Tilbúin Cecilía Rán Rúnarsdóttir kastar sér á eftir boltanum á æfingu landsliðsins á Þróttarvelli í gær.
Tilbúin Cecilía Rán Rúnarsdóttir kastar sér á eftir boltanum á æfingu landsliðsins á Þróttarvelli í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, hefur leikið vel með ítalska stórliðinu Inter Mílanó í efstu deild Ítalíu á tímabilinu en hún er að láni hjá félaginu frá öðru stórliði, Bayern München í Þýskalandi

Fótbolti

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í fótbolta, hefur leikið vel með ítalska stórliðinu Inter Mílanó í efstu deild Ítalíu á tímabilinu en hún er að láni hjá félaginu frá öðru stórliði, Bayern München í Þýskalandi.

Cecilía fór á lán til að spila meira en hún var ekki fyrsti kostur í Bæjaralandi. Hún kom til Bayern frá Everton 2022. Hún fékk fá tækifæri með aðalliði Bayern og þá missti hún af nær öllu síðasta tímabili vegna meiðsla.

„Það er búið að vera ótrúlega gaman á Ítalíu. Þetta er skemmtilegt land að búa í. Það hefði mátt ganga betur í síðustu leikjum en við náðum allavega sigri í síðasta leik. Vonandi nýtum við okkur þann meðbyr og höldum áfram á þeirri braut,“ sagði Cecilía við Morgunblaðið.

Inter vann aðeins einn leik af sjö, áður en liðið gerði sér lítið fyrir og sigraði topplið Juventus með ótrúlegum hætti á heimavelli í síðustu umferð, 3:2. Juventus komst yfir á 88. mínútu en Inter svaraði með tveimur mörkum í uppbótartíma. Inter er fyrir vikið í öðru sæti með 42 stig, sjö stigum á eftir Juventus.

„Púlsinn var mjög hár. Ég hafði alltaf trú á við gætum skorað eitt mark en svo náðum við sigurmarkinu líka og það var ótrúlega ljúft. Við höfum verið svolítið óheppnar og misst stig á lokaköflum leikjanna. Loksins voru lokamínúturnar okkur í hag.

Því miður voru úrslitin ekki eins góð í leikjunum á undan, því þá væri staða okkar enn betri og við nær toppsætinu. Nú einbeitum við okkur að fjórum síðustu leikjunum. Vonandi gerum við vel í þeim,“ sagði hún.

Frekar sátt hjá Inter

Cecilía hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína hjá Inter á tímabilinu og hefur hún verið einn besti markvörður deildarinnar í vetur, þrátt fyrir að liðið hafi fengið á sig fleiri mörk undanfarnar vikur.

„Ég er frekar sátt. Við höfum samt verið að fá fleiri mörk á okkur í síðustu leikjum. Ég reyni að gera mitt besta. Vörnin hefur líka verið að gera ótrúlega vel og ég er klár í þau fáu skipti sem hún gerir mistök,“ sagði hún.

Cecilía gekk í raðir Örebro frá Fylki árið 2020 en lék aðeins átta deildarleiki á fjórum fyrstu árum atvinnumennskunnar. Þar léku meiðsli stórt hlutverk en hún er nú heil heilsu og spilar alla leiki með stórliði í sterkri deild.

„Það stærsta hjá mér var að fara á stað þar sem ég fæ að spila. Vonandi heldur það áfram allan minn feril. Það er ótrúlega gaman að fá loksins að spila alla leiki eftir nokkur erfið ár,“ sagði hún.

Bayern er spennandi

Cecilía á rúmt ár eftir af samningi sínum við Bayern og er framhaldið óljóst hjá markverðinum, sem er 21 árs. Ætla má að Inter hafi áhuga á að framlengja samstarfið.

„Ég hef enga hugmynd hvað tekur við. Ég á eitt ár eftir hjá Bayern og það kemur í ljós. Ég einbeiti mér að því að gera vel á Ítalíu og í komandi landsleikjum. Eftir tímabilið skoðum við stöðuna.

Það væru allir spenntir fyrir því að spila fyrir eins stórt félag og Bayern. Við sjáum hvað gerist en auðvitað hljómar það spennandi,“ sagði hún.

Næstu leikir hjá Cecilíu verða í landsliðstreyjunni í Þjóðadeildinni; sá fyrri gegn Noregi annað kvöld og sá seinni gegn Sviss á þriðjudag. Verða þeir báðir spilaðir á Þróttarvelli.

Glódís er leiðtoginn

„Þetta eru ótrúlega spennandi leikir á móti tveimur hörkuliðum. Ef við spilum okkar leik eigum við að geta fengið sex stig. Það er alltaf gaman að spila fyrir framan stuðningsmennina okkar. Það er öðruvísi tilfinning að spila heima. Það verður geggjað,“ sagði hún.

Cecilía verður með öðruvísi
vörn fyrir framan sig en í öðrum landsleikjum, þar sem fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir er að glíma við meiðsli og verður ekki með.

„Ég hef aldrei spilað án Glódísar í landsliðinu, það verður öðruvísi, en það kemur maður í manns stað. Glódís er leiðtoginn okkar innan og utan vallar. Það er stórt skarð að fylla en vonandi stendur hún sem kemur inn í staðinn sig mjög vel.“

Við viljum sex stig

Ísland er með eitt stig eftir fyrstu tvo leikina en liðið gerði jafntefli við Sviss og tapaði fyrir Frakklandi á útivelli í febrúar.

„Við vildum fá meira úr síðustu tveimur leikjum. Nú horfum við fram veginn og einbeitum okkur að Noregi fyrst og svo Sviss. Við viljum sex stig,“ sagði Cecilía.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson