Guðrún S. Sæmundsen
gss@mbl.is
Sjónvarpsserían Reykjavík Fusion, í leikstjórn Samúels Bjarka Péturssonar og Gunnars Páls Ólafssonar, fer í loftið í haust en þar fer leikkonan Hera Hilmar með eitt af aðalhlutverkunum sem kaldrifjaða glæpakvendið Marý.
Hera útskrifaðist frá London academy of music & dramatic art árið 2011 og má segja að hún hafi fljótlega orðið áberandi með leik sínum í kvikmyndinni Vonarstræti (2013) í leikstjórn Baldvins Z og síðar í kvikmynd Baltasars Kormáks, Eiðnum (2016). Hera hlaut Edduverðlaunin 2014 og 2017 sem besta leikkona í aðalhlutverki í báðum kvikmyndunum.
Að öðru leyti hefur Hera starfað mest erlendis. Á síðasta ári lék hún í tveimur kvikmyndum sem eiga eftir að koma út, tryllunum Turbulence og Hangashore. Þá lék hún Möghru í sjónvarpsseríunni See á Apple TV, en tökur þáttanna stóðu yfir í þrjú ár. Stærsta kvikmynd Heru til þessa má segja að sé Hollywood-myndin Mortal Engines (2018) í leikstjórn Christians Rivers.
Hefur aldrei leikið glæpakvendi
Í þáttunum Reykjavík Fusion leikur Ólafur Darri Ólafsson matreiðslumeistara sem kemur úr fangelsi og ákveður að stofna veitingastað og notar reksturinn til að þvætta peninga. Hera leikur rekstrarstjóra veitingastaðarins og með tímanum sökkva þau æ dýpra í undirheima Reykjavíkur þar sem hvert skref í heimi glæpa getur reynst ansi dýrkeypt.
„Hún [Marý] er klár, góð með tölur, húmoristi og kann að redda hvaða rugli sem er. Hún hefur þurft að bjarga sér og koma sér áfram innan heims sem er alls ekki hlífinn fólki, hvað þá konum, og náð að mynda sér stöðu innan hans sem marga dreymir um,“ segir Hera spurð um hlutverkið og segir persónuna þó dýpri en yfirborðið gefi til kynna og hlakkar til að leyfa áhorfendum að kynnast Marý.
Spurð út í hlutverkið segist Hera aldrei hafa leikið glæpakvendi eins og Marý áður. Þetta sé því nýtt fyrir henni.
„Konu sem gerir þá hluti sem hún gerir og manneskju sem hefur jafn mikil völd innan glæpaheimsins. Hún er svo stór að öllu leyti og svo klikkuð en á sama tíma sú eina sem hefur stjórn, skilning og kunnáttu á ákveðnum hlutum í kringum sig.“
Dró upp mynd af Marý
Til að setja sig sem best inn í hlutverkið segist Hera hafa kynnt sér þann heim sem persónan Marý snertir, ásamt því að læra um peningaþvætti.
„Ég horfði aðeins til Amiru Smajic, sem dönsku þættirnir The Black Swan fjölluðu um, þar sem hún er líka kona sem sá um fjármál margra glæpamanna og gerði það með stæl. Hennar saga er mjög áhugaverð og hún veitti mér mikinn innblástur í byrjun, án þess þó að hún eða hennar saga sé eins og Marýjar. Svo fer maður bara sínar leiðir.“
Hluti af því að setja sig inn í hlutverkið felst í að fá eins góða mynd af persónunni og mögulegt er. Það var það sem Hera gerði, án þess þó að byggja karakterinn um of á öðrum, eins og hún segir sjálf.
„Ég dró upp eins nákvæma mynd og ég gat af lífi hennar og hver hún er sem manneskja, og líka bara hvernig hún fúnkerar líkamlega og reyndi að skilja hana út frá því. Hún hefur t.d. ákveðinn hraða sem ég lifi sjálf ekki í daglega, sem gerir henni kleift að „díla“ við hluti á máta sem aðrir geta ekki.“
Hvað fannst þér mest krefjandi við hlutverkið?
„Örugglega hvað hún er ör og hvað hún fer oft gegn venjulegum hvötum.“
Margslunginn karakter með ákveðið útlit
Hera lýsir Marý sem týpu sem þegir þegar flestir aðrir tala og takturinn er oft á skjön við þá sem í kringum hana eru, sem gerir að verkum að fólk á erfitt með að átta sig á henni og veit oft ekki hvar það hefur hana. Marý sé þó góð í mannlegum samskiptum á þeim stundum sem hentar henni.
„Hún hefur líka á sér dökkar hliðar og siðferðiskenndin er á gráu svæði, sem ég þurfti virkilega að leyfa mér að skoða og stíga svo alveg inn í, sem var smá áskorun en skemmtileg.“
Til að taka að sér hlutverkið þurfti Hera að fara í gegnum nokkrar útlitsbreytingar og lýsir þeim sem hýði sem þurfti að fara í daglega. Búningahönnuður þáttanna, Júlíanna Lára Steingrímsdóttir, og Guðbjörg Huldís Kristinsdóttir hár- og gervishönnuður sáu um útlit Heru frá a-ö. Þetta er í fyrsta skipti sem Hera starfar með þeim báðum og lætur hún vel af samstarfinu.
„Hluti af góðri gervis- og búningavinnu er að hún sjáist varla og sé ótrúlega eðlileg.“
Hera skýtur því inn í að búninga- og gervadeildirnar séu mikið stuðningsnet fyrir alla leikara og eru deildirnar yfirleitt leiddar af konum. Að hennar mati mætti gera deildunum hærra undir höfði vegna þess hve ómissandi þær eru. Þess vegna fannst henni mikilvægt að kæmi fram í þessu viðtali hve frábært starf þær stöllur Júlíanna og Guðbjörg unnu á settinu.
„Við vildum að hún [Marý] væri algjör flottræfill en samt líka eins og villt dýr að einhverju leyti.“
Umfangsmestu breytingarnar segir Hera vera á hárinu, auk búnings, en einnig hvernig andlitið er skyggt fyrir tökur. „Marý er ljóshærð og með allt öðruvísi hár en ég, styttra og krullaðra. Þannig að fyrir mig var mikil breyting að sjá heiminn í gegnum þennan úfna, ljósa, dýrslega topp og spóka mig um í þröngum leður-, pardus- eða glimmerfötum og hælum. Því Marý er alltaf í hælum, sama hvað hún er að gera. Kalda-hælum.“
Hún bætir við að báðar hafi Júlíanna og Guðbjörg gott auga fyrir því sem virki og sé spennandi. Þær hafi náð útliti Marýjar á fullkominn hátt, sem hentar hennar persónueinkennum, og verður spennandi að sjá útkomuna í þáttunum í haust.