Jökulfirðir Í Grunnavík er kirkju- og prestsstaður frá gamalli tíð.
Jökulfirðir Í Grunnavík er kirkju- og prestsstaður frá gamalli tíð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hagsmuna- og viðbragðsaðilar á Vestfjörðum vilja funda tvisvar á ári í þeim tilgangi að tryggja öryggi ferðafólks á Hornströndum eins vel og hægt er. BB.is á Ísafirði greinir frá þessu og mun þetta hafa verið niðurstaða fundar sem haldinn var á…

Hagsmuna- og viðbragðsaðilar á Vestfjörðum vilja funda tvisvar á ári í þeim tilgangi að tryggja öryggi ferðafólks á Hornströndum eins vel og hægt er. BB.is á Ísafirði greinir frá þessu og mun þetta hafa verið niðurstaða fundar sem haldinn var á Ísafirði á vegum Náttúruverndarstofnunar og lögreglunnar.

Þar komu saman fulltrúar ýmissa aðila sem aðkomu hafa að ferðaþjónustunni á Hornströndum. Svæðið er eitt þeirra þar sem símasamband er erfitt og stundum ekkert. Í löngum gönguferðum getur fólk lent í krefjandi aðstæðum vegna ófyrirsjáanleika í veðri og landslagsins.

Upp hafa komið tilvik á Hornströndum á síðustu árum þar sem kallað var eftir hjálp björgunarsveita, lögreglu, sjúkraflutninga og annarra viðbragðsaðila. Á fundinum mun hafa verið farið yfir þessi tilfelli og fleiri sem landverðir og ferðaþjónustuaðilar leystu af hendi.

„Fundarfólk var sammála um að allir sem að þessum verkefnum koma hafi mikinn vilja til að gera vel og er ætlunin að hópurinn muni funda tvisvar á ári, til að stilla betur saman strengina,“ segir í frétt bb.is.