Kolbrún Bergþórsdóttir
Það má komast langt á viljastyrknum einum. Með hann að vopni er til dæmis mögulegt að horfa á alla átta þættina í Netflix-þáttaröðinni With Love, Meghan. Manni drepleiðist allan tímann og einmitt þess vegna finnst manni að maður hafi unnið þrekvirki þegar áhorfinu er loks lokið.
Í þáttunum býður Meghan Markle vinum sínum í heimsókn og eldar fyrir þá. Venjulega lærir maður eitthvað af matreiðsluþáttum en ekki af þessum, sennilega vegna þess að lífsstíll manns er ekki réttur. Maður kemst til dæmis ekki í býflugnabú vanti mann hunang. Meghan hefur ekkert fyrir að bregða sér í býflugnabú til að ná í hunangið sitt. Hún setur síðan söxuð blóm í flesta rétti, meira að segja í ísmolaboxið þannig að hún geti drukkið þau á góðri stundu. Vitanlega bakar hún svo smákökur með söxuðum blómum.
Vinirnir sem koma í heimsókn hrósa Meghan í hástert fyrir það hversu frábær manneskja hún sé, góð, umhyggjusöm og hæfileikamikil. Meghan virkar hins vegar alls ekki töfrandi. Hún er gervileg og merkilega persónuleikalaus þar sem hún hjalar innihaldslausa frasa um ást sína á mat og lofar eigin sköpunargáfu.
Það er leitun að leiðinlegra sjónvarpsefni.