Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Ég ætla að fjalla um birtingarmyndir kvenna í íslenskum þjóðsögum, sem ég byggi á doktorsverkefni mínu, en þar skoðaði ég líka kvenleika og kynjuð valdatengsl. Ég ætla að segja frá konum í þjóðsögum sem eru í uppreisn gegn því sem þótti kvenlegt á þeim tíma sem sögurnar voru sagðar, frá nítjándu öld og snemma á þeirri tuttugustu. Þetta eru konur sem voru í karlastörfum eða voru með eiginleika sem þóttu karllægir á þeim tíma,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði, en hún er ein af fjórum sem ætla að halda erindi á málþingi nk. laugardag á vegum Félags um átjándu aldar fræði, undir yfirskriftinni Nýjar rannsóknir í þjóðfræði.
„Smalastúlkur, drykkjurútar og galdranornir koma við sögu í mínu erindi. Að smala fé af fjalli er dæmi um það sem flokkaðist sem karlastarf hér áður fyrr, en í þjóðsögunum eru margar sögur sem segja frá stúlkum sem vilja fá að fara til fjalla og leita kinda. Þær sannfæra feður sína um að leyfa sér að fara, segja eitthvað á þann veg að þær viti vel að þær séu nú bara stúlkur í pilsi, en telji sig þó vel geta farið til fjalla og leitað kinda. Feður þeirra svara þá oft á þennan veg: „Fyrr vissi ég að þú bærir karlmannshug í konubrjósti, dóttir góð,“ og hleypa þeim á endanum til fjalls í fjárleit. Þannig sjáum við skýrt í sögunum að þetta eru karlastörf þess tíma og að þessar stúlkur rísa ákveðnar upp gegn þeirri flokkun,“ segir Dagrún og bætir við að ef konur fóru út fyrir ætluð kynhlutverk í stutta stund hafi þeim verið hrósað, þær sagðar karlmannsígildi og þeim hampað fyrir að búa yfir karllægum eiginleikum, eins og hugrekki.
„Ef þær fara út fyrir ætluð kynhlutverk í lengri tíma, þá virðist það vera ógn við samfélagsskipan, og þá birtast konurnar í sögunum yfirleitt á mun neikvæðari hátt. Ef þær ætla að setjast að í karllægum hlutverkum, reka bú eða annað slíkt, þá er það ekki vel séð. Stúlkurnar sem skreppa til að leita kinda í eitt skipti, þær enda allar á að gifta sig og verða húsmæður, þær ganga inn í ætlað hlutverk eftir að þær hafa fengið að sleppa út í smá stund. Þetta er mjög áhugavert, því sögurnar sem eru ekki sagnfræðilegar heimildir, þær bera ákveðinn sannleika með sér. Hægt er að lesa úr þeim hvað fólk óttaðist, hvað það þráði, dreymdi um og fleira. Við getum lesið úr þessum sögum viðhorf fólks til umhverfisins, heimsins og hlutverka kynjanna. Oft eru skilaboðin í sögunum á þann veg að þau styðja við ríkjandi hugmyndir um hvað sé kvenlegt og hvað karllegt. Konurnar fara í uppreisn og annaðhvort fer það illa eða þær sjá að sér og snúa aftur til sinna ætluðu kvenhlutverka. Skilaboðin í sögunum eru að konum sé best borgið ef þær haga sér eins og ætlast er til.“
Dagrún nefnir þjóðsöguna um Stokkseyrar-Dísu, Þórdísi Magnúsdóttur, sem gott dæmi um konu sem ekki fer vel fyrir, af því hún rís ítrekað upp gegn ætluðum kvenhlutverkum.
Refsað grimmilega fyrir óþægð
„Hún tók hiklaust að sér ýmis karlhlutverk, reri til fiskjar og fór á markað með vörur til að selja, stundaði kaupmennsku. Hún hagaði sér líka á hátt sem braut gegn hugmyndum um hvað var kvenlegt og var sögð drykkjurútur og galdrasnápur, fólk var hrætt við hana. Í þjóðsögunum eru konur sem eru kaupmenn oft líka sagðar galdranornir, eins og þurfi að útskýra velgengni þeirra og af hverju þær séu í þessari stöðu. Þær hljóti að vera göldróttar, en ekki venjulegar konur. Konur sem fara mjög langt út fyrir rammann, þær verða hálf yfirnáttúrulegar í þjóðsögunum, þær verða ekki aðeins galdrakonur heldur líka tröllskessur og huldukonur. Oft er hið yfirnáttúrulega kvenlegt, til dæmis finnast miklu fleiri tröllkonur en tröllkarlar í þjóðsögum.“
Dagrún heldur áfram að segja frá Stokkseyrar-Dísu, en henni og manni hennar samdi ekki vel.
„Hún er sögð hafa ögrað honum og þá beitti hann hana ofbeldi, risti niður úr henni, sem er aðferð sem lýst er í þjóðsögum. Þá eru konur lagðar á grúfu og karl sker með hníf eftir bakinu á þeim, svo blæði í gegnum fötin á þremur stöðum. Þetta er mjög niðurlægjandi ofbeldi, en í sögunum er þetta sagt ráð sem aðeins hafi verið notað á hinar mestu skessur, mjög óþekkar konur sem sagt. Þær eru sagðar mýkjast eftir þessa hroðalegu meðferð. Dísa var sögð erfið, af því hún stóð uppi í hárinu á manni sínum, en hann refsaði henni ekki aðeins með því að rista niður úr henni, hann drap líka uppáhaldshestinn hennar. Mér finnst mjög áhugavert að í sögunni kemur fram að maður hennar sé skapstillingarmaður, en henni er lýst sem erfiðu flagði. Henni er refsað fyrir óþægð, en honum er ekki refsað fyrir að beita konu sína ofbeldi. Ef konur voru mjög þrjóskar, þá eru skilaboð sagnanna að þá sé réttlætanlegt að beita þær ofbeldi, til að reyna að aga þær til. Við eigum líka sögur af tröllskessum sem fara gegn alls konar hugmyndum um hvað sé kvenlegt og hvað ekki, þeim er líka yfirleitt refsað fyrir framferðið, þær eru hálshöggnar, hafðar undir og verða að steini.“
Heyrðu hvernig færi fyrir þeim
Dagrún segir að í þjóðsögunum sjáum við líka hugmyndir um kvenlegt eðli og kvenhlutverk sem tengjast barneignum.
„Giftar konur í þjóðsögum sem kjósa að eignast ekki börn, þær sjá oft seinna að sér og eignast börn. Þær eru í flokki með konum sem eru í uppreisn í stutta stund. Sögur af konum sem bera út börnin sín eru um konur sem ganga gegn hinni ofboðslega sterku ríkjandi hugmynd um móðureðlið, sem sé öllu æðra. Þessar konur birtast á mjög neikvæðan hátt í sögunum og það er áhugavert að konur eru einar gerðar ábyrgar fyrir barnaútburði, sem var auðvitað ekki staðreyndin í raunveruleikanum. Í einni sögu segir frá manni sem ber út börn sín og vinnukonu sem hann barnaði, en hann er sagður viljalaust verkfæri í höndum hennar,“ segir Dagrún sem hefur líka skoðað hvernig sögurnar þróast.
„Mér finnst áhugavert að nú, þegar margt hefur breyst til aukins kynjajafnréttis, sjáum við samt hugmyndir úr gömlu þjóðsögunum í samtímanum. Til dæmis hugmyndir um að konur kalli sjálfar yfir sig ofbeldi, með því að vera þrjóskar og erfiðar. Þetta þekkjum við vel í samtímanum, þegar fórnarlambinu er kennt um ofbeldið sem það verður fyrir, hvort sem það er vegna klæðaburðar eða einhverrar hegðunar. Hugmyndir um tengsl kvenleika og móðurhlutverksins eru líka enn mjög sterkar, oft er gengið út frá því að allar konur hljóti að vilja eignast börn, sem er hugmynd sem birtist í þjóðsögunum. Við erum ekki enn búin að vinda ofan af alls konar hugmyndum sem koma fram í gömlu þjóðsögunum. Þessar hugmyndir eru samfélagslegt fyrirbæri, en þjóðsögurnar eru auðvitað innblásnar af samfélaginu, þær byggjast á þeim reglum og hugmyndum sem þar og þá voru ríkjandi. Þegar þessar sögur voru sagðar á kvöldvökum heyrðu konur hvernig færi fyrir þeim konum sem ekki haga sér, og það hefur auðvitað mótandi áhrif á þær og þeirra hegðun, á samfélagið allt. Viðheldur ríkjandi viðhorfum.“
Málþingið Nýjar rannsóknir í þjóðfræði verður í Þjóðarbókhlöðu í Reykjavík, nk. laugard. 5. apríl. kl. 13.30. Auk erindis Dagrúnar ætlar Júlíana Þóra Magnúsdóttir að fjalla um sagnaskemmtanir og félagslíf kvenna í torfbæjarsamfélaginu, Rósa Þorsteinsdóttir fjallar um áhrif Guðbrands Vigfússonar á þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar og Romina Werth fjallar um listævintýri í evrópsku samhengi og á Íslandi.