Byggingarsvæðið Steypustöð BM Vallár mun flytjast annað á næstu árum. Í hennar stað mun rísa íbúðarbyggð líkt og annars staðar á Ártúnshöfðanum.
Byggingarsvæðið Steypustöð BM Vallár mun flytjast annað á næstu árum. Í hennar stað mun rísa íbúðarbyggð líkt og annars staðar á Ártúnshöfðanum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Reykjavíkurborg tók þá stefnumarkandi ákvörðun fyrir rúmum áratug að atvinnustarfsemi skyldi víkja af Ártúnshöfða og við Elliðaárvog og íbúðir yrðu byggðar í staðinn. Nokkrir byggingarreitir hafa verið skipulagðir

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Reykjavíkurborg tók þá stefnumarkandi ákvörðun fyrir rúmum áratug að atvinnustarfsemi skyldi víkja af Ártúnshöfða og við Elliðaárvog og íbúðir yrðu byggðar í staðinn.

Nokkrir byggingarreitir hafa verið skipulagðir. Íbúðir hafa risið nú þegar á sumum þeirra eða eru í byggingu á öðrum reitum. Áformaðar eru allt að 8.000 íbúðir á Ártúnshöfða og þar munu búa um 20 þúsund manns.

Undanfarnar vikur hefur verið til kynningar í skipulagsgáttinni tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Ártúnshöfða, svæði 7A, sem staðsett er við Breiðhöfða 3-5. Um árabil hefur starfsemi Steypustöðvar BM Vallár verið á þessum reit. Sú starfsemi mun flytjast annað í nokkrum áföngum.

Sérstaða reitsins er sú að þar er að finna glæsilegan lystigarð sem nefnist Fornilundur. Þessi garður hefur eiginlega verið hálffalin perla í iðnaðarhverfinu. Fornilundur verður varðveittur og opinn almenningi.

Byggðarmynstur á lóðinni mun myndast af þremur mismunandi húsformum sem verða 4-7 hæða byggingar.

Í áfanga 1 er gert ráð fyrir allt að 180 íbúðum með valkvæðri verslun og þjónustu á 1. hæð við Breiðhöfða. Byggingarmagn nýbygginga verður 16.240 fermetrar (m2).

Í samræmi við áform Reykjavíkurborgar um félagslega blöndun verður sú kvöð á lóðinni að 20% íbúða skuli vera leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, leiguíbúðir Félagsbústaða, búseturéttaríbúðir og/eða íbúðir fyrir aldraða.

Þétting byggðar

Heildarmarkmið við skipulag svæðisins er að þétta byggð og nýta land og innviði borgarinnar betur með sjálfbærni að leiðarljósi, segir í deiliskipulagskynningu sem unnin er af THG arkitektum og Landslagi.

Bílastæðafjöldinn í tillögunni byggist á samgöngumati sem unnið er af Verkís. Þar kemur fram að gera þurfi ráð fyrir alls 464 bílastæðum og 1.224 hjólastæðum.

Fornalund á að varðveita og ekki má raska svæðinu innan afmörkunar hans og ekki er leyfilegt að byggja innan reitsins. Trjágróður innan reitsins verður verndaður.

Í tengslum við Fornalund eru tvær byggingar sem munu standa áfram á lóðinni, önnur sem nú hýsir skrifstofur BM Vallár og hin söluskrifstofur BM Vallár. Tvö önnur hús, sem nú standa á lóðinni, verða fjarlægð.

Frestur til að skila inn athugasemdum við deiliskipulagstillöguna rann út 1. apríl. Fjórar athugasemdir bárust.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur (HER) kom með nokkrar ábendingar. HER benti m.a. á að á svæðinu hefur verið mengandi iðnaðarstarfsemi í fleiri áratugi og því líkur á jarðvegsmengun umtalsverðar.

Setja þurfi skilyrði í skipulagsskilmála um að gerð verði heildstæð rannsókn á menguðum jarðvegi fyrir allt svæðið. Hreinsun svæðis þurfi að vera lokið áður en framkvæmdir hefjast á reitnum.

Þá barst athugasemd frá BM Vallá ehf. Þar kemur fram að hinn 28. mars 2022 hafi félagið undirritað samkomulag við Reykjavíkurborg í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu og þróun við Bíldshöfða 7 og Breiðhöfða 3. Byggðist samkomulag félagsins við borgina á skipulagsramma Reykjavíkurborgar sem gerður var í tengslum við samninga borgarinnar við lóðarhafa á svæðinu.

Gerir BM Vallá sem lóðarhafi ýmsar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna. Telur félagið m.a. að nýting reitsins verði minni en vænta mátti og óskar eftir því að við áframhaldandi skipulagsvinnu verði byggingamagn aukið og sömuleiðis nýtingarhlutfall. Með því megi ná markmiðum samkomulags borgarinnar við félagið. Áskilur það sér allan rétt til að gæta hagsmuna sinna.

Það er merkileg saga hvernig fyrstu íbúar svæðisins, hjónin Jón Dungal og Elísabet Jónsdóttir, umbreyttu hrjóstugu landi í einstakan trjálund.

Hjónin reistu bæinn Hvamm árið 1936 sem var 4,2 hektara landspilda sem þau leigðu af Reykjavíkurborg. Fylgdi samningnum sú skylda að leigutakar ræktuðu landið. Þau gerðu gott betur og komu upp skrúðgarði og miklum, fögrum skógi á þessu hrjóstuga svæði. Þar uxu sjaldséðar tegundir á borð við eplatré og þótti það kraftaverki næst.

Þessi frumkvöðlastarfsemi vakti verðskuldaða athygli og árið 1954 hlutu þau viðurkenningu frá Fegrunarfélagi Reykjavíkur fyrir garðinn sinn.

Þegar BM Vallá hóf starfsemi á Breiðhöfða tók fyrirtækið við trjálundinum, sem hlaut nafnið Fornilundur, og hannaði svæðið árið 1991 í anda erlendra lystigarða. Fornilundur gegnir hlutverki sýningarsvæðis fyrir vörur BM Vallár og er þar að finna tjörn, gosbrunna, bekki og blómabeð ásamt fjölbreyttu fuglalífi.

Fornilundur hefur allar götur verið opinn almenningi og verður svo áfram.

Árið 2024 var afhjúpað upplýsingaskilti um sögu Fornalundar.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson