Þrá Jóhann Axel Ingólfsson og Sigríður Ásta Olgeirsdóttir í hlutverkum sínum í söngleiknum Dietrich.
Þrá Jóhann Axel Ingólfsson og Sigríður Ásta Olgeirsdóttir í hlutverkum sínum í söngleiknum Dietrich.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það hlýtur að þurfa umtalsverða djörfung til að bregða sér í gervi Marlene Dietrich. Konan er jú í dag nánast eingöngu þekkt fyrir ómótstæðilegan kynþokka og útgeislun – eiginleikar sem engin leið er að „þykjast hafa“, svo við…

Af sviðslist

Þorgeir

Tryggvason

Það hlýtur að þurfa umtalsverða djörfung til að bregða sér í gervi Marlene Dietrich. Konan er jú í dag nánast eingöngu þekkt fyrir ómótstæðilegan kynþokka og útgeislun – eiginleikar sem engin leið er að „þykjast hafa“, svo við notum bernskt en ekki óviðeigandi orðalag um list leikarans. Enginn hefur séð myndirnar hennar nema grúskarar, og lögin sem lifa í hugum flestra í flutningi hennar eru kannski þrjú. Kannski er hennar líka minnst fyrir tvíkynhneigð, sem fáum þykir lengur í frásögur færandi, og allavega alls ekki ámælisverð.

En auðvitað er samt saga þarna. Á köflum hreinlega mannkynssagan. Örlögin haga því þannig að hin unga Marlene, rísandi stjarna eftir Bláa engilinn, er í Hollywood þegar nasistar taka sér alræðisvald í Þýskalandi. Henni tekst að fá til sín eiginmann, dóttur og hjákonu eiginmannsins, gerist fljótlega einarður andstæðingur nasismans og staðfastur vinur síns nýja föðurlands. Og þó fjari hratt undan kvikmyndaferlinum þegar leiðir skilur með henni og leikstjóranum Josef von Sternberg dofnar frægðarsólin ekki fyrr en löngu síðar, þegar elli kerling nær í skottið á dívunni.

List Marlene Dietrich fólst kannski fyrst og fremst í því að vera stjarna. En hvernig var hún? Hvað dreif hana áfram? Listrænn metnaður? Græðgi? Sjálfselska? Og hvað sáu aðdáendur hennar í henni? Það er ekki gott að segja, og sýningin Dietrich sem gengur þessa dagana í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll gefur fáar vísbendingar, umfram það að rekja æviferilinn, mikið til í eintölum en einnig í samræðum Marlene við nokkra karla, einkum Sternberg og eiginmanninn. Umfram allt þó að flytja lögin af söngskrá Dietrich.

Þar skín hún líka skærast. Sigríður Ásta Olgeirsdóttir er flink og snjöll söngkona, sem greinilega hefur lagt sig í líma við að ná tökum á stíl og túlkunarkenjum söguhetjunnar og gerir það alls staðar vel og stundum frábærlega. Lögin eru líka skemmtilega fjölbreytt, frá þýskum Weimar-slögurum til einlægs og pínu banal baráttusöngs Pete Seeger um blómin á leiðum fallinna hermanna, með viðkomu í söngbók annarrar söngstjörnu, Edith Piaf. Þetta er allt áheyrilegt og það besta afbragð.

Sviðsetningin er líka ágætlega lipur hjá Snædísi Lilju Ingadóttur, sem einnig kom að handritsgerðinni með Sigríði Ástu og Jóhanni Axel Ingólfssyni. Sá síðastnefndi spilar undir af listfengi og öryggi, og bregður sér auk þess í öll önnur hlutverk en Dietrich sjálfrar. Gerir það vel, sérstaklega verður eiginmaðurinn Rudi heilsteypt mannsmynd úr litlu efni. Sternberg kannski óþarflega litlaus. En það er líklega fyrst og fremst vegna þess hvernig verkið er formað og skrifað. Hvað það lætur ósagt og kafar ekki í.

Dramatískara og nærgöngulla verk hefði vafalaust skoðað samvinnu þessara tveggja viljasterku listamanna betur. Slíkt verk hefði heldur ekki afgreitt meðferð þeirra hjóna á hjákonunni Tamöru Matul í aukasetningu. Þar er nú aldeilis efniviður.

En eins og í lífi þessa fólks, og í hugum almennings á öllum tímum, á Marlene sviðsljósið og stýrir því, eins og von Sternberg stýrði ljósunum sem hann notaði til að móta ímynd hennar í upphafi ferilsins. Þar lætur hún ljós sitt skína og gerir það firnavel í tónrænni túlkun Sigríðar Ástu. Ástríða hennar fyrir verkefninu blasir alls staðar við.