Nikola Jokic, serbneski miðherjinn hjá Denver Nuggets, setti met í NBA-deildinni í körfuknattleik í fyrrinótt þegar lið hans tapaði fyrir Minnesota í tvíframlengdum leik á heimavelli, 140:139. Jokic skoraði 61 stig, tók 10 stig og átti 10 stoðsendingar og náði því þrefaldri tvennu, en stigaskorið er það mesta sem nokkur leikmaður hefur náð í sögu deildarinnar þegar hann hefur verið með þrefalda tvennu, þ.e. tveggja stafa tölu í þessum þremur tölfræðiþáttum.
Langflestir leikmenn Bestu deildar karla telja Gylfa Þór Sigurðsson úr Víkingi vera besta leikmann deildarinnar fyrir komandi tímabil. Þetta kom fram á kynningarfundi deildarinnar í gær. Þá reikna flestir með því að Patrick Pedersen úr Val verði markakóngur Bestu deildarinnar í ár og að lið Aftureldingar muni koma mest á óvart. Þá voru leikmenn spurðir hver væri bestur í sögu efstu deildar karla og flestir gáfu Óskari Erni Haukssyni atkvæði sitt.
Brighton & Hove Albion hefur fest kaup á enska knattspyrnumanninum Tom Watson fyrir tíu milljónir punda, 1,7 milljarða íslenskra króna. Watson, sem er 18 ára gamall, kemur frá uppeldisfélagi sínu Sunderland. Hann gengur formlega til liðs við Brighton að yfirstandandi tímabili loknu og er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við félagið, sem gildir til sumarsins 2029. Watson er kantmaður sem hefur spilað 17 leiki og skorað tvö mörk fyrir Sunderland í öllum keppnum frá því að hann lék sinn fyrsta leik fyrir tveimur árum.
Portúgalski knattspyrnumaðurinn Bernardo Silva, miðjumaður Englandsmeistara Manchester City, vill fara frá félaginu í sumar. Football Insider segir frá en Portúgalinn hefur ekki átt gott tímabil í Manchester-borg, þar sem gengi liðsins hefur verið verulega undir væntingum. Silva hefur spilað 395 leiki og skorað 70 mörk fyrir City síðan hann kom sumarið 2017 og unnið allt sem hægt er að vinna. Hins vegar leitast hann eftir nýrri áskorun.