Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Umsókn Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi til að innrétta svokallað „Konukot“ í Ármúla 34 í Reykjavík er nú til umsagnar í skipulagsgátt og er umsókninni vægast sagt fálega tekið af væntanlegum nágrönnum, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Umsóknin lýtur að því að innréttað sé búsetuúrræði fyrir 12 skjólstæðinga á 2. hæð hússins og tímabundið úrræði fyrir sex einstaklinga á 3. hæð. Er húseigendum í þremur nærliggjandi húsum gefinn kostur á að tjá sig um tillögu skipulagsfulltrúa borgarinnar um málið.
Í umsögn Sameindar, sem er rannsóknarstofa í næsta húsi, Ármúla 32, er bent á slæma reynslu fyrirtækisins af nábýli við ógæfufólk. Kemur þar fram að á sínum tíma hafi Sameind verið með aðstöðu í Domus Medica við Egilsgötu 3, en í næsta nágrenni hafi verið talsvert um ógæfufólk í neyslu sem komið hafi inn í húsnæði Domus Medica til að nýta sér salernin þar.
„Mátti oft sjá nálar á gólfum og blóð og saur á veggjum salernanna. Þegar starfsfólk kom á morgnana í vinnu voru gjarnan tól til eiturlyfjaneyslu við starfsmannainnganginn. Þjófnaður var jafnframt viðvarandi í Domus Medica og var starfsfólki Sameindar oft sýnd ógnandi hegðun af heimilislausu fólki og var lögregla oft kölluð til til að fjarlægja þessa einstaklinga,“ segir í umsögninni.
Ekki fari saman að hafa fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, þar sem lasburða sjúklingar leiti sér lækninga, í næsta húsi við neyðarskýli eða neyslurými fyrir heimilislausar konur sem í mörgum tilvikum séu langt leiddir fíkniefnaneytendur, áfengissjúklingar eða með alvarlega geðsjúkdóma. Bent er á að aðeins séu tíu metrar á milli inngangsins í biðstofu Sameindar og fyrirhugaðs inngangs í Konukot.
Þá er bent á að bráðabirgðaleikskóli sé í Ármúla 30 og ekki þyki eðlilegt að Konukot sé í nærumhverfi hans.
Í umsögn fulltrúa eiganda húsnæðis við Ármúla 36, þ.e. hinum megin við áformað Konukot, kemur m.a. fram að þótt áætlað sé að um tímabundna lausn sé að ræða sé Ármúli ekki heppilegasta staðsetningin fyrir starfsemi Konukots.
Segir þar að athugasemdir snúi aðallega að því að skjólstæðingar Konukots þurfi að fara þaðan út yfir hádaginn, á milli kl. 10 og 17, og í ljósi reynslu af sams konar starfsemi í Eskihlíð, þar sem „konurnar hanga gjarnan á næsta lausa bletti í nánasta nágrenni, sofandi, vímaðar, við neyslu og jafnvel ógnandi og öskrandi“, sé nábýlið ekki ásættanlegt fyrir fyrirtækjarekendur í næstu húsum.
Ekki eru áhyggjur rekstraraðila skyndibitastaðarins Smábitans yfir væntanlegum nágrönnum í Konukoti minni, en staðurinn er í sama húsi og Konukoti er ætlað að vera. Segir þar að verði viðskiptavinir Smábitans fyrir einhverri truflun af skjólstæðingum Konukots hyggist fyrirtækið fara fram á skaðabætur úr hendi Reykjavíkurborgar vegna þess.