Tiltekt Donald Trump forseti Bandaríkjanna heimsótti Kennedy Center á dögunum og lofaði að taka til hendinni.
Tiltekt Donald Trump forseti Bandaríkjanna heimsótti Kennedy Center á dögunum og lofaði að taka til hendinni. — AFP/Jim Watson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trump segist vilja sjá til þess að stofnunin verði almennilega rekin og að nú sé komið gott af dragsýningum og almennum „woke“-isma. Sýningarnar séu bæði hræðilegar og til skammar.

Af listum

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur farið mikinn að undanförnu í flestum ef ekki öllum hugsanlegum málaflokkum. Listaheimurinn hefur ekki farið varhluta af þessum hreinsunum Trumps. Í síðustu viku gaf hann út tilskipun sem tók til málefna Smithsonian-stofnunarinnar en undir stofnunina heyra 21 safn og dýragarður. Markmiðið er að útrýma „and-bandarískri hugmyndafræði“ og koma aftur á „sannleika og skynsemi í bandarískri sögu“. Þingið eigi til dæmis ekki að styrkja sýningar sem „flokki Bandaríkjamenn eftir kynþáttum“ og grafi undan vestrænum gildum. Nefndi hann í því samhengi söfn á borð við National Museum of African American History and Culture.

Gefur villandi mynd

„Þarna er verið að gefa ranga mynd af þeim rannsóknum sem stundaðar eru við Smithsonian,“ sagði James Grossman sagnfræðingur og framkvæmdastjóri American Historical Association og lagði áherslu á að atlögur Trumps ættu ekki að hafa áhrif á sagnfræðilegar staðreyndir sem ríkja um sögu Bandaríkjamanna af ólíkum uppruna eða kyni. „Ég skil ekki hvernig Smithsonian gæti talist and-bandarískt,“ sagði Grossman í viðtali við New York Times en þetta er inngrip sem á sér ekki fordæmi í 175 ára sögu stofnunarinnar.

Þetta kemur í kjölfar þess að meðal fyrstu verka Trumps sem forseti var að skipa sjálfan sig sem stjórnarformann Kennedy Center og skipta út ófáum stjórnarmeðlimum, en þetta er útspil sem á sér ekki fordæmi í sögu miðstöðvarinnar. Trump segist vilja sjá til þess að stofnunin verði almennilega rekin og að nú sé komið gott af dragsýningum og almennum „woke“-isma. Sýningar sem settar hefðu verið á svið væru bæði hræðilegar og til skammar en þess má geta að Trump lét þess þó getið við fréttamann að hann hefði ekki séð sýningar Kennedy Center, enda ekkert þar sem hann langaði að sjá.

Vernd frá stjórnmálum

Trump ítrekaði aftur þessi sjónarmið í nýlegri heimsókn sinni í menningarstofnunina þann 17. mars og lofaði að taka til hendinni. „Við gerum þetta frábært á nýjan leik,“ sagði hann. Óhætt er að segja að uppátæki Trumps fór fyrir brjóstið á mörgum, sem hafa gagnrýnt hann harkalega. Framleiðendur söngleiksins Hamilton hættu t.d. við að setja upp söngleikinn í Kennedy Center og birtu harðorða færslu á samfélagsmiðlum þar sem sagt var að hlutleysi stofnunarinnar væri orðið að engu, en hún ætti að vera staður þar sem allir gætu komið saman og fagnað listum. „Sumar stofnanir eru heilagar og að það þarf að vernda þær frá stjórnmálum,“ segir í yfirlýsingunni. Inntur eftir viðbrögðum sagðist Trump aldrei hafa líkað við þennan söngleik.

Bækur bannaðar í skólum

Í þessu samhengi má ekki gleyma tiltektinni sem átt hefur sér stað í bókasöfnum almenningsskóla í Bandaríkjunum, en samkvæmt PEN America hafa um 16 þúsund bækur verið bannaðar á landsvísu frá árinu 2021. Um er að ræða bækur sem taka t.d. á kynþáttahatri, snúa að málefnum hinsegin fólks eða hafa einhvers konar tilvísanir í kynlíf eða kynferðisofbeldi. Meðal bannaðra bóka eru þekktar heimsbókmenntir á borð við Flugdrekahlauparann eftir Khaled Hosseini, Saga þernunnar eftir Margaret Atwood og Ástkær eftir Toni Morrison. Margir hafa gagnrýnt þessa þróun, eins og til dæmis rithöfundurinn Salman Rushdie, sem sakar Repúblikana um að grafa undan lýðræðislegum gildum.

Líkt við tilburði nasista

Í ljósi þessa hafa erlendir fjölmiðlar dregið fram ákveðin líkindi með uppátæki Trumps og því þegar nasistar notuðu menningu og listir sem stjórnunartæki og leið til þess að sýna fram á eigin yfirburði með því að gera lítið úr gyðingum og öðrum hópum samfélagsins. Blaðakona The Guardian, Adrian Horton, rifjar upp þegar nasistar héldu sýningar á úrkynjaðri list annars vegar og þýskri list hins vegar. Entartete Kunst var sýning sem haldin var í München árið 1937 þar sem sýnd voru 600 verk framsækinna samtímalistamanna sem þóttu ógna þýsku siðgæði. Um var að ræða listamenn á borð við Vassily Kandinsky, Paul Klee, Emil Nolde og Max Beckmann. Sýningin ferðaðist svo um landið og var markmiðið að vekja viðbjóð almennings. „Veldu hvaða harðstjórn sem er í gegnum aldirnar og þú finnur þar tilraunir til þess að stjórna listum,“ segir Horton, en fyrir áhugasama má geta þess að nú er hægt að sjá þessa sýningu í Picasso-safninu í París undir yfirskriftinni „Degenerate“ art. Modern art on trial under the Nazis. Framtak sem hlýtur að teljast vel tímasett sé tekið tillit til nýliðinna atburða.

Líka á Íslandi

Sams konar tilburðir voru uppi á Íslandi, en sjö árum síðar, árið 1942, þegar abstraktlistin var að ryðja sér til rúms og olli miklum usla, sá Jónas Jónsson frá Hriflu, þingmaður og formaður menntamálaráðs, tilefni til þess að halda sýningu á verkum fimm „klessumálara“ í Alþingishúsinu og í verslunarglugga Gefjunar við Aðalstræti í Reykjavík.

Markmið sýningarinnar var að sýna fram á hnignun samtíðarlistarinnar, en listamennirnir sem voru ekki í góðu bókunum voru Þorvaldur Skúlason, Gunnlaugur Scheving, Jón Engilberts, Jón Stefánsson og Jóhann Briem. Í greinaflokki sínum í Tímanum, Skáld og hagyrðingar, kallar hann þá lánleysingja og klessumálara og sagði sýninguna sögulegan viðburð. „Ég ætla mér ekki að rökræða við þessa sjónvilltu menn, en ég vil í nafni þjóðar minnar leggja blátt bann við því, að þessum grátlega ógæfusömu mönnum gefist tækifæri til að halda áfram að blekkja landslýðinn og telja honum trú um að það, sem þeir gera, sé list,“ sagði Jónas. Síðar setti hann svo upp sýningu á „betri“ verkum eftir listamenn sem voru í náðinni hjá honum eins og Þórarin B. Þorláksson og Ásgrím Jónsson.

Halldór Laxness sá ástæðu til þess að verja þessa listamenn og í pistli sínum í Tímariti Máls og menningar dró hann fram líkindin við ofangreinda sýningu nasista. „Eins og Hitler hafði dregið fram myndir ýmsra mestu myndsnillinga álfunnar og gert óp að verkunum, m.a. með þeim forsendum, að þau væru óþýzk, þannig þurfti smáhitler okkar hér auðvitað að draga fram verk nokkurra beztu myndsnillinga íslenzkra og gera óp að þeim á grundvelli, að þau væru óíslenzk, – allt sem sagt hárnákvæm stæling eftir „stóra bróður,“ segir í pistlinum.

Vaxandi einræðismenning

Einræðismenning virðist vera að leita fyrir sér í heiminum og er Ísland ekki undanskilið. Að undanförnu hafa íslenskir stjórnmálamenn gert atlögur að fjölmiðlum og dómstólum, meðvitað eða ómeðvitað grafið undan trúverðugleika þeirra og sýnt takmarkaðan skilning á því hlutverki sem þeir gegna í frjálsu samfélagi.

Tjáningarfrelsi er öllum mikilvægt, sérstaklega listamönnum og fjölmiðlum, og það er því alvarlegt ef valdhafar leitast við að stýra þeim með einhverjum hætti. Færa má t.d. rök fyrir því að núverandi styrkjakerfi í listaheiminum virki sem stjórnunartæki og geti haft áhrif á listrænar áherslur. Listamenn og söfn þurfi að tikka í ákveðin box þegar verið er að sækja um styrki og talað hefur verið um að verið sé að „straumlínulaga“ listina.

Ólafur Björnsson hagfræðingur hélt því fram að lýðræðisleg mannréttindi gætu aðeins þrifist í kapítalísku hagkerfi og var hugsunin þar að baki sú að þegar ríkið ætti allt, hvert gæti maður snúið sér þegar brotið væri á manni eða manni einfaldlega mislíkaði eitthvað? Það þarf að vera annar valkostur því við vitum aldrei hvað kemur upp úr kjörkössunum. Færa má rök fyrir því að eina úrræðið sé að takmarka völd og umsvif ríkisins þannig að stjórnmálamenn komist ekki með kámuga fingur þar sem þeir eiga ekki heima. En sú lausn er ekki öllum að skapi.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir