Rithöfundurinn Salman Rushdie mun gefa út sitt fyrsta skáldverk í næstum þrjú ár í nóvember á þessu ári þegar bókin The Eleventh Hour eða Á elleftu stundu kemur út en það er forlagið Vintage, sem er hluti af Penguin Random House, sem sér um útgáfu hennar. Er þetta fyrsta bókin sem Rushdie sendir frá sér eftir að hann varð fyrir alvarlegri hnífaárás árið 2022 sem kostaði hann sjónina á öðru auga.
BBC greinir frá og segir væntanlega bók samansafn sagna víðs vegar að úr heiminum, meðal annars frá Indlandi, Englandi og Bandaríkjunum. Rushdie kom hingað til lands í september í fyrra til að veita alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness viðtöku. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að eiga þátt í endurnýjun frásagnarlistarinnar.