Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Leggja þarf sérstaka áherslu á forgangsröðun orku til landbúnaðar sem hluta af fæðuöryggi og þjóðaröryggi. Þetta segir í ályktun Búnaðarþings sem haldið var á dögunum. Að mati þingsins þarf að styrkja flutningskerfi raforku á landinu og tryggja framboðið. Slíkt stuðlar að fæðuöryggi með því að draga úr þörf á innflutningi matvæla og tryggja samkeppnishæfni.
„Orka sem er nýtt til landbúnaðar skilar umtalsverðri verðmætasköpun og er nauðsynleg til að mæta vaxandi kröfum um sjálfbæra framleiðslu,“ sagði á Búnaðarþingi. „Til að styrkja landbúnaðinn og tryggja fæðuöryggi þarf að forgangsraða orku til greinarinnar, sérstaklega á tímum álags eða skorts. Með markvissri stefnu um aðgengi að orku, hagkvæmt raforkuverð og öflugt dreifikerfi verður tryggt að innlendur landbúnaður sé sjálfbær og styðji þannig við þjóðaröryggi.“
Umhverfismál voru einnig rædd á Búnaðarþingi og sú stefnumörkun að íslenskir bændur framleiði loftslagsvænstu afurðir í heimi. Loftslagsvegvísir sé tæki til að sannprófa forsendur aðgerða sem ætíð séu tengdar afkomu bænda og íslenskum aðstæðum. „Mikilvægt er að reynsla og þekking bænda sé viðurkennd en vegvísirinn sýnir að íslenskir bændur hafa náð eftirtektarverðum árangri í loftslagsmálum,“ segir í ályktun Búnaðarþings. sbs@mbl.is