Sópransöngkonan Jóna G. Kolbrúnardóttir og píanóleikarinn Ástríður Alda Sigurðardóttir flytja ljóðatónlist eftir Clöru Schumann (1819-1896) og Franz Schubert (1797-1828) á tónleikum í Hannesarholti í kvöld, fimmtudaginn 3. apríl, kl. 20. Segir í tilkynningu að verkefnavalið samanstandi af völdum ljóðum eftir Schubert og flokkunum Opus 12 og 13 eftir Schumann og að í ljóðunum sé náttúran í fyrirrúmi og endurspegli ólíkar birtingarmyndir ástarinnar, margslungnar tilfinningar og drauma mannsins. Schubert lést aðeins 31 árs en þrátt fyrir stutta ævi var hann mjög afkastamikill. „Hann samdi yfir 600 söngljóð (Lieder) og hafði áhrif á fjölda tónskálda, þar á meðal Clöru Schumann, Robert Schumann, Johannes Brahms, Richard Strauss og fleiri.“ Þá skilur Schumann einnig eftir sig fjöldann allan af tónsmíðum, þrátt fyrir að hafa nánast hætt að semja eftir að hún giftist tónskáldinu Robert Schumann.