„Það eina sem ég hef fundið um þessa bleiku klessu er að þar sé gert ráð fyrir 100 íbúðum,“ segir Þóra Þórsdóttir, íbúi í Grafarvogi, um afmarkað byggingarland á Thorsvelli, við Korpúlfsstaði, sem merkt var með bleikum lit í…

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Það eina sem ég hef fundið um þessa bleiku klessu er að þar sé gert ráð fyrir 100 íbúðum,“ segir Þóra Þórsdóttir, íbúi í Grafarvogi, um afmarkað byggingarland á Thorsvelli, við Korpúlfsstaði, sem merkt var með bleikum lit í kynningarglæru borgarstjóra á fundi um uppbyggingu í borginni í síðustu viku.

Hún segist hafa vitað af þéttingarreitum við Starengi þar sem standi til að byggja blokkir, en sér hafi brugðið verulega þegar hún sá að búið var að afmarka byggingarreit á golfvellinum.

„Við Starengi stendur til að byggja háar blokkir og það fengust ekki skýr svör um hvað nákvæmlega ætti að gera og vísað til gagna sem sýndu ekki mikið. Svo kom það fram á glærusýningu borgarstjóra, þar sem húsnæðisuppbygging í borginni var kynnt, að mun stærri reitur væri fyrirhugaður á golfvellinum.“

Þóra segist búa í Grafarvogi vegna nálægðar við náttúruna.

„Svo stend ég frammi fyrir því að það eigi að loka mig inni í einhverju gímaldi af blokkum hér í kring sem koma til með að byrgja fyrir allt útsýni. Þetta er fáránleg hugmynd og ef það á að setja 100 íbúðir á þennan reit þá verður það aldrei annað en blokkir sem taka frá okkur alla fjallasýn. Ef af þessu verður yrði það algjör hryllingur eins og við sjáum á þessum þéttingarreitum annars staðar í borginni.“

Í samvinnu við golfklúbbinn

Björn Axelsson skipulagsfulltrúi Reykjavíkur segir umrætt svæði hluta af greiningarvinnu sem unnin var í samvinnu við Golfklúbb Reykjavíkur.

„En eftir nánari skoðun var talið að þetta væri ekki góður staður þar sem þessi völlur er mikið notaður. Thorsvöllur er vinsæll völlur sem er opinn allan ársins hring og er æfingasvæði GR-inga þannig að það er búið að setja þennan reit á ís í bili.“

Spurður hvers vegna reiturinn hafi verið afmarkaður sem fyrirhugað byggingarsvæði á kynningarfundi borgarstjóra í síðustu viku segir Björn að það hafi verið glæra sem var almennt um einhverjar hugmyndir sem eru umdeildar í Gafarvogi.

„Þetta var fylgiglæra með þeim upplýsingum en þetta er reitur sem er ekki á dagskrá að fara í með nokkrum hætti og við myndum aldrei gera það án samstarfs við Golfklúbb Reykjavíkur.“

Mögulega blönduð byggð

Hann segir niðurstöðuna hafa verið að skoða þetta ekki frekar og þessi reitur hafi ekki sérstaklega verið kynntur þótt hann hafi verið á glærunni.

„Glæran var almennt til upplýsingar um hina og þessa reiti sem hafa verið til skoðunar í Grafarvogi. Þetta er ekki framtíðarreitur hjá okkur í bili og við myndum aldrei fara í hann án þess að gera það í samstarfi við Golfklúbbinn.“

Björn segir golfklúbbinn með samning um afmarkað svæði og þessi reitur sé innan þess svæðis.

„Við vissum það þegar við fórum af stað með þetta en þetta var bara greiningarvinna sem við erum búin að leggja til hliðar í bili.“

Spurður hvað hafi verið gert ráð fyrir mörgun íbúðum á reitnum og hvort talan 100 væri rétt segir Björn að hann viti ekki hvaðan sú tala komi, en það hafi ekki eingöngu verið skoðað að byggja þarna íbúðir, heldur líka mögulega atvinnustarfsemi og einhvers konar blöndu af íbúðum og atvinnuhúsnæði, en það hafi ekki verið farið neitt lengra með það.

„Þetta var samstarfsverkefni GR og Reykjavíkurborgar um að skoða einhver uppbyggingartækifæri í grennd við vellina. Við skoðuðum líka möguleika við Grafarholtsvöllinn og þar varð einn reitur til við Stórhöfðann, sem er við endann á æfingasvæðinu við Bása. Hann hefur verið staðfestur í deiliskipulagi þótt uppbygging sé ekki hafin,“ segir Björn Axelsson.

Gísli Hall formaður GR staðfesti að þessar hugmyndir hefðu verið unnar af fyrri stjórn en Golfkklúbburinn hefði engin áform um breytingar á athafnasvæði sínu við Thorsvöllinn.

Höf.: Óskar Bergsson