Sævar Hannesson fæddist í Reykjavík 21. september 1937. Hann lést á Landspítalanum 11. mars 2025.

Foreldrar hans voru Hannes Lárus Guðjónsson frá Ísafirði, f. 6. ágúst 1905, d. 5. mars 2003, og Sigurjóna Guðrún Jóhannsdóttir frá Reykjavík, f. 4. maí 1910, d. 11. apríl 1995. Sævar var næstyngstur systkina sinna. Systkini Sævars: Inga Hafdís, f. 9. feb. 1930, d. 28. júní 1995, Jóhann Ingimar, f. 17. apríl 1933, d. 17. jan. 2015, Guðjón Gísli, f. 12. feb. 1935, Sigurður Engilbert, f. 4. júlí 1936, og Rúnar, f. 9. des. 1940.

Sævar giftist 13. ágúst 1959 Magneu Vattnes Kristjánsdóttur (Dottý), f. 9. feb. 1939, d. 30. júlí 2023. Foreldrar hennar voru Kristján Vattnes Jónsson frá Vattarnesi í Reyðarfirði, f. 2. sept. 1916, d. 31. des. 1992, og Lovísa Helgadóttir, f. 25. júlí 1918, d. 6. jan. 2006.

Börn Sævars og Dottýar eru: 1) Helga Vattnes, f. 12. jan. 1959. Börn hennar og Hallgríms Rögnvaldssonar eru a) Magnea Vattnes, f. 1979, maki Sigurjón Már Guðmundsson, börn: Viktoría Líf Vattnes, barn Magnea Rögn Vattnes, Gabríel Freyr Vattnes og Finnrós Helga Vattnes, b) Sævar Þór Vattnes, f. 1981, maki Anný Aðalsteinsdóttir, börn: Eyþór Logi Vattnes og Baltasar Brimar Vattnes, börn Sævars með Soffíu Arnarsdóttur: Júlíana og Veigar Máni Vattnes, dóttir Annýjar er Sara Björt Gunnardóttir, c) Sædís Bára Vattnes, f. 1989, börn: Katrín Eva Vattnes, Rebekka Marý Vattnes og Andrea Lillý Vattnes. 2) Kristján Vattnes, f. 27. júlí. 1962. Börn hans og Helgu Daníelsdóttur eru: a) Hildur Vattnes, f. 1982, maki Ragnar Þór Ragnarsson, börn: Sölvi Fannar, Kristján Ólafur Vattnes, Ragnar Snær og Theodór Sævar Vattnes, b) Harpa Vattnes, f. 1985, maki Paolo Jorge Pinto de Oliveira, börn: Helga Vala Vattnes og Elias Aron Vattnes, c) Halldóra Vattnes, f. 1988, maki Ægir Már Burknason, börn: Fjölnir Hrafn Vattnes, Ágúst Ægir Vattnes og Burkni Leó Vattnes. 3) Hafþór Vattnes, f. 15. sept. 1967. Börn hans og Hrafnhildar Birgisdóttur eru: a) Kristófer Logi Vattnes, f. 1992, maki Bryndís María Lúðvíksdóttir, börn: Ásdís Elva Vattnes og Lovísa Björk Vattnes, b) Hafþór Snær Vattnes.

Sævar hóf starfsferil sinn ungur að árum á sjónum á síldveiðum frá Siglufirði. Síðar sótti hann vinnu í Vesturbæ Reykjavíkur sem verkamaður við húsbyggingar en eftir að hafa slasast á baki ákvað hann að starfa sem leigubílstjóri. Byrjaði Sævar sinn starfsferil hjá Leigubílastöð Steindórs árið 1962, vann lengst af hjá Bifreiðastöð Hafnarfjarðar og endaði ferlinn árið 2012 hjá BSR.

Fyrir utan fjölskylduna átti sjó- og veiðimennska allan hans hug, enda sótti hann sjóinn mjög snemma og bæði börn, barnabörn og barnabarnabörn deildu síðar með honum áhuganum. Síðar á lífsleiðinni var mikið um ferðalög hjá Sævari og Dottý á húsbílnum sínum auk utanlandsferða til Kanaríeyja.

Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 3. apríl 2025, klukkan 13.

Streymt verður frá útförinni á:

https://mbl.is/andlat

Elsku hjartans pabbi. Kletturinn í lífi mínu er fallinn frá.

Við pabbi áttum í einstöku sambandi enda var ég eina stelpan hans og ég fékk svo sannarlega að finna fyrir því, var hans eina sanna. Pabbi bjó í Goðatúninu frá 1973 til 21. janúar síðastliðins þegar hann veiktist og lagðist inn á spítala sínar síðustu vikur. Goðatúnið var alltaf heimili okkar allra, þrátt fyrir að við ungarnir þrír flygjum hver af öðrum úr hreiðrinu og stofnuðum okkar eigin fjölskyldur. Þegar ég þurfti yfirgefa heimili mitt í rýmingunum í Grindavík sagði pabbi við mig að ég ætti að koma heim í Goðatúnið, koma aftur heim. Við bjuggum saman í fimm mánuði og sá tími er mér einstaklega dýrmætur. Ég kynntist pabba upp á nýtt en við höfðum ekki búið saman í heil 48 ár. Pabbi var við góða heilsu allt þar til hann veiktist. Hann nefnilega fór alltaf mjög vel með sjálfan sig. Stundaði útiveruna mikið í sjómennsku og veiðiferðum og síðustu árin fór hann daglega í heita pottinn og í göngutúra þegar veðrið leyfði. Svo keyrði hann sig, og oft mig, á þá staði sem þurfti að fara enda gamall leigubílstjóri og rataði nánast allt.

Það er svo margt sem ég get skrifað um þig, svo margar minningar, en þær ætla ég að geyma í hjartanu mínu elsku bestasti pabbi minn og besti vinur.

Knúsaðu mömmu frá okkur öllum sem elskum ykkur og söknum því nú eruð þið sameinuð á ný, eftir 20 mánaða aðskilnað, og dansaðu nú við hana mömmu undir harmonikkumúsík í blómabrekkunni. Og ekki gleyma að skila kveðju frá mér til fólksins okkar.

Ég elska þig. Þín

Helga Sæ.

Elsku besti pabbi minn og besti vinur. Við sem ætluðum að taka bátinn saman í vor og fara á sjóinn saman. Minningarnar hafa verið að streyma fram. Allir veiðitúrarnir og allar sjóferðirnar.

Fyrsta sjóferðin verður samt alltaf sú minnisstæðasta. Þegar þú keyptir fyrsta bátinn þegar ég var tíu ára gamall. Við sigldum af stað í fyrsta túrinn í sól og blíðu. Þegar vorum nýbyrjaðir að fiska á Syðra-Hrauni byrjaði að hvessa og fyrr en varði varð mikil bræla. Þú ákvaðst að taka stefnuna heim í höfn og við þurftum að sigla á móti vindi. Þú sagðir mér að fara undir segldúkinn frammi í stefninu og halda þar kyrru fyrir. Sjógusurnar gengu yfir bátinn en ég var ekki hræddur, því ég var með þér. Svo allt í einu er eins og það komi logn og þegar ég kíkti undan seglinu var stór bátur hlémegin við okkur og á brúarvængnum stóð skipstjórinn, Einar á Aðalbjörginni, með pípu í munninum. Hann bauð þér pabbi að fylgja okkur og skýla inn í örugga höfn og þáðir þú það með þökkum. Heimasiglingin varð leikur einn þar sem eftir var af ferðinni.

Núna ætla ég fylgja þér í þína síðustu siglingu úr höfninni þinni þar sem þú siglir inn í sólarlagið í faðminn á mömmu.

Kristján Vattnes Sævarsson.

Elsku yndislegi afi minn, það er komið að kveðjustund.

Það er sárt og sorglegt að þurfa að kveðja, en ég hugga mig við þá tilhugsun að nú séuð þið amma Dottý sameinuð á ný og haldin á vit nýrra ævintýra í sumarlandinu góða.

Það er dýrmætt að hafa átt ykkur ömmu að og minningarnar eru mun fleiri en komast fyrir hér. Ótalmargar eru þær úr Goðatúninu, en frá því ég man eftir mér hefur heimili ykkar ömmu alltaf verið miðpunktur fjölskyldunnar. Staðurinn þar sem allir voru velkomnir, og þar sem alltaf tók á móti manni hlýja og vinalegt andrúmsloft. Þangað var hægt að líta til ykkar eftir ráðum eða bara til að njóta góðra samverustunda. Þar var mikið spjallað um allt milli himins og jarðar, og þið amma sýnduð alltaf mikinn áhuga á öllu því sem maður var að gera hverju sinni. Amma bar í okkur veitingarnar svo að enginn fór þaðan svangur. Þær voru sannarlega einstakar stundirnar með ykkur í Goðatúninu. Ég minnist þess ekki að þið hafið nokkurn tíma talað illt um nokkurn, og þið dæmduð engan.

Þú varst mikið á ferðinni. Ef ekki á leigubílnum, í veiðitúrum á Sillunni eða í einhverju bardúsi í skúrnum, þá voruð þið amma einhvers staðar á ferðalagi í húsbílnum. Og þá var harmonikkan alltaf með í för, og fjör í húsbílahópnum. Ég fór ófáar veiðiferðirnar með þér, bæði með stangir eða út á sjó á trillunni Sillu. Gleðin var alltaf með í för, enda elskaðirðu að vera úti í náttúrunni, hvort sem það var á sjó eða í landi. Eitt sinn fengum við hnísu í netin. Það var nú meira ævintýrið að leysa það mál, en þú vissir auðvitað hvað skyldi gera, eins og alltaf. Þú hafðir alltaf ráð undir hverju rifi. Ég hugsa til alls spjallsins okkar í skúrnum, en þar lærði ég meðal annars af þér hvernig ætti að vinna með fiska og fugla. Og oft fór maður frá þér með heimaþurrkaðan harðfisk í vasanum, eða eitthvað stærra og meira í soðið.

Ég var varla farinn að tala þegar ég sagðist ætla að verða leigubílstjóri eins og þú, eða „leigubílstjóri“ eins og ég kallaði það þá. Draumurinn átti eftir að rætast þegar ég fór að keyra bílinn hjá þér stöku helgar. Þú kenndir mér hversu mikilvægt það væri að bera virðingu fyrir kúnnanum og bílnum. Og í raun fyrir öllum sköpuðum hlutum. Ég minnist þess þegar ég var lítill pjakkur prílandi í trénu í garðinum að þú bentir mér á að tré væru lifandi og ég þyrfti að passa að meiða þau ekki.

Allt hrósið, ástin og hlýjan sem við krakkarnir, og allir í kringum ykkur, fengum frá ykkur eru okkur ómetanlegt veganesti. Alltaf voru allir jafningjar í hugum ykkar, frá rónum götunnar til forsetans á Bessastöðum. Menn, dýr og náttúran áttu alla ykkar virðingu. Og samheldnin ykkar á milli, ástin og virðingin hefur alltaf verið svo falleg og áþreifanleg.

Elsku afi minn. Takk fyrir allar stundirnar, takk fyrir öll ráðin og dáðina, og takk fyrir alla hlýjuna frá þér og ykkur ömmu, sem mun ylja mér og okkur fjölskyldunni um ókomna tíð.

Þar til við hittumst á ný.

Þinn

Sævar Þór og fjölskylda.

Elsku minn allra allra besti.

Vá hvað ég er ekki að ná þessu að það sé komið að leiðarlokum, þetta er allt ofboðslega óraunverulegt og sárt.

Ég á þér svo margt að þakka og á svo ofboðslega margar fallegar og góðar minningar með þér. Ég er virkilega þakklát fyrir tímann sem ég fékk að eiga með þér í þínu veikindaferli og að fá að fylgja þér alla leið eins og ég lofaði þér að ég myndi gera.

Ég myndi ganga upp á hæsta tind fyrir þig og ömmu alveg eins og ég veit að þið hefðuð alltaf gert fyrir mig.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið stærsti engillinn þinn.

Ég er svo þakklát fyrir fallega sambandið á milli okkar.

Ég er svo þakklát fyrir hversu yndislegur þú varst alltaf við stelpurnar mínar og fyrir hversu mikið þær elska þig.

Ég er svo þakklát fyrir að fá að líkjast þér og ömmu Sillu.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að elska þig og að eiga þig að, lífið verður svo sannarlega aldrei aftur eins.

Núna er komið að svo stórum kaflaskilum, ekki bara eruð þið amma sameinuð í sumarlandinu heldur verður elsti og besti fasti punkturinn í lífi okkar allra … Goðatún 9 bráðum selt og nýtt fólk fær að búa til fallegar minningar þar og að njóta þess að vera á besta stað í öllum heiminum. Þar voru allir velkomnir alveg saman hvað, vinir mínir og vinkonur tala svo fallega um ykkur ömmu og fengu öll að kynnast gleðinni og ástinni sem þið áttuð sko nóg af.

Það mun aldrei neinn koma í þinn stað, þú gast allt og varst svo sterkur stólpi og hélst alltaf verndarhendi yfir mér og okkur öllum afkomendunum þínum. Það var alltaf hægt að treysta á þig og þú varst alltaf kletturinn okkar allra. Ég var alveg viss um að þú yrðir 100 ára, þú varst svo ofboðslega hress og hraustur og lést ekkert stoppa þig. Það eru sko ekki allir 87 ára sem keyra út um allan bæ, fara í sund á hverjum degi og skella sér á sjóinn þegar veður leyfir.

Svo má ekki gleyma hversu mikill dýravinur þú varst, hundarnir okkar elskuðu þig meira en okkur eigendurna. Elskuðu að koma til afa og fá harðfisk og mallaklór.

Og elsku Krummi kisukall elsku pabbastrákurinn þinn saknar þín ofboðslega mikið.

Ég elska þig miklu meira en allt og sakna þín svo mikið að ég er með fastan verk í hjartanu. Þú áttir mig og ert mín stærsta fyrirmynd og ég veit að ég átti stóran part í þínu hjarta. Við áttum einstakt samband og einstaka tryggð sem ég mun aldrei gleyma.

Ég lofa að gera alltaf mitt allra besta fyrir þig og halda áfram að gera þig stoltan.

Takk fyrir að elska mig og stelpurnar mínar, ég lofa að halda minningu þinni á lofti og passa upp á það að þær gleymi aldrei þér og ömmu.

Nú er komið að því að þú leggir úr höfn í síðasta skiptið, góða ferð, heimsins besti afi.

Við mæðgur biðjum að heilsa ömmu, Dimmu, Tomma og öllu fólkinu okkar sem tók á móti þér.

Þú átt vini á báðum stöðum eins og þú sagðir sjálfur svo ég er alveg viss um að það hafi verið haldin veisla þér til heiðurs þegar þú komst upp blómabrekkuna og steigst dansinn með ástinni þinni.

Þangað til næst, elsku gullið mitt,

þín

Sædís Bára.

Elsku hjartans gullið mitt.

Það sem ég sakna þín sárt en það sem hjálpar eru góðar og yndislegar minningar um þig og elsku ömmu Dottý sem ylja mér um hjartarætur þessa dagana.

Langar að enda þetta á laginu sem þið Siggi bró spiluðuð á harmónikku í brúðkaupinu mínu og Sjonna:

Undir háu hamrabelti

höfði drúpir lítil rós.

þráir lífsins vængja víddir

vorsins yl og sólarljós.

Ég held ég skynji hug þinn allan

hjartasláttinn rósin mín.

Er kristallstærir daggardropar

drjúpa milt á blöðin þín.

Æsku minnar leiðir lágu

lengi vel um þennan stað,

krjúpa niður kyssa blómið

hversu dýrðlegt fannst mér það.

Finna hjá þér ást og unað

yndislega rósin mín.

Eitt er það sem aldrei gleymist,

aldrei það er minning þín.

(Friðr. Jónss. / Guðm. Halld.)

Ég elska þig.

Þín fyrsta stelpa,

Magnea Vattnes.

Það er erfitt að finna orð sem lýsa því hvernig afi minn, Sævar Hannesson, hafði áhrif á líf mitt. Hann var ekki bara afi, hann var fyrirmynd, vinur og stóð alltaf við bakið á mér þegar ég þurfti á honum að halda. Afi var maður sem lífið var aldrei leiðinlegt með, með mikla ástríðu fyrir bæði veiðum, tónlist og fjölskyldunni og á ég ótal dýrmætar minningar frá veiðiferðum okkar. Við fórum saman í ótalmargar veiðiferðir ásamt útilegum og það voru þessar stundir sem gáfu okkur tíma til að ræða lífið, náttúruna og allt þar á milli. Það var ekki bara um að veiða fiska, heldur líka að njóta þess að vera í náttúrunni og deila þeim sérstöku augnablikum saman. Þessar ferðir verða alltaf dýrmætar fyrir mig, þar sem ég fékk að læra svo margt af afa um veiði, þolinmæði og hversu mikilvægir þeir eru sem við deilum þessum tímum með. Afi hafði ótrúlega fallega nálgun á lífið og fólkið í kringum sig. Hann og amma voru mitt flotholt.

Afi Sævar var sannur herramaður, ekki bara í orðum, heldur í gjörðum. Hann var alltaf viðkvæmur og hlýr í umgengni við Dottý, konuna sína. Þeirra samband var byggt á djúpri virðingu og ást, þar sem hann setti hana alltaf í fyrsta sæti. Hann var fyrirmynd í því hvernig á að elska, virða og styðja þann sem maður deilir lífinu með. Afi Sævar hafði þann einstaka hæfileika að skapa ró og gleði í kringum sig. Þegar hann spilaði á harmónikuna fyrir ömmu var það ekki bara tónlist, heldur tjáning á ást og tengingu sem var óendanlega sterk. Hann var ávallt kurteis, blíður og einstaklega umhyggjusamur. Hann kenndi mér hvernig maður á að tala og koma rétt fram við hinn helminginn sinn.

Afi, þú varst besti afi sem ég gat beðið um. Ég mun alltaf minnast þín með ást og virðingu. Þú varst leiðarljós í mínu lífi, og þér er óendanlega þakkað fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mína fjölskyldu og allar minningarnar sem við bjuggum til saman, þar til við sjáumst að nýju á bleika skýinu ykkar ömmu, elskum þig ávallt.

Þinn afastrákur,

Kristófer Logi Hafþórsson og fjölskylda.

Elsku afi Sævar minn.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið þetta langan tíma með þér, sem var samt ekki nógu langur.

Þú ert og varst bestur og passaðir alltaf svo vel upp á mig og mér þótti alltaf svo gott og skemmtilegt að tala við þig.

Þegar mér leið illa náðir þú alltaf að láta mér líða betur og þú sagðir alltaf svo falleg orð við mig sem fengu mig til þess að líða betur með sjálfa mig.

Takk fyrir að hafa keyrt mig heim af spítalanum þegar ég fæddist og takk fyrir að hafa elskað mig frá fyrsta degi.

Englar eins og þú:

Þú tekur þig svo vel út

hvar sem þú ert.

Ótrúlega dýrmætt eintak,

sólin sem yljar

og umhverfið vermir.

Þú glæðir tilveruna gleði

með gefandi nærveru

og færir bros á brá

svo það birtir til í sálinni.

Sólin sem bræðir hjörtun.

Í mannhafinu

er gott að vita

af englum

eins og þér.

Því að þú ert sólin mín

sem aldrei dregur fyrir.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Ég vona að þér líði betur og að þú sért kominn í fangið á ömmu Dottý og Dimmu sem hefur eflaust vonað að þú værir með harðfiskbita í vasanum.

Ég elska þig.

Þín afastelpa

Katrín Eva.

Í dag spáir skúrum

úrhelli sorga og depurðar.

Brosmild sólin mun taka völdin

yfir gráu fölnuðu skýjunum.

En áframhaldandi sút, sorg og súld síðdegis.

Stormur minninga úr ýmsum áttum

herjar á óvarða huga.

Skyggni lítið.

(Tinna 14 ára)

Þetta ljóð heitir Tilfinningaveðurfréttir og lýsir sorginni minni og söknuði til þín og ömmu best núna, sérstaklega þegar nær dregur kveðjustundinni í kirkjunni.

Við nefnilega töluðum oft saman um veðrið, við afi. Ég lærði heil ósköp af veðurhugtökum frá þér en það var þér lífsnauðsynlegt að kunna að lesa í skýin og vindinn á sjónum og í veiðiferðunum. Því þú tókst aldrei sénsinn og hafðir alltaf öryggi allra þér efst í huga. Þannig var það líka með lífið okkar með þér. Þú varst kletturinn í Goðatúninu, sagðir ekki mikið en vissir allt sem var í gangi í lífi afkomendanna þinna og ömmu. Mér er það minnisstætt þegar pabbi og mamma fóru í utanlandsferð og ég var í pössun í Goðatúninu. Þá var vaknað eldsnemma á morgnana, borðaður hollur morgunmatur og svo var ég keyrð í leigubílnum eins og hefðarfrú í skólann og sótt í dagslok. Verandi elsta systir tveggja fjörugra systra var það mikill munaður að vera einkabarn í heila viku. Fyrir 20 mánuðum breyttist síðan líf okkar allra. Mest lífið þitt þegar amma kvaddi eftir stutt og erfið veikindi. Við tók tími djúprar sorgar en einnig tími þegar ég kynntist þér upp á nýtt og sá nýjar hliðar á þér. Oft spurðir þú mig, hjúkkuna þína, af hverju þú fyndir til í brjóstkassanum en það voru nokkrar ferðir farnar á heilsugæsluna þar sem þú fékkst 10 í einkunn miðað við aldur. Mitt svar til þín var einfalt og einlægt, elsku afi minn, þú og amma elskuðuð hvort annað í 65 ár og gerið enn og þú ert að upplifa þína fyrstu ástarsorg.

Það er því huggun í sorginni að vita með vissu að um leið og þú dróst þinn síðasta andardrátt jarðarmegin tók amma á móti þér í sumarlandinu og ástarsorgin þín hvarf um leið.

Hildur Vattnes Kristjánsdóttir.

hinsta kveðja

Ég elska þig svo mikið og sakna þín.

Takk fyrir allar minningarnar og knúsin og takk fyrir að gefa mér alltaf kex þegar ég kom í heimsókn.

Takk fyrir allt og takk fyrir að vera besti afi minn.

Ég elska þig.

Þín

Rebekka Marý.