Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Sú stefnubreyting Samfylkingarinnar og samstarfsflokka hennar í borgarstjórn Reykjavíkur, að ljá loks máls á uppbyggingu nýrra hverfa austast í borginni eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað lagt til, er ánægjuleg, að mati Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Hingað til hafi flokkarnir margsinnis lagst gegn líkri uppbyggingu. Þetta kom m.a. fram við umræður á borgarstjórnarfundi á þriðjudag um tillögu hins nýja meirihluta um byggðaþróun í Reykjavík.
„Í fyrsta lið tillögu meirihlutans er kveðið á um að hefja skuli skipulagsvinnu fyrir fyrsta áfanga nýrrar uppbyggingar í Úlfarsárdal með áherslu á Halla, Hamrahlíðarlönd og suðurhlíðar Úlfarsfells. Fyrir rúmu ári mælti ég fyrir tillögu um sama mál í borgarstjórn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Tillagan hlaut dauflegar viðtökur hjá þáverandi meirihluta. Henni var vísað til nefndar af fulltrúum þáverandi meirihluta og um leið tekið fram að þar yrði hún ekki í neinum forgangi,“ sagði Kjartan við umræður um málið á fundinum.
Benti Kjartan á að í öðrum lið tillögu meirihlutans segði að framkvæma skyldi forathugun á uppbyggingarmöguleikum á svæðum eins og Geldinganesi, Víðinesi, Kjalarnesi og öðrum sambærilegum.
„Af þessu má sjá að nýi meirihlutinn fylgist ekki vel með og þekkir lítið til hinnar miklu vinnu sem hefur átt sér stað áratugum saman varðandi áðurnefnd svæði í borgarkerfinu,“ sagði Kjartan og benti meirihlutanum á að hvað Geldinganes varðaði hefðu möguleikar á uppbyggingu þar verið til skoðunar í borgarkerfinu í að minnsta kosti fjörutíu ár og efnt til skipulagssamkeppni um nýtt hverfi í Geldinganesi á níunda áratug síðustu aldar. Ekki ætti að taka langan tíma að uppfæra þær hugmyndir.
Sagði Kjartan að húsnæðisvandinn í Reykjavík yrði ekki leystur á meðan húsnæðismál í borginni væru föst í þunglamalegum vítahring vinstriflokkanna í borgarstjórn.