[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það þarf ekki að vera hár í loftinu til að vera stærsti maðurinn í herberginu.“

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Ágúst Halldórsson, Eyjamaður af lífi og sál, hafði hvorki ætlað sér að slíta hásin né greinast og sigrast á illkynja krabbameini fyrir fertugt. En úr óvæntum brekkum spratt nýtt ævintýri – hlaðvarpið Stjáni, þar sem hann ræðir við Kristján Óskarsson, eða Stjána á Emmunni.

Fyrsti þátturinn fór í loftið 29. mars og skaust strax inn á topp tíu lista íslenskra hlaðvarpa. Viðtökurnar hafa verið ótrúlegar, að sögn Ágústs, sem segir verkefnið hafa komið út úr því að hann þurfti að hægja á sér eftir slys.

„Ég sleit hásinina í badminton,“ segir hann. „Ég hef nú alltaf sagt öllum að ég hafi slitið hana í leik við Óskar í Áhaldaleigunni – einn allra færasta spilara Vestmannaeyja. En sannleikurinn er sá að ég sá fjögurra ára gutta að slá í blöðru og ákvað að skora á hann og tvo aðra. Okkur gekk ágætlega og leikurinn var nokkuð jafn þegar ég ætlaði að taka á honum stóra mínum – þá bara BAMM. Eins og að heyra togvír slitna.“

Það var í kjölfarið sem hann gat ekki lengur sinnt sinni daglegu hreyfiþörf. „Ég er vanur að lyfta, kajakast, labba á fjöll og hjóla, en nú er það ekki hægt. Hugurinn leitaði annað – og þetta varð niðurstaðan,“ segir Ágúst

Hver er Stjáni?

En hver er þessi Stjáni á Emmunni sem hefur vakið svona mikla athygli?

„Stjáni á Emmunni er eins og við Eyjamenn köllum orginal. Hann dansar við það að vera flámæltur og segir nákvæmlega það sem honum finnst. Hann hefur verið sjálfs sín herra sem skipstjóri, svo líka útgerðarmaður, svo hann hefur aldrei verið feiminn við að tjá skoðanir sínar,“ segir Ágúst.

Þótt þeir séu skyldir – pabbi Ágústs og Stjáni eru systkinabörn – segir Ágúst að hann hafi í raun ekki kynnst Stjána fyrr en á unglingsaldri.

„Því þessir sjóarar á þessum tíma voru bara á sjó eða á böllum. Svo það má segja að maður hafi fyrst kynnst honum vel þegar ég komst á böllin og spjallaði við hann fyrst þegar hann og Emma, eiginkona hans, tóku eina og eina vatnspásu frá dansinum.“

„Honum er alveg nákvæmlega sama“

„Viðtökurnar hafa verið alveg ótrúlegar, sem við bjuggumst ekki við. Við erum bara að gera þetta fyrir okkur og vildum leyfa heiminum að hlusta ef hann myndi hafa áhuga.“

Ágúst viðurkennir að hann hafi stundum íhugað að klippa eitthvað til í upptökunum – en þar er Stjáni ákveðinn.

„Stjáni segir að ef þetta fari ekki beint af kúnni þá nenni hann þessu ekki,“ segir Ágúst kíminn.

Samtöl þeirra eru þó oft óútreiknanleg en fátt kemur Ágústi þó á óvart.

„Að tala við Stjána er eins og að búa með alkóhólista. Einn daginn er allt í góðu og svo bara búmm kemur einhver bomba. Þá er ekkert annað hægt að gera en að taka það á kassann og detta í það með honum.“

Hann segir samskiptin þó hafa gengið snurðulaust fyrir sig en sjálfur segist hann vita fátt skemmtilegra en að spjalla við eldra fólk.

„Það er örugglega þetta filtersleysi sem ég fíla,“ bætir Ágúst við.

Hann segist þó hafa lært ótrúlega margt af Stjána þó að hann geti ómögulega sagt frá stórum hluta þess í virðulegu dagblaði.

„Margt af því er því miður ekki prenthæft. En ef það er eitthvað sem ég ætti að taka út þá er það: „Það þarf ekki að vera hár í loftinu til að vera stærsti maðurinn í herberginu,“ segir Ágúst.

Krabbamein uppgötvaðist eftir hjólaslys

Greiningin á krabbameininu kom fyrir tilviljun – og hefði aldrei fundist nema fyrir óvænt fall af hjóli.

„Ég var að hjóla niður Sæfell í Vestmannaeyjum þegar einhver óútskýranlegur kraftur henti mér fram fyrir hjólið í jörðina og hjólið yfir mig. Mér fannst þetta hálfskömmustulegt, svo ég hélt bara áfram.

Ég fann samt ekki fyrir neinu. Við héldum síðan áfram að hjóla í algjörri kvöldsólarblíðu um allar Vestmannaeyjar,“ segir Ágúst sem uppgötvaði það þó við heimkomu að hann var farinn að pissa blóði.

„Ég kippti mér nú ekkert mikið upp við það og fór að sofa. Daginn eftir hélt þetta áfram. Í einhverju djóki gerði ég skoðanakönnun á Instagram hvort maður ætti að fara til læknis ef maður væri ennþá að pissa blóði eftir fjórtán klukkustundir,“ lýsir Ágúst sem segir að fjöldinn allur af fólki hafi þá ráðlagt honum, réttilega, að láta skoða sig.

Það var vinkona hans, hjúkrunarfræðingurinn Ragnheiður Perla, sem loks sannfærði hann um að hann þyrfti að fara á spítala. Þar kom í ljós þriggja sentímetra æxli á nýranu.

„Mér fannst ég vera smá aumingi að vera að fara upp á spítala þegar ég fann ekki fyrir neinu. Ég var skoðaður og þreifaður og svo skellt inn í sneiðmyndatæki. Síðan var ég búinn í tækinu og var að klæða mig og alveg klár í að fara heim því ekkert kemur fyrir mig. Þá er mér sagt að bíða smá því það væri verið að skoða myndirnar sem sendar voru upp á land. Þar greinist ég með þriggja sentímetra æxli á nýranu,“ lýsir Ágúst sem ákvað í kjölfarið að fara beint út á sjó í makríl í einn og hálfan mánuð eftir greininguna sem reyndist svo illkynja.

Spurður hvort honum hafi ekki þótt erfitt að vinna á sjó vitandi að hann væri með æxli á stærð við gólfkúlu í nýranu neitar hann.

„Ég var frekar stóískur í hugsun yfir þessu öllu saman. Það er bara svo margt í lífinu sem maður getur ekkert gert í. Konan mín er sjálfbær og ég veit að börnin mín myndu alltaf standa sig sama hvernig færi. Plús það að það hefur aldrei verið eins auðvelt að vera á sjó yfir Þjóðhátíð,“ segir Ágúst sem fór svo í aðgerð þar sem æxlið var fjarlægt.

„Aðgerðin gekk mjög vel og ég var fljótlega kominn á ról og á sjó aftur,“ segir Ágúst sem þakkar starfsfólki Landspítalans og lækninum sem skar hann, Karli Erlingi Oddasyni, sérstaklega en hann segir að þau eigi allt hrós skilið.

Ég hafði ekki hugmynd um hversu vel þetta kerfi myndi virka. Öryggistilfinningin var svo mikil að mér leið eins og ég væri í fanginu á mömmu minni,“ lýsir Ágúst.

„Magnaðasti staður á jarðríki“

Ágúst segist aldrei ætla að flytja frá Vestmannaeyjum. Hann lifir þar litríku og sveigjanlegu lífi, hvort sem hann er á sjó, á kajak, í göngu – eða að búa til harðfisk með Stjána.

Hann er sonur Guðbjargar Hrannar Sigursteinsdóttur og Halldórs Sveinssonar, fæddur á þriðju hæð innan um sægrænu flísarnar sem umlykja fæðingarherbergið á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, 26. apríl árið 1985. Hann verður því fertugur í mánuðinum.

„Mér finnst Vestmannaeyjar magnaðasti staður á jarðríki. Ég hef farið út í flestallar úteyjarnar á kajak, þó svo það hafi ekki alltaf verið vinsælt,“ segir Ágúst kíminn – og vísar þar m.a. til ferðarinnar til Surtseyjar, sem vakti mikla athygli fyrir tveimur árum.

Þá strandaði hann við eyjuna, einn á kajak, og steig í land – þvert á reglur sem banna umferð á Surtsey. Málinu lauk með því að Ágúst greiddi sekt fyrir „heimsóknina“ ólöglegu.

„Hef stundað lundaveiði og eggjatöku frá blautu barnsbeini. Hoppa trillutúra með Braga Steingríms vini mínum þegar ég get. Hann er fæddur 1. janúar 1944 og er þar af leiðandi eini danski vinur minn,“ segir Ágúst glettnislega en hann segist einnig ganga og hjóla mikið. „Ekki er nóg með fegurð Vestmannaeyja heldur finnst mér fólkið best. Samheldnin og gleðin í fólkinu er svo mikil. Svo má ekkert bjáta á, þá eru allir reiðubúnir að hjálpa. Við erum líka eins konar KR landsbyggðarinnar. Við vitum að við erum flottust. Höldum flottustu útihátíðina og skemmtanirnar. Það finnst okkur allavega og það skiptir máli,“ segir Eyjamaðurinn stoltur.

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég geri dagsdaglega. Enginn dagur er eins og annar. Það er ekkert langt síðan ég sat inni í sólhúsi hjá mér með kaffibolla að lesa bók, lít svo út um gluggann – og níutíu mínútum síðar er ég kominn út í Brand á kajak og upp á topp, búinn að koma mér upp í eyju og upp á topp,“ segir hann. „Stundum held ég að heilinn í mér sé að reyna að gera allt sem lífið býður upp á og koma mér í alls konar vesen svo ég hafi eitthvað að skrifa um þegar ég verð gamall því ég ætla að verða rithöfundur,“ lýsir Ágúst.

39 ára aldursmunur

Ágúst vonast til þess að hlaðvarpið verði til þess að sem flestir fái að kynnast Stjána betur, þar á meðal hann sjálfur.

„Það er náttúrlega þrjátíu og níu ára munur á okkur en þegar við erum að bralla saman eins og að búa til harðfisk eða kjafta þá líður mér alltaf eins og ég sé að tala við peyja á mínum aldri,“ segir Ágúst og bætir við: „Það er málið með okkur Eyjapeyjana, við náum alltaf saman, sama á hvaða aldri það er.“

Hlustendur munu að minnsta kosti eiga von á áhugaverðri sögu í næstu þáttum en annar þáttur er væntanlegur á streymisveitur á sunnudag.

TikTok-frægð fram undan?

„Núna erum við búnir með bernskuna og hættir að vera feimnir eins og Stjáni orðaði það. Við erum báðir blautir á bak við eyrun en látum okkur hafa það. Það þarf ekki allt að vera fullkomið þegar maður er að byrja,“ segir Ágúst sem segir að nú séu þeir félagar einnig byrjaðir að taka upp myndbönd með þáttunum. Það sé jafnvel aðeins tímaspursmál hvenær klippur með Stjána fari að birtast á TikTok.

„Ég veit að það þyrfti ekki margar klippur af Stjána á TikTok til að gera hann vinsælan hjá unga fólkinu,“ segir Ágúst.

Móðgaðist við netamanninn

Spurður út í eina dæmigerða sögu af Stjána segir Ágúst:

„Ætli það sé ekki þegar Helgi Sævar, sem var netamaður hjá Stjána á Emmu VE, mætti mjúkur heim til Stjána og var að kvarta yfir því að hafa ekki fengið netamannshlutinn lagðan inn á sig. Stjáni var svo móðgaður að hann sagði:

„Það var ekkert rifið í túrnum þarna helvítis fíflið þitt!“ og skellti hurðinni á nefið á honum,“ lýsir hann kíminn.

Fimm hlaðvörp sem Ágúst mælir með

K100 fékk Ágúst til að deila nokkrum hlaðvörpum sem hann hlustar á við ýmis tilefni. Hér eru fimm sem hann mælir sérstaklega með:

Skoðanabræður „Bræðurnir og Mássynirnir sem leyfa mér alltaf pínu að halda að ég sé ungur þegar þeir tala um gríska heimspeki eða íslenskt rapp. Ótrúlega ferskt í bland við glundroða heimsins.“

Ein pæling „Þórarinn Hjartarson fer yfir mál líðandi stundar og fær til sín áhugaverða einstaklinga í spjall. Fann hann alveg óvart og finnst hann mjög heill í sinni nálgun.“

Álhatturinn „Álhattavinir mínir sögðu mér frá þessum. Mér finnst þeir rosalega góðir og skemmtilegir en passa mig ekki að hlusta of oft á þá – þá fer fólk að halda að ég sé skrítnari en ég er. Sem er kannski bara hluti af „cyopinu“ eða hvað þeir segja.“

Myrka Ísland „Hefur verið mitt uppáhalds í langan tíma þótt þær hafi ekki gefið út í ár. Ég er með fjölda þátta vistaðan í símann minn frá Önnu og Sigrúnu sem hafa stytt mér stundir úti á sjó. Saga Íslands í sinni tærustu mynd.“

Harmageddon „Mér líður aldrei meira eins og skilnaðarbarni en þegar ég hlusta á Frosta í Harmageddon, því þegar ég er í landi sit ég nánast undantekningarlaust við hliðina á konunni minni á föstudagskvöldum og horfi á Gísla Martein og hugsa hvort til séu ólíkari menn. Það þarf að hafa Harmageddon í eyrunum svo maður verði ekki of heilaþveginn af RÚV.“

Höf.: Rósa Margrét Tryggvadóttir