Samningar hafa verið undirritaðir um samþætta heimaþjónustu við íbúa Mosfellsbæjar, aukna dagdvalarþjónustu með fleiri rýmum og stofnun heimaendurhæfingarteymis fyrir fólk í heimahúsum.
Með samningunum verður rekstur allrar heimaþjónustu á hendi Eirar sem rekur hjúkrunarheimili og dagdvöl í bæjarfélaginu.
Samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðsins mun dagdvölin stækka til muna en þar verður rými fyrir 25 einstaklinga í stað níu áður. „Með því að efla og samþætta heima- og dagþjálfunarþjónustu á einni hendi er þess vænst að betur megi sníða hana að einstaklingsbundnum þörfum notenda og bregðast tímanlega við breytingum á aðstæðum þeirra og heilsufari,“ segir þar enn fremur.