Sesselja Elísabet Þorvaldsdóttir er fædd 3. apríl 1925 í Grunnavík en flutti fljótlega í Hnífsdal.
Hún var elst í stórum systkinahópi og lífið var svolítið basl á þessum tíma. Sum barnanna voru send í fóstur í mislangan tíma. Elsa, eins og hún var jafnan kölluð, minnist atviks þegar hún var send til kaupmannsins til að kaupa nokkrar kringlur fyrir börnin við eitthvert tilefni. Hún kom tómhent heim en kaupmaðurinn sagðist taka aurana upp í skuld.
Elsa gekk í barnaskóla í Hnífsdal og síðan í gagnfræðaskóla á Ísafirði. Síðar nam hún við húsmæðraskólann á Ísafirði.
Elsa kynntist Finnboga manni sínum á dansleik í Hnífsdal, en hann var þá við nám í húsasmíði á Ísafirði. Þau hófu búskap á Flateyri við Önundarfjörð eftir trúlofun 1944 og voru gefin saman í hjónaband 19. október 1946. Þau höfðu því verið gift í rúmlega 76 ár þegar Finnbogi lést 2022.
Ekki var næg atvinna fyrir ungan húsasmið á Flateyri, sem varð til þess að fjölskyldan flutti suður 1953 en þá höfðu bæst við tveir synir. Bjó fjölskyldan í einu litlu herbergi hjá Valdimar bróður Finnboga á meðan hann reisti einbýlishús að Digranesvegi 61 sem síðar varð númer 103 og enn síðar Digranesheiði 25. Síðustu búskaparárin voru svo að Gullsmára 9.
Eftir uppeldi barnanna vann Elsa við fiskvinnslu, í prentsmiðju og síðar í niðursuðuverksmiðju. Þá starfaði hún nokkuð í seinni tíð fyrir mæðrastyrksnefnd í Kópavogi. Báðum auðnaðist þeim heilsa til að vinna fram undir sjötugt.
Fjölskylda
Eiginmaður Sesselju var Finnbogi Ingiberg Jónasson, f. 13.7. 1924 á Ytri-Húsum í Dýrafirði. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Sólvangi 10.1. 2022. Foreldrar hans voru Jónas Jón Valdimarsson vélstjóri, f. 25.7. 1898, d. 2.11. 1974, og Kristbjörg Þóroddsdóttir, f. 27.8. 1902, d. 21.8. 1997.
Börn Elsu og Finnboga: 1) Reynir, yfirsímritari, f. 18.10. 1947, d. 3.10. 1976; 2) Þorvaldur, ökukennari og fyrrverandi forstöðumaður, f. 2.11. 1951, maki: Herdís K. Hupfeldt, veitingamaður, f. 9.1. 1950, börn þeirra eru Elísabet, f. 9.7. 1977, maki: Sigurður Jónsson, f. 20.9. 1972, börn þeirra eru Þorvaldur Snær, f. 1.8. 1999, Brynjar Eyberg, f. 14.11. 2006 og stjúpbarn Elísabetar, Sigurður Pálmi Sigurðarson, f. 18.3. 1993; Reynir Berg, f. 25.5. 1981, maki var Áslaug Björgvinsdóttir, f. 1.10. 1982, börn þeirra eru Björgvin Már, f. 22.4. 2009, Herdís Lóa, f. 29.9. 2011 og Ragnar Hrafn, f. 24.4. 2020. Stjúpbörn Þorvaldar: Sveinn Hupfeldt, f. 3.2. 1969, d. 21.3. 1990, og Arnþór Hupfeldt, f. 14.5. 1971, maki: Linda Þorsteinsdóttir f. 8.11. 1977, börn þeirra eru Lilja Nótt, f. 3.6. 2003, og Sveinn, f. 27.2. 2008; 3) María Bjarndís, sjúkraliði og heilsunuddari, f. 6.11. 1957, maki: Birgir Sigurjónsson, flugvirki, f. 25.3. 1958, börn þeirra eru Berglind, f. 4.3. 1988, sambýlismaður: Svavar Jón Árnason, f. 5.8. 1987, Dagný, f. 6.12. 1991, og stjúpbarn Birgis er Finnbogi Óskar Ómarsson, f. 3.6. 1982, maki: Line Nörgaard, f. 6.3. 1982, börn þeirra eru Egill, f. 4.7. 2015 og Saga María, f. 27.11. 2018.
Systkini Sesselju: Níelsína, fiskverkakona í Bolungarvík, f. 18.8. 1927, d. 8.5. 2012, Margrét, hjúkrunarfræðingur í Kópavogi, f. 23.9. 1928, d. 7.4. 2024, Pétur, sjómaður í Hnífsdal, f. 26.3. 1930, d. 6.10. 2014, Finnur, leigubílstjóri í Reykjanesbæ, f. 15.4. 1931, d. 26.9. 2020, Halldór, bifvélavirki í Reykjavík, f. 9.6. 1932, d. 18.5. 2000, Jón Arnór, múrari í Hafnarfirði, f. 10.8. 1933, d. 30.1. 2012, Gunnar, bjó í Dalasýslu, f. 15.11. 1934, d. 11.10. 2020, og Jóhanna Stella, búsett í Reykjanesbæ, f. 30.4. 1938. Hálfbróðir Sesselju var Guðmundur Skúlason, bjó á Ísafirði, f. 22.7. 1921, d. 25.6. 2005.
Foreldrar Sesselju voru Þorvaldur Pétursson, sjómaður í Hnífsdal, f. 12.5. 1897 í Seljadal, N-Ís., d. 10.1. 1956, og Guðrún Guðjónsdóttir, húsmóðir í Hnífsdal, f. 18.7. 1896 á Nauteyri, N-Ís, d. 6.7. 1996.