Ævar Guðmundsson fæddist 17. júlí 1953 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum 20. mars 2025.
Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson, f. 28.4. 1918, d. 21.11. 1990, og Jóhanna Júlía Sigurðardóttir, f. 4.3. 1923, d. 21.1. 2014. Systkini Ævars voru Reynir, f. 18.6. 1943, d. 24.9. 1967, Ingunn, f. 8.1. 1951, og Jón, f. 10.12. 1956.
Ævar giftist 3.5. 1975 Ingibjörgu Bjarnadóttur, f. 5.6. 1955. Börn þeirra eru: 1) Edda Guðríður, f. 8.11. 1975, maki Jón Örn Ólafsson, f. 18.3. 1981. Börn þeirra eru Haukur Ingi, f. 14.4. 2011, Dóra María, f. 3.1. 2014, og Arnar Bjarni, f. 27.7. 2016. 2) Sigurbjörg Linda, f. 8.11. 1975, maki Haraldur Bjarnason, f. 24.6. 1972. Synir þeirra eru Óliver, f. 6.11. 1999, Kristinn Bjarni, f. 23.4. 2003, og Ævar Oddur, f. 1.3. 2006. 3) Dóra Birna, f. 29.9. 1978, maki Davíð Stefánsson, f. 26.10. 1979. Börn þeirra eru Ingibjörg Embla, f. 11.3. 2003, Tristan Þór, f. 4.4. 2006, Eldar Freyr, f. 22.1. 2008, og Yrsa Þöll, f. 24.1. 2012.
Ævar ólst upp í Hlíðunum, lauk prófi í rafvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1974 og starfaði sem slíkur í eitt ár að námi loknu. Hann keypti rekstur veitingastaðarins Nýgrills í Breiðholti sem hann rak í tvö ár þar til hann hóf störf hjá Sælgætisgerðinni Freyju sem verkstjóri. Árið 1980 keypti hann Freyju ásamt bróður sínum og ráku þeir fyrirtækið saman til ársins 2013 er Ævar keypti hlut bróður síns. Freyju rak hann ásamt fjölskyldu sinni til loka árs 2022.
Hjá Ævari var húmorinn og léttleikinn í forgrunni í samskiptum við fólk. Hann var jákvæður og bjartsýnn, sá tækifæri í öllu og hafi unun af því að leysa verkefni. Hann fékk ákveðna útrás fyrir framkvæmdagleðina í sveitinni, í sælureit fjölskyldunnar að Kaldbaki í Hrunamannahreppi.
Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 3. apríl 2025, klukkan 13.
Elsku pabbi, tengdapabbi og afi.
Það eru margar góðar minningar sem skjóta upp kollinum um góðan föður, afa og tengdaföður, það var alltaf stutt í góða skapið, húmorinn og af nógu að taka úr viskubrunni þínum. Allar ferðirnar á Kaldbak þar sem mikið var brallað enda naustu þín best að vera að gera eitthvað í sveitinni.
Mikið eigum við eftir að sakna þín, takk fyrir allt.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Linda Ævarsdóttir,
Haraldur Bjarnason,
Óliver Kristinn Bjarni,
Ævar Oddur.
Elsku tengdapabbi lést 20. mars sl. eftir fremur stutt en erfið veikindi. Við hittumst fyrst fyrir um 17 árum óvænt í dyragættinni í hesthúsi í Víðidal þegar ég hafði skroppið með Eddu að gefa hrossunum. Eftir hikandi svar um hvort ég kynni að sitja hest var ég á stuttermabol og joggingbuxum í útreiðartúr með pabba kærustu minnar til nokkurra vikna. Spjall í hálftíma reiðtúr var góð leið fyrir okkur að kynnast, en Ævar var húmoristi og deildi síðar svekkelsi yfir að hafa hitt mig svo óvænt því hann hafði undirbúið að stríða mér líkt og hinum tengdasonunum þegar hann hitti þá fyrst.
Næst hitti ég Ævar á Kaldbak, sælureit þeirra Ibbýjar sem við fjölskyldan höfum fengið að njóta með þeim. Ævar var úti á túni á Zetor-traktor og kom þar upp mál sem er líklega það eina í öll þessi ár sem við gátum ekki sammælst um, en það er ágæti Zetor-traktora sem hann vildi meina að væru afbragðstæki.
Ævar var líkt og ég í sveit sem barn og hafði dvöl hans í Hrólfsstaðahelli mótað hann og búið til margar góðar minningar sem hann deildi mörgum með okkur. Við mögnuðum upp sveitamanninn hvor í öðrum og var fljótt búið að kaupa nothæfan traktor (ekki Zetor), sláttuvél og fleira og sinntum við stórum hluta heyskaparins á Kaldbak, sem áður var úthýst til verktaka. Mig hafði dreymt um að verða bóndi án þess að gera neitt í því meira en skoða fasteignaauglýsingar. Helgi eina á Kaldbak hnaut ég um áhugaverða jörð til sölu og var ákveðið keyra þar framhjá á heimleiðinni. Okkur leist vel á og ég kitlaði drauminn við gerð rekstraráætlunar. Daginn eftir fékk ég símhringingu í vinnuna frá Ævari þar sem hann bað mig að hitta sig. Hann hafði boðað Eddu líka og reyndumst við stödd fyrir utan fasteignasölu. Eftir stutt spjall fyrir utan hafði hann fengið okkur til að prófa að leggja inn tilboð. Til að gera langa sögu stutta erum við Edda nú búin að vera bændur undir Eyjafjöllum í 15 ár.
Ævar velti ekki fyrir sér og lét sig dreyma um góðar hugmyndir, hann var maður framkvæmda. Að því höfum við dáðst og notið og í raun flestir landsmenn fengið að njóta í afurðum sælgætisgerðarinnar Freyju. Þar blómstraði frumkvöðullinn Ævar í alls konar tilraunum sem margar rötuðu í vöruúrval Freyju og aðrar í t.d. íssósu fjölskyldunnar með jólaísnum.
Uppspretta hugmynda hjá Ævari var ótakmörkuð og fékk hann ekkert stoppað, hann var „all-in“ í öllu sem hann tók sér fyrir hendur hvort sem var í vinnu, í sveitinni eða bara í nestiskaupum fyrir rjúpnaferðina. Ég á mér dýrmæta mynd þar sem hann var stoltur búinn að reiða fram hlaðborð á skottloki pallbílsins lengst uppi á hálendi, kjúklingur með brúnni sósu og öllu tilheyrandi ásamt úrvali drykkja sem ekki hefur sést ofan snjólínu. Húmorinn var bæði í orðum og gjörðum.
Ævar og Ibbý hafa dregið að sér fólk hvar sem þau komu með hlýju sinni, kærleik, jákvæðni og léttlyndi. Þau hafa sýnt hve fjölskyldan er þeim dýrmæt, haldið vel utan um hana og skipulagt hittinga. Góður maður og mikil fyrirmynd er genginn en minningarnar lifa. Takk fyrir allt elsku Ævar.
Jón Örn.
Ævari Guðmundssyni og Ingibjörgu Bjarnadóttur, eiginkonu hans, kynntumst við hjónin þegar Edda dóttir þeirra og Jón Örn sonur okkar fóru að rugla saman reytum sínum undir lok fyrsta áratugar þessarar aldar. Má segja að sá vísir að vináttu sem þá kviknaði hafi þroskast hratt eftir að Edda og Jón Örn keyptu jörðina Nýjabæ undir Eyjafjöllum og hófu þar búskap og innsiglaðist svo með ömmu- og afahlutverkinu þegar þrjú yndisleg barnabörn bættust í hópinn.
Árið var 2010 þegar tveir þokkalega vaskir menn að nálgast sextugt, báðir fyrrverandi sumardvalar sveitadrengir, hefja að ausa fróðleiksmolum hvor úr sínum viskubrunni um bústörf liðinnar aldar, með þeim góða vilja að slíkt kynni að gagni koma við nútíma landbúnaðarstörf. Óþarft er að hafa mörg orð um það hve vel hin 40-50 ára gamla þekking okkar jafnaldranna nýttist í bústörfin undir Eyjafjöllum, en Ævar var þó mörgum skrefum framar í þeim efnum enda hafði hann stundað hestamennsku um áraraðir og að auki heyjað að mestu sjálfur í hestana. Og hann kunni á Zetor!
Hvorki vélar né búfé fylgdu Nýjabæjarjörðinni þegar unga fólkið tók við henni árið 2010 og margt handtakið beið þeirra í viðhaldi og endurbótum á íbúðarhúsi, útihúsum, girðingum og í ræktun. Í þessu umhverfi sást vel krafturinn og framkvæmdagleðin sem Ævar bjó yfir. Í huga hans virtust engin verkefni of stór né óleysanleg, málið væri bara að hefjast handa því það væri eina leiðin að endamarkinu. Og ekki dró hann af sér sjálfur við verkin og var úrræðagóður. Gaman var t.d. að fylgjast með honum fyrstu heyskaparárin þegar hann stjórnaði gamalli og sérlundaðri pökkunarvél fyrir heyrúllur. Uppgjöf var ekki í hans huga þegar vélin lét ekki að stjórn og beitti hann ótrúlegri útsjónarsemi til að láta hana sinna sínu hlutverki. Ótal mörg voru viðvikin í sveitinni og er t.d. ofarlega í huga girðingarvinna þeirra hjóna, sem gengu samrýnd til þess verks eins og annarra. Þau voru eins og bestu atvinnumenn í greininni, hamhleypur í hvaða veðri sem var og því til vitnis standa ófáir metrarnir af fyrirmyndar girðingum á jörðinni.
Það var alltaf gaman að umgangast Ævar, hann var drífandi, gamansamur og hress í viðmóti. Heimsóknir til þeirra hjóna voru alltaf gefandi og áður en einhverjar málalengingar næðu yfirhöndinni við útidyrnar sagði Ævar hvellt: „Kaffi“ – hrynjandin í röddinni var þannig að manni fannst þetta ekki beinlínis boð heldur að þetta væri bara næst á dagskrá, enda aldrei neitað!
Erfið veikindin stöðvuðu hvorki gamansemina né framkvæmdahug Ævars. Í samtölum okkar ræddi hann iðulega um verkefnin sem væru í gangi eða fram undan og hann var mjög hvetjandi sínu fólki í þeim efnum.
Við leiðarlok er efst í huga söknuður við fráfall vinar samhliða þakklæti fyrir samferðina með góðum og skemmtilegum manni. Elsku Ingibjörg og fjölskyldur, megi kærleikur umvefja ykkur og góðar minningar ylja á þessum erfiða tíma og um alla framtíð.
Blessuð sé minning Ævars Guðmundssonar.
Ólafur Haukur og Inga Lára.
Okkar kæri Ævar, vinur, ferðafélagi og nágranni, er farinn í sumarlandið eftir baráttu við illvígan sjúkdóm sem hann tókst á við með miklu æðruleysi. Eftir sitjum við með sorg í hjarta.
Ævar var mikill gleðimaður og húmoristi, ævinlega með skemmtileg og hnyttin tilsvör. Það voru skemmtilegar ferðir sem við fórum með þeim hjónum Ingibjörgu og Ævari innanlands sem utan, tala nú ekki um allar veiðiferðirnar. Mikið hlegið og brallað saman. Þegar farið var erlendis þurfti aðeins að kíkja við í sælgætisbúð til að tékka á súkkulaðinu, nema hvað, Ævar var eigandi sælgætisgerðarinnar Freyju.
Ævar og Ingibjörg voru samheldin hjón. Gaman var að heimsækja þau austur fyrir fjall á Kaldbak, búgarðinn þeirra sem þau voru búin að gera svo fallega upp. Þar var tekið á móti okkur eins og kóngar færu þar um.
Við vorum heppin að fá þessu heiðurshjón sem nágranna, mikill samgangur og oft hringdi Ævar í okkur: „Sæll, granni hér, eigum við að …?“ Alltaf tilbúinn að gera eitthvað skemmtilegt. Nú bíður það þar til við hittumst næst okkar kæri vinur.
Við þökkum með virðingu og kærleik fyrir samveruna með Ævari, hvíli hann í friði.
Elsku Ingibjörg, Edda, Linda, Dóra Birna og fjölskyldur, við fjölskyldan vottum ykkur okkar innilegustu samúð. Minningin lifir um góðan vin.
Grannarnir
Karitas og Símon.
Í dag kveðjum við góðan félaga og nágranna, Ævar Guðmundsson. Hann var nágranni okkar í sveitinni í áraraðir, traustur og ráðagóður þegar til hans var leitað. Stundum settist ég niður í kaffi með þeim hjónum Ævari og Ingibjörgu og áttum við gott spjall, hvort sem það var um eitthvað sem var á döfinni hjá okkur eða bara um daginn og veginn, og ef langt var milli þess sem við sáumst í sveitinni var jafnvel tekinn upp síminn. Góðir grannar eru gulls ígildi og þannig var Ævar og eigum við eftir að sakna þess þegar hann vinkaði okkur hlýlega þegar við áttum leið um veginn.
Um leið og við þökkum Ævari samfylgdina í gegnum árin sendum við Ingibjörgu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Björn og Jóhanna, Kluftum.