Gervigreind Kristina Kallas menntamálaráðherra Eistlands í Hörpu.
Gervigreind Kristina Kallas menntamálaráðherra Eistlands í Hörpu. — Morgunblaðið/Karítas
Eistar vinna að innleiðingu gervigreindar í menntakerfi sitt. Kristina Kallas menntamálaráðherra segir að störf framtíðarinnar verði ekki unnin af gervigreindinni heldur fólkinu sem hefur mesta þekkingu á henni og kann best að nýta sér hana

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Eistar vinna að innleiðingu gervigreindar í menntakerfi sitt. Kristina Kallas menntamálaráðherra segir að störf framtíðarinnar verði ekki unnin af gervigreindinni heldur fólkinu sem hefur mesta þekkingu á henni og kann best að nýta sér hana.

Morgunblaðið settist niður með Kallas á dögunum.

Nemendur nota gervigreind

Ráðherrann segir vitað að nemendur noti gervigreind við verkefnavinnu.

„Í stað þess að bíða og sjá hvað gerist ákváðum við að koma gervigreindinni inn í námið og endurhanna allar kennsluaðferðir þannig að nemendur læri með gervigreindinni – að námið verði uppfært með gervigreindinni í stað þess að vera skipt út fyrir hana.“

Segir hún að árið 2027 sé von Eista að kynslóð útskrifist sem viti hvað gervigreindin sé og hvernig hún virki og að þar fari siðferðislega þenkjandi kynslóð sem búi yfir gagnrýnni og greinandi hugsun.

Eistar eru í samstarfi og samningaviðræðum við bandaríska tæknirisann OpenAI um sérstaka skólaútgáfu ChatGPT. „OpenAI er með þessa útgáfu og fyrirtækið hefur hug á að þjálfa það tól innan menntakerfis. Við getum komið okkar markmiðum, sem samrýmast okkar skólanámskrá, fyrir inni í þessari útgáfu sem myndi einnig skilja eistnesku og þannig getum við nýtt skólaútgáfu ChatGPT í menntun okkar barna,“ segir Kallas.

Innleiðing í skrefum

Innleiðing hefst næsta haust þegar elstu bekkir grunnskóla og yngstu bekkir framhaldsskóla munu fá aðgang að gervigreindarlausnunum ásamt tækjum á borð við sérstaklega uppsettar fartölvur eða spjaldtölvur. Á næsta ári bætist einn árgangur við og árið eftir það fá nemendur sem sækja iðnnám aðgang. Þannig segir Kallas að árið 2027 ætti allt framhaldsskólastigið að geta notað gervigreind sér til hagsbóta í námi.

Kennarar munu hljóta sérstaka þjálfun, sem er nú þegar hafin, en Kallas segir að innleiðingin muni velta mikið á kennurum. Eflaust muni einhverjir nota gervigreindina mikið en aðrir ekki eins mikið.

„Í ágúst fáum við til liðs við okkur sérfræðinga í þroskasálfræði sem þjálfa munu kennarana í öllu sem viðkemur árangri af notkun gervigreindarinnar og hvernig heilinn tekur við því sem gervigreindin á að skila. Núna er ferlið tæknistýrt. Krakkarnir nota tæknina en tæknin ræður för. Kennarar hafa enga stjórn og því viljum við breyta.“

Færa getuna upp á hærra stig

Þriðjungur vinnandi fólks í OECD-ríkjunum bjó yfir meiri stærðfræðikunnáttu og lesskilningi en tölvur árið 2019 samkvæmt skýrslu OECD.

Fyrir hálfu ári bjó ChatGPT 3,5 yfir stærðfræðiþekkingu efstu bekkja miðstigs grunnskóla en ChatGPT 4,5 ræður nú við mun þyngri stærðfræði en elstu bekkir grunnskóla.

„Ef við tökum ekki á þessum veruleika og færum ekki getu nemenda upp á hærra stig taka tölvurnar einfaldlega yfir,“ segir Kallas.

Höf.: Ólafur Pálsson