Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Miklar framkvæmdir standa nú yfir á svæði KR við Meistaravelli í Vesturbænum, einhverjar þær mestu í sögu þessa gamalgróna stórveldis í íþróttum.
Í desember síðastliðnum var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum gervigrasvelli. Þetta verður aðalleikvangur félagsins í framtíðinni.
Hann má sjá næst áhorfendastúkunni, vinstra megin á myndinni.
Að sögn Pálma Rafns Pálmasonar, framkvæmdastjóra KR, hafa starfsmenn verktakafyrirtækisins Bjössa ehf. unnið ötullega að því að byggja upp völlinn áður en byrjað verður að leggja gervigrasið.
Pálmi segir að stefnt sé að því að leika fyrsta heimaleik KR á hinum nýja velli 10. maí, þegar ÍBV kemur í heimsókn. Enn er þó óljóst hvort þær áætlanir standast. Fyrstu heimaleikir KR verða spilaðir á AVIS-velli Þróttar í Laugardal.
Hægra megin á myndinni (innan girðingar) má sjá svæðið þar sem hið nýja fjölnota knatthús KR mun rísa. Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin á 126 ára afmæli félagsins 16. febrúar síðastliðinn. Framkvæmdin er nú í útboðsferli. Fjögur verktakafyrirtæki skiluðu inn umsóknum í forvali.
KR-ingar hafa í áratugi barist fyrir því að eignast knatthús. Tókust samningar milli félagsins og Reykjavíkurborgar um að reisa húsið.
Hið nýja hús verður um 4.500 fermetrar að flatarmáli. Einnig verður á svæðinu reist tengibygging, um 2.200 fm að grunnfleti.
Þá verður í tengibyggingunni aðstaða fyrir ýmsar aðrar íþróttagreinar sem hafa verið æfðar og iðkaðar innan KR. Félagið rekur nú 11 íþróttadeildir.
Áætlaður kostnaður við byggingu nýs knatthúss KR er um 2,5 milljarðar króna. Stefnt er að því að taka húsið í notkun árið 2027. Þegar húsið verður komið í gagnið mun það skýla aðalvellinum fyrir norðanáttinni.
Efst á myndinni má sjá íþróttahús og félagsaðstöðu KR-inga. Áhorfendastúkan stendur við Kaplaskjólsveg og neðst á myndinni má sjá íbúðarhúsin við Flyðrugranda. Lengst til hægri er æfingavöllur KR, sem er lagður gervigrasi. Hann kemur heldur betur að notum á meðan þessar miklu framkvæmdir standa yfir.
Æfingavöllurinn hefur verið sá eini sem hefur verið tiltækur til æfinga yfir vetrartímann.
Með tilkomu nýja gervigrasvallarins verður algjör bylting á æfingaaðstöðunni, enda eru um 1.000 iðkendur sem æfa hjá KR að staðaldri.
KR-ingar eru einnig með það á prjónunum að byggja íbúðir á svæði sínu í Vesturbænum. Þau áform eru skemmra á veg komin.