Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Ofsinn í viðbrögðum talsmanns kínverska sendiráðsins vekur furðu. Dettur manni í hug orðtakið sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Jónas Haraldsson

Nú nýlega var haldin ráðstefna um öryggis- og varnarmál, sem ríkislögreglustjóri stóð fyrir. Kom þar meðal annars fram hjá Karli Steinari Valssyni, yfirmanni öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra, að tímabært væri að opna umræðuna um njósnir Kínverja á Íslandi, sem hér væru stundaðar en væri viðkvæmt mál að fjalla um. Í nýju stöðumati um öryggisáskoranir var óvissa sögð ríkja um starfsemi kínverskrar norðurljósarannsóknarstöðvar í Þingeyjarsýslu, nánar tiltekið á Kárhóli, sem mögulegt væri að nýta til fjarskiptanjósna, en ekki bara til að rannsaka norðurljós.

Kínverjar bregðast við

Ekki stóð á viðbrögðum kínverska sendiráðsins, sem sendi strax út furðulega fréttatilkynningu, þar sem viðeigandi stjórnvald, það er Ríkislögreglustjóraembættið, er eins og þar segir hvatt til þess að láta af hroka og hleypidómum og stilla sig um að setja fram tilefnislausar ásakanir og dreifa kjaftasögum.

Ofsinn í viðbrögðum þessa talsmanns kínverska sendiráðsins vekur furðu. Dettur manni í hug orðtakið sannleikanum verður hver sárreiðastur. Leyfum þá Kínverjunum að njóta vafans. Kína stundar sem sé ekki njósnir á Íslandi eða nokkurs staðar í heiminum, gagnstætt því sem gildir um önnur stórveldi. Samviskan hjá þeim í þessum efnum er þá jafntær og hvítt upplitað lak.

Eitt var það í fréttatilkynningunni, sem ég næ ekki samhenginu í. Það er bent á að Kínverjar hafi veitt okkur Íslendingum aðstoð vegna afleiðinga fjármálakreppunnar árið 2008. Ekki fæ ég séð hvernig það eigi að skipta máli til eða frá um hvort Kínverjar stundi njósnir á Íslandi eða ekki. Verður ekki annað skilið en að vegna þessarar fyrirgreiðslu eigum við Íslendingar ekki að minnast neitt á njósnir Kínverja og steinþegja yfir þeim. Heldur skuli í staðinn horfa á heildarmyndina varðandi vinsamleg samskipti ríkjanna. Þá segi ég þetta: Ekki færum við Íslendingar að minnast á covid-19, þ.e. kínversku veiruna, og allan þann skaða beinan og óbeinan, sem hún olli okkur og öllum heiminum. Tengja það síðan með einum eða öðrum hætti við umfjöllun um njósnir Kínverja á Íslandi.

Þá vil ég hér nota tækifærið sem eini Íslendingurinn, sem Kínverjar hafa sett á svartan lista, og beina þeim óskum til Karls Steinars að taka ekki mark á ruddalegum, móðgandi og tilhæfulausum ummælum talsmanns kínverska sendiráðsins um störf hans og ríkislögregluembættisins. Ég þykist þess fullviss að þau störf eru unnin af heilindum og samviskusemi með hagsmuni og öryggi Íslendinga fyrst og fremst í huga.

Viðhorf til Íslendinga

Hvað mig sjálfan varðar hef ég ekki leitt hugann mikið að því hvaða álit Kínverjar hafa almennt á okkur Íslendingum. Þó verð ég að viðurkenna að oft kemur upp í hugann og situr fast í mér textinn í laginu Grínverjinn, sem Laddi syngur með miklum tilþrifum á bjagaðri íslensku. Er hann þar í hlutverki kínversks kokks, sem eldar ofan í Íslendinga með hrikalegum afleiðingum fyrir þá. Það eru sérstaklega þessi orð í textanum, sem fest hafa í minni mínu: „Íslendingar fá voða vont í magann og gera í buxan sín,“ og að því sögðu veinar kínverski kokkurinn af hlátri yfir ásigkomulagi Íslendinganna eftir kínversku máltíðina hjá honum. Ég veit að þetta er bara texti dægurlags, en samt. Manni getur sárnað. „Gera í buxan sín.“ Maður er jú Íslendingur. Ég tel þó og vona að eitthvað þessu líkt sé ekki hið almenna viðhorf Kínverja til okkar Íslendinga í dag, hvað svo sem segja má um meinta njósnastarfsemi þeirra hér á Íslandi, sem ekki má nefna á nafn frekar en snöru í hengds manns húsi.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jónas Haraldsson