að baki, verkum sem sérstaklega var horft til þegar hann fékk Nóbelinn árið 1946, eins og Demian (1919), Der Steppenwolf (1927) og Das Glasperlenspiel (1943). Sú upplifun er enn sterkari nú við endurlestur á íslensku. Vísunin í indverskar sagnir er að sumu leyti fulleinföld og táknsagan verður talsvert fyrirsjáanleg, þótt hún sé að mörgu leyti athyglisverð. En það er líka skiljanlegt að þeir sem spyrja svipaðra spurninga um lífið og tilganginn og Hesse lætur aðalpersónuna takast á við, hrífist af umfjöllunarefninu. Þótt þessum lesanda finnist það nokkuð fyrirsjánlegt og flatt á köflum.
Eftir að Siddharta hittir Búdda og ákveður að gerast ekki lærisveinn hans heldur halda leitinni áfram, þá fær hann ferjumann nokkurn til að flytja sig yfir fljót eitt og þar verða hvörf í lífi unga mannsins: hann sest að í borg, kynnist vændiskonu og ástinni í framhaldinu, tekur líka til við auðsöfnun og gleymir þá vitaskuld í sældinni leitinni að tilganginum. En Siddharta nær að sleppa úr fjötrum velmegunarinnar þegar hann man hvað hann ætlaði að gera með líf sitt, og lyklana að svörum við stóru spurningunum finnur hann við fljótið, hjá ferjumanninum, þar sem æskuvinurinn Govinda hittir hann að nýju. Og sá leitandi er orðinn spekingur, þótt hann viðurkenni að viskunni sé erfitt að miðla.