Ólöf Dóra Hermannsdóttir fæddist í Reykjavík 23. maí 1951. Hún lést á Droplaugarstöðum 19. mars 2025.
Foreldrar hennar voru Elsa P. Níelsdóttir, f. 2.4. 1930 í Þingeyrarseli A-Hún., d. 18.4. 2020, og Hermann Ólafur Guðnason, f. 5.7. 1929 á Vopnafirði, d. 7.2. 2012.
Systkini Ólafar eru: Ragnhildur Guðný, f. 13.4. 1954, gift Hirti Pálssyni; Erlendur Níels, f. 31.5. 1956, giftur Önnu Maríu Grétarsdóttur; Jóhann Gísli, f. 15.1. 1961, maki Natalija Virsiliene; Erla Ósk, f. 10.12. 1967, gift Gunnari S. Gottskálkssyni.
Ólöf giftist árið 1975 Eric Meulenbroek, f. 1.9. 1952 í Hollandi, börn þeirra eru Sara Dögg Ericsdóttir, markaðs- og vörumerkisstjóri í Amsterdam, f. 8.11. 1975 í Reykjavík, maki Egmond de Bruinje tónlistarmaður, f. 6.12. 1973 í Hollandi, og Óskar Freyr Ericson framkvæmdastjóri, f. 29.10. 1979 í Den Haag, maki Lára Kristjana Lárusdóttir arkitekt, f. 19.12. 1980. Barnabörnin eru tvö: Ísalind Salka, f. 16.1. 2015, og Þyrí Lóa, f. 5.12. 2019.
Ólöf bjó í Reykjavík alla sína æsku, fyrst í Ferjuvogi í Vogahverfinu til 10 ára aldurs, á Hlíðarenda í tvö ár og síðan í Skálagerði í Smáíbúðahverfinu.
Ólöf var eftir gagnfræðapróf frá Vogaskóla í eitt ár á Lýðháskóla í Sogndal í Noregi. Hún flutti ásamt Eric fyrrverandi eiginmanni sínum til Hollands árið 1977 og bjuggu þau fyrst í Den Haag, síðan keyptu þau hús í Pieterburen, litlu þorpi nálægt Groningen í Norðvestur-Hollandi. Að lokum bjó hún í Winsum og var þá við nám í iðjuþjálfun í Groningen.
Ólöf flutti aftur heim til Íslands árið 1990 með börnin sín tvö og bjó lengi í Kópavogi þar sem hún keypti sér íbúð í Smárahverfinu. Ólöf lauk BA-námi í tómstunda- og félagsmálafræði frá HÍ árið 2007, einnig lauk hún námi sem leiðsögumaður.
Hún átti farsælan feril sem tómstunda- og iðjuþjálfari á hjúkrunarheimilinu Skjóli, þar sem hún starfaði í tugi ára. Á sumrin fór hún margar hringferðir og styttri ferðir um landið með hollenska og belgíska ferðamenn. Ólöf var mjög listræn og sótti fjölmörg námskeið í myndlist, vefnaði og leirmótun bæði hér heima og í Hollandi.
Útför hennar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 3. apríl 2025, klukkan 15.
Elsku mamma okkar er fallin frá.
Eftir erfiðan og ömurlegan sjúkdóm, sem tók frá henni það sem hún elskaði mest, að vera með sínu fólki, vera frjáls sinna ferða, borða góðan mat og njóta lífsins, hefur hún nú loksins fengið hvíld.
Hún var ótrúlega sjálfstæð, sterk og baráttuglöð kona, einstæð og dásamleg fyrirmynd, ekki aðeins fyrir okkur heldur einnig fyrir allt sitt nánasta umhverfi. Hún naut þess að hjálpa öðrum, gefa af sér og sýndi okkur að allt það góða sem maður gerir kemur margfalt til baka.
Þrátt fyrir höft veikinda og hrörnunar, bæði í líkama og getu, hélt hún áfram að reyna eftir bestu getu að lifa lífinu og vera með okkur.
Þessi mikla, fallega og yndislega kona var okkur ómetanlegt öryggi. Hún var alltaf til staðar, hlustaði, studdi okkur og hjálpaði þegar á þurfti að halda.
Það var erfitt að horfa upp á hana veikjast. Hún sem hafði alltaf verið svo sjálfstæð og sterk þurfti smám saman að láta undan veikindunum.
Hún var afar reynslumikil og hafði einstakt innsæi í hvenær átti að halda og hvenær átti að sleppa taumunum. Hún talaði við okkur um traust, traustið á milli okkar sem myndi alltaf vera til staðar. Þess vegna vissum við að við gætum farið í alls konar ævintýri og við vissum að við myndum alltaf eiga stað hjá henni ef við þyrftum á því að halda.
Og þannig ólumst við upp, fórum út í heiminn, mættum lífinu og ævintýrum þess, allt með hennar fyrirmynd að leiðarljósi. Nú þegar hún er fallin frá skilur hún eftir sig einstaklinga sem hún var óendanlega stolt af og sem eru stolt af því að hafa átt hana sem móður.
Elsku mamma.
Eins og við höfum oft rætt, hversu djúpt við elskuðum þig og hvernig okkur leið. Sorgin sem við finnum núna snýst ekki um að þú sért farin, heldur um að þú þurftir að veikjast til að byrja með og gast ekki verið með okkur áfram.
En jafnframt vitum við að þú mátt vera stolt. Stolt af lífi þínu, af börnunum þínum og barnabörnunum. Allir í fjölskyldunni minnast þín með hlýju og þú ert alltaf hjá okkur.
Sara Dögg Ericsdóttir og Óskar Freyr Ericsson.
Elsku Ólöf.
Ég hef ekki hugmynd um hvar ég á að byrja, en fallegar minningar um yndislega tengdamömmu og frábæra ömmu standa upp úr. Það var alltaf svo stutt í hláturinn og húmorinn hjá þér. Hugulsemi og góðmennska standa upp úr þegar ég hugsa um þig. Þú umvafðir okkur og ömmustelpurnar þínar með kærleik, hlýju og visku. Við eigum eftir að sakna þín mikið.
Þú kenndir okkur hollensku og var alltaf spenningur hvað þú myndir taka upp úr töskunni þinni; eftirrétt eða „toetje“.
Þegar ég kynntist Óskari þá heillaðist ég mikið af hversu góðir vinir þið voruð og hversu fallegt samband þitt við Óskar og Söru var. Þú varst mér frábær fyrirmynd í lífinu og í hlutverkinu mínu fyrir stelpurnar sem mamma og var alltaf gott að leita til þín til að fá ráð eða bara stuðning.
Þér var margt til lista lagt enda var heimilið þitt fullt af málverkum sem þú málaðir sjálf, með mikilli nákvæmni. Á sófaborðinu var stór leirskál sem þú hafðir gert og safnað saman steinum víðsvegar að af landinu á ferðum þínum sem leiðsögukona. Enda vissir þú nánast nöfnin á öllum fjöllum og þúfum á landinu.
Þú naust þín mikið í náttúrunni og varst algjör náttúrudís og hippi. Þér fannst ekkert betra á sumrin en að fara út í garð á tánum og finna fyrir náttúrunni. Stundum tókst þú tai chi-æfingar með morgunrútínunni þinni úti í garði.
Við dáðumst svo að öllu sem þú gerðir og þú veittir okkur mikinn innblástur. Þú varst jákvæð og réttir okkur alltaf hjálparhönd þegar við þurftum, hvort sem það var með stelpurnar, húsið, pössun eða hvað sem var.
Við vorum svo heppin að fá að ferðast með þér, til Spánar og Hollands. Enda bjóstu þar í mörg ár á yngri árum þínum. Þessa tíma þykir mér svo vænt um að hafa átt með þér.
Ég er þakklát fyrir allan tímann með þér og sorgmædd yfir því að þú hafir kvatt okkur. Ég var viss um að við ættum eftir að fá okkur fleiri jarðarber og harðfisk saman úti í garði á góðum sumardögum.
Stelpurnar mínar eru svo heppnar að hafa átt þig sem ömmu, enda fannst þeim ekkert betra en að hjúfra sig að þér og hlusta á sögurnar sem þú sagðir þeim. „Dullupulla“ voru stelpurnar þínar, enda voru þær ömmugullin sem þú elskaðir af öllu hjarta.
Ferðalögin, hláturinn, sögurnar, harðfiskurinn, jarðarberin, samtölin, skilningurinn, hlýjan og ástin standa upp úr þegar ég minnist þín.
Elsku besta tengdamamma, nú kveð ég þig með söknuði og þakklæti.
Við munum sakna þín og við elskum þig.
Þín tengdadóttir og vinkona,
Lára.
Það er með miklum söknuði, að ég kveð elskulegu systur mína.
Það eru forréttindi að hafa verið þess aðnjótandi að eiga stóra systur sem jafnframt var mér sem vinkona og ráðagóð mamma. Alltaf tilbúin að hlusta og gefa ráð eða bara hlusta og hughreysta.
Olla systir var afar ákveðin, sjálfstæð, þrautseig og dugleg kona. Í lífinu gekk hún í gegnum meira en margur og gerði það hnarreist og sterk sem ég man að mér fannst afar aðdáunarvert sem lítilli stelpu og sem fullorðin sé ég hvað hún lagði mikið á sig til að ná sínum markmiðum. Hún var veraldarvön, byrjaði snemma að ferðast, bjó, lærði og starfaði erlendis og þá lengst í Hollandi. Hún var afar listræn og naut þess meðal annars að mála og vefa.
Olla hafði þörf fyrir að láta gott af sér leiða og gefa af sér til samfélagsins og gerði það með ýmsum hætti, starfaði á sambýli fatlaðra, starfrækti iðjuþjálfun á hjúkrunarheimilinu Skjóli, var sjálfboðaliði hjá RKÍ við símaráðgjöf ásamt því að starfa í Vin dagsetri.
Hún lauk tveimur háskólagráðum, annarri í Hollandi og hinni við HÍ, einnig lauk hún leiðsögunámi.
Ollu þótti afskaplega vænt um börnin sín og litlu ömmustelpurnar sínar og vildi allt fyrir þau gera. Henni þótti mjög vænt um nánasta fólkið sitt og var afar stolt af allri sinni ætt. Þegar við töluðum saman leið ekki á löngu þar til hún spurði frétta af mínum nánustu og skiptumst við þá á frásögnum af afkomendum okkar.
Við systur ferðuðumst töluvert saman bæði erlendis sem og innanlands, þetta voru afar skemmtilegar og eftirminnilegar ferðir og minningin mun ylja mér um ókomin ár. Margar ferðir fórum við saman í sælureit mömmu og pabba í Hvalfirði og áttum við þar gæðastundir, meðal annars við gróðurrækt. Olla naut hvers kyns útiveru og var hún þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að ferðast víða um landið sem leiðsögukona með hollenskumælandi ferðamenn.
Það eru margar ljúfar, góðar og ómetanlegar stundir sem við áttum saman í gegnum tíðina sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Gæðastundir á Vífilsgötunni eða hjá mér í góðu trúnaðarspjalli, bæjarferðir, kaffihúsaferðir og göngutúrar. Fullt af yndislegum sundferðum þar sem við nutum þess að sitja í heita pottinum, baða okkur í sólinni og spjalla um allt og ekkert.
Það var afar erfitt fyrir elsku Ollu og okkur öll þegar heilsu hennar fór að hraka hratt sem hafði miklar breytingar í för með sér.
Hún þurfti oft að flytja og dvelja á ýmsum stofnunum vegna veikindanna en erfiðleikunum tók hún af miklu æðruleysi. Það var ekki fyrr en síðasta hálfa árið, eftir að hún var farin að sjá fram á það að hún yrði ávallt háð öðrum við allar athafnir daglegs lífs, sem hún fór að bera sig illa. Hún vildi ekki vera upp á aðra komin enda hafði hún alla tíð verið sjálfstæð og sterk kona.
Það er erfitt að hugsa til þess að það verði ekki fleiri heimsóknir og samverustundir sem við munum eiga saman í góðu spjalli, en minningin um yndislega og sterka konu mun ylja mér um ókomin ár.
Hafðu þökk fyrir allt elsku systir, hvíldu í friði.
Þín systir,
Erla Ósk.
Elsku systir, það er með tárum að ég kveð þið í dag, þú hefur alla tíð verið hluti af mínu lífi, við áttum yndislega og áhyggjulausa æsku í fjölskylduhúsinu okkar í Ferjuvogi þar sem við báðar byrjuðum okkar líf og skólagöngu, síðar fluttum við á Hlíðarenda þar sem foreldrar okkar voru umsjónarmenn og pabbi þar handboltaþjálfari. Æfingadeild Kennaraskólans var með skóla í félagsheimilinu, þar varst þú í skóla tímann sem við bjuggum þar og lengur. Þér voru nú ekki gefin bestu spilin í fæðingargjöf en tókst vel að spila úr þeim, enda áttir þú tvær konur að sem elskuðu þig og stóðu ávallt með þér. Þetta voru amma Halldóra sem bjó hjá okkur alla tíð þar til hún lést árið 1967 og mamma, þær ólu upp í þér kjarkinn og seigluna sem kom þér áfram. Ég á ótal yndislegar minningar um okkar æsku, sérstaklega þegar við bjuggum í Vogunum. Man líka Tívolíferðina okkar þar sem við löbbuðum tvær einar (7 og 10 ára) yfir flugvöllinn frá Hlíðarenda. Þessi ferð endaði reyndar ekki vel, við fórum í klessubílana og lentum í árekstri, ég rak hausinn í mælaborðið og fékk heilahristing. Mér leið ömurlega og þú þurftir að fara með mig heim og hálfbarst mig til baka.
Síðar fluttum við í Skálagerði, þú fórst í Vogaskóla og eftir grunnskólann fórstu á lýðháskóla í Noregi, þar sem þú naust þín vel og eignaðist margar góðar vinkonur. Ein minning er mér mjög minnisstæð, þegar þú óvænt mættir til Oslóar, þar sem ég var í sumarvinnu, mamma hafði eflaust sent þig út til að athuga með litla trippið sem var nýorðin 18 ára og hafði lítið látið vita af sér. Einn góðviðrisdag fórum við ásamt öðrum stelpum í almenningsgarð til að njóta góða veðursins í sólbaði, í garðinum var gosbrunnur sem ég stóð við og veit ekki fyrri til en það kemur eldri maður í jakkafötum og lyftir mér upp og hendir mér út í brunninn, þú stökkst upp og hljópst á eftir honum, lemjandi hann með töskunni þinni. Það var oft mikið hlegið þegar þetta atvik var rifjað upp. Árið eftir fórst þú í Evrópuferð með vinkonu þinni þar sem þið ferðuðust víða og í Danmörku kynntistu Eric frá Hollandi, þið bjugguð og unnuð um tíma saman í Danmörku en fluttust síðan heim til Íslands þar sem þið bjugguð bæði í Reykjavík og í Vestmannaeyjum, þið giftuð ykkur og eignuðust Söru 1975. Tveimur árum síðar fluttuð þið til Hollands, fyrst til Den Haag þar sem Óskar fæddist og síðan til Pieterburen. Eftir að við Hjörtur fluttum til Danmerkur var styttra á milli okkar og þú komst oft í heimsókn og við til ykkar. Seinna eftir skilnað ykkar fluttist þú aftur til Íslands með börnin og bjóst lengi í Kópavogi í nágrenni við okkur. Margar ánægjustundir áttum við þar og í Hvalfirðinum og á skemmtilegu systrahelgunum og ferðum okkar þriggja innan- og utanlands.
Þú varst mjög listræn og fórst á ýmis listtengd námskeið og skildir eftir þig mörg falleg verk. Þú getur verið stolt af list þinni og störfum og af yndislegu börnunum þínum og barnabörnum, þú skilaðir þínu verki vel.
Þakka þér elsku Olla fyrir samveruna í yfir 70 ár og megir þú eiga góða heimferð.
Ragnhildur Guðný Hermannsdóttir.
Með hækkandi sól og vor í lofti kveðjum við einstaka vinkonu, Ólöfu Dóru, oftast kölluð Olla í okkar hópi, sem lokið hefur lífsgöngu sinni. Hennar heimur skaraðist við okkar árið 1967 þegar við nokkrar verzlunarskólameyjar hittum hana í fyrsta sinn, en hún var æskuvinkona Dísu og kom á hennar vegum fyrst inn í vinahópinn sem síðar var nefndur „Saumaklúbburinn Harðangur & Klaustur“ sem þótti einkar fyndið heiti í ljósi hlægilega fárra saumspora eða prjónalykkja í hópnum. Þó lítið hafi verið um handavinnu í saumaklúbbnum var þeim mun meira spjallað og hlegið. Allt milli himins og jarðar var skeggrætt og hún Olla hafði sterkar skoðanir sem hún lét í ljós á sinn hátt umbúðalaust og það var aldrei nein lognmolla á þeim bæ. Alltaf var fjör í kringum hana og mikið hlegið. Dásamlegar minningar eigum við um ferðir saumaklúbbsins til Genfar, Færeyja og Akureyrar að ótöldum ýmsum sumarbústaðaferðum.
Þó Olla hafi ekki verið með okkur á námsárunum var hún eigi að síður hluti af hópnum og einhverju sinni sagði hún að sér fyndist hún hafa verið samferða þessi sex ár okkar í Verzló og alveg verðskuldað verzlunarpróf og stúdentspróf. Hún skildi stundum ekkert í því að vera fjarverandi á myndunum úr hinum ýmsu uppákomum á námsárunum. Hún var vissulega ein af okkur og nú sitjum við Harðangurs- & Klausturmeðlimir með stórt skarð í hópnum.
Ollu var margt til lista lagt, allt lék í höndum hennar, hvort sem var handavinna, málun eða hvers konar listsköpun. Þessir hæfileikar hennar komu sér vel í vinnunni með öldruðum á Skjóli. Þó svo að hún hafi fengið sinn skerf af mótlæti kvartaði hún aldrei og hélt keik sínu striki. Á sínum tíma dreif hún sig í Leiðsögumannaskólann og ferðaðist nokkur sumur með hollenska ferðamannahópa um gjörvallt Ísland. Var gaman að heyra sögur hennar um alls kyns glímur við náttúru Íslands, óveður á hálendinu og bilaðar rútur.
Olla var sönn manneskja og alltaf var hún til staðar og jákvæð á hvaðeina sem var til umræðu eða atferlis. Gat þó algerlega verið á annarri skoðun en meirihlutinn og hélt sínu ákveðið fram. Hún var góður vinur í raun og sigri. Hláturinn hennar var á einhvern hátt svo upprunalegur, svolítið hrár en fallegur. Góður tónn. Og brosið sem blikaði í augum, yndislegt. Minningarnar eru margar, alltaf var gaman að koma við í Skálagerðinu hjá Ollu, kryfja mál dagsins og leitast við að leysa lífsgátuna. Nú er hláturinn þagnaður en allt það sem hann fól í sér lifir áfram.
Við kveðjum elsku Ollu okkar með söknuði og þökkum fyrir samfylgdina. Hún kenndi okkur margt og við munum alltaf minnast orðanna hennar „nei, hættiðinúalveg!“ Við sendum börnum hennar og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.
Birna, Björg, Guðný Anna, Guðrún, Ragnheiður, Sigurveig, Sigurborg, Stefanía, Svanhvít og Þórdís.
Tvær þrettán ára stelpur byrja í nýjum skóla, Vogaskóla, tengjast vináttuböndum og verða samferða gegnum lífið. Minningabrot koma upp í hugann.
Við Ólöf vinkona eða Olla, eins og hún var kölluð af flestum nema mér sem kynntist henni sem Ólöfu, fermdumst saman í bleikum blúndukjólum, báðar hávaxnar og dökkhærðar. Á unglingsárunum vorum við í góðum vinkonuhóp með skólasystrum mínum í Versló. Hún var ein af okkur þó hún væri ekki í sama skóla. Við vorum í svokölluðum saumaklúbb þótt lítið færi fyrir handavinnunni en meira hugsað um að hafa gaman saman og fara út á lífið. Klúbburinn lifir enn. Við Ólöf vorum eitt sumar á Eiðum að vinna á Edduhóteli, það var ævintýri fyrir okkur höfuðborgarbúana. En ævintýrin héldu áfram, næst var það Evrópa, puttaferðalag með hárlakksbrúsa einan að vopni. Ólöf kunni þetta eftir að hafa verið í Noregi lýðháskóla. Við dvöldum lengst í London og Amsterdam og þræddum söfnin, réð þar miklu áhugi Ólafar á listum. Við unnum í mánuð í Kaupmannahöfn á leið okkar til Oslóar í nám, Ólöf við vefnað og ég í sjúkraþjálfun. Þá gripu örlögin í taumana, meðal annars ástin. Ólöf kynntist Eric sínum í Kaupmannahöfn og við Ásgeir minn fórum að vera saman.Tveimur árum síðar fæddust frumburðir okkar, dæturnar Sara Dögg og Bryndís Björk. Á þeim tíma vorum við nágrannar í Vesturbænum. Litla fjölskyldan fluttist síðan til Hollands og sonurinn fæddist, Óskar Freyr.
Ólöf var klár, hress og hreinskilin og lét óhikað í sér heyra væri þess þörf. Þessir eiginleikar nýttust henni vel þegar hún flutti til Íslands með börnin sín, 11 og 15 ára, og hjálpaði þeim að aðlagast nýjum aðstæðum, meðal annars í skólakerfinu. Það var aðdáunarvert.
Hún hafði lært iðjuþjálfun og vann við það á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Hún var iðulega samtímis í annarri vinnu, á sambýli fyrir fatlaða og síðar fór hún í Leiðsöguskólann og ferðaðist með hollenskt ferðafólk vítt og breitt um landið. Hún lauk einnig BA-námi frá Kennaraháskólanum í tómstundaráðgjöf. Ólöf þjónaði listagyðjunni, var til dæmis góður teiknari og lærði vatnslitamálun. Við vorum saman í kór um tíma og náðum því að syngja Carmina Burana í Carnegie Hall, NY, ógleymanlegt. Ólöf uppskar vel, börnin hennar bera þess glöggt vitni. Hún naut sín í ömmuhlutverkinu og var ötul við að sinna ömmustelpunum sínum.
Ólöf ólst upp í traustri fjölskyldu með ömmu á heimilinu sem hún mat mikils. Í Hollandi bjuggu þau Eric lengst af í fallegu húsi með ávaxtatré í garðinum, í litlum bæ nálægt sjónum, Pieterburen. Hún bjó þar áfram eftir að þau skildu en flutti síðar til borgarinnar Groningen. Tengdafjölskyldan tók henni opnum örmum og reyndist henni vel.
Það var gott að líta inn hjá vinkonu minni á Vífilsgötunni, spjalla saman í rólegheitum og þiggja góðan tebolla eða kaffi með lúxushollustumeðlæti og eðalostum, ósjaldan hollenskum. Ólöf var trygg vinkona. Það reyndi á að fylgjast með henni missa kraftinn þegar óljós og illskiljanleg einkenni parkinsonssjúkdómsins fóru að segja til sín.
Hún var æðrulaus í veikindum sínum og trúði því að hennar biðu ný verkefni á öðru tilvistarsviði. Hennar er sárt saknað. Ég votta börnum hennar og ömmustelpunum innilega samúð.
Elsku Ólöf mín, ég kveð þig full þakklætis fyrir samfylgdina.
Þín vinkona,
Þórdís Kristinsdóttir (Dísa).