Þyrlur Þrjár á Reykjavíkurflugvelli. Útsýnisflugið er afar vinsælt.
Þyrlur Þrjár á Reykjavíkurflugvelli. Útsýnisflugið er afar vinsælt. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við munum leita allra lögmætra leiða til að tryggja áframhaldandi starfsemi okkar á Reykjavíkurflugvelli,“ segir Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur. Tilefni ummæla hans er sú tillaga Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Við munum leita allra lögmætra leiða til að tryggja áframhaldandi starfsemi okkar á Reykjavíkurflugvelli,“ segir Hjörvar Hans Bragason, skólastjóri Flugskóla Reykjavíkur. Tilefni ummæla hans er sú tillaga Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur borgarfulltrúa Viðreisnar, sem samþykkt var í borgarstjórn á þriðjudag, að borgarstjóra verði falið að ganga til samninga um að flug einkaþyrlna og -þota færist frá Reykjavíkurflugvelli hið fyrsta. Einnig að einkaflugi verði fundinn nýr staður, þar með talið kennslufluginu.

Í tillögunni er vísað til samnings frá 23. október 2013 milli Reykjavíkurborgar og innanríkisráðuneytisins um að finna kennslu- og einkaflugi nýjan stað. Síðan þá hefur þó margt breyst sem taka verður til skoðunar nú rúmlega áratug frá því áðurnefnt samkomulag var gert, segir Hjörvar Hans. Mikil þróun hafi átt sér stað bæði hvað varðar öryggi og umhverfismál. Hjá Flugskóla Reykjavíkur hafi verið fjárfest til dæmis í umhverfisvænum og hljóðlátum kennsluflugvélum. Þá sé líklegt að skólinn taki nýjar og nettar rafmagnsflugvélar í notkun á allra næstu árum.

„Reykjavíkurborg er með þessari tillögu ekki aðeins að ógna menntun heldur einnig að refsa þeim sem vinna markvisst að kolefnishlutlausu flugi,“ segir Hjörvar. Hann minnir sömuleiðis á að skólinn taki öryggi og nábýli alvarlega og hafi ítrekað leitað leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á nærsamfélag sitt. Flutningur starfseminnar, þá væntanlega á Keflavíkurflugvöll, myndi hafa í för með sér verulegan kostnað og óvissu.

Hólmsheiði fjaraði út

Norðurflug er með aðsetur á Reykjavíkurflugvelli og er með þrjár þyrlur í útgerð. Sú tillaga sem borgarstjórn hefur nú samþykkt snertir starfsemina því beint og stjórnendur fyrirtækisins fylgjast vel með framvindunni.

„Ef finna á þyrluflugi nýjan stað erum við hjá Norðurflugi tilbúnir. Fyrir 2-3 árum var Hólmsheiði ofan við Reykjavík skoðuð í því skyni, en síðan fjaraði málið út, m.a. vegna sjónarmiða í skipulagsmálum. Þá eru flugi margar reglur settar svo að starfsemi eins og við erum í verður ekki fundinn nýr staður svo glatt,“ segir Birgir Ómar Haraldsson framkvæmdastjóri Norðurflugs.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson