Pétur Stefánsson saknaði konu sinnar í gær þegar hann stóð í þrifum á íbúðinni. Á meðan hann stóð í stórræðum orti hann þessa kersknisvísu: Er á Mörk mín eiginfrú, það ergir hugann súra. Gera þetta þarf ég nú; þrífa, elda, skúra

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Pétur Stefánsson saknaði konu sinnar í gær þegar hann stóð í þrifum á íbúðinni. Á meðan hann stóð í stórræðum orti hann þessa kersknisvísu:

Er á Mörk mín eiginfrú,

það ergir hugann súra.

Gera þetta þarf ég nú;

þrífa, elda, skúra.

Friðrik Steingrímsson hefur gaman af að skjóta á Pétur – og nú varð engin undantekning þar á:

Þrifin ríða þér á slig

þrældómurinn bítur

enda sjálfsagt eftir þig

allur þessi skítur.

Lilja Ólafsdóttir lagði orð í belg:

Hérna er skítur þinn og þú

þarft hann sjálfur taka.

Á meðan sæmir frjálsri frú

að fara á Mörk og slaka.

Árni Bergmann sendi þættinum heilræðavísu með orðunum: „Ekki mun veita af í ringluðum heimi.“

Ekki skal setja

í örbylgjuofn

kött þó sé kaldur og blautur.

Og ekki skal borvél

brúka sem tannstöngul.

Forsjá skal framkvæmd ráða.

Þegar umræðan um atómskáldin og formbyltinguna stóð sem hæst orti Bjarni frá Gröf:

Í útvarpinu atómskáldin ekki þykja
góð,

og ýmsir gjöra þeirra hlut nú smáan.

Þó Drottinn kæmi sjálfur og læsi
þeirra ljóð,

líklega myndu fáir hlusta á'ann,

en gaman væri í sjónvarpinu
að sjá'ann.

Sigurbjörg Jónsdóttir, Hvallátrum, Rauðasandi, orti um þjóðardrykkinn:

Um það kveða mér er mál

mjög þótt lítið kunni;

kaffið hressir sinni og sál

sætt er það í munni.

Sigurbjörg Sigurðardóttir Selbúðum í Reykjavík orti:

Lát ei bugast þanka þinn

þegar málið vandast,

þú skalt fljúga á forlögin

fella þau og standast.

Sigurður Björnsson, trésmiður á Seyðisfirði, hefur verið með hiksta er hann orti þessa vísu:

Margri kjafta kerlu óx

kaffi systra hylli,

við að bera bagga rógs

bæjarhúsa milli.