Sonja Sif Þórólfsdóttir
sonja@mbl.is
Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur er komin til Grænlands til fundar við nýja landsstjórn. Heimsókn forsætisráðherrans danska hefur þó strax klofið landsstjórnina áður en hún hefur formlega tekið til starfa.
Jens Frederik-Nielsen, sem verður formaður nýju landsstjórnarinnar, sagði í viðtali við danska ríkisútvarpið, DR, að hann væri mjög glaður með að Frederiksen kæmi strax í formlega heimsókn til Grænlands.
„Þetta ástand sem er í heiminum og í utanríkismálum þýðir að við þurfum að hittast eins fljótt og auðið er,“ sagði hann í viðtali. Sýna þyrfti samstöðu á þessum tímum.
Hefði átt að bíða
Félagar hans í landsstjórninni voru ekki á sama máli og telja að Frederiksen ætti ekki að koma í heimsókn fyrr en ný stjórn hefur tekið formlega til starfa. „Ég tel að það sé mjög, mjög mikilvægt að allt sé komið á sinn stað,“ sagði Vivian Motzfeldt leiðtogi Siumut-flokksins við DR fyrir komu Frederiksen. Nýja landsstjórnin verður formlega samþykkt af grænlenska þinginu næsta mánudag.
Motzfeldt sagði þó að Frederiksen væri sannarlega velkomin til landsins, en fyrst hún beið ekki með komu sína fram yfir helgi myndi hún hitta bæði fráfarandi og nýja landsstjórn. Þó að Motzfeldt og Frederik-Nielsen séu ekki sammála telur hún það ekki merki um bresti í nýrri landsstjórn. „Í stjórnmálum á að vera rými fyrir fólk til að tjá skoðanir sínar,“ sagði hún.
Frederiksen hóf heimsókn sína á fundi með nýju landsstjórninni í Nuuk. Síðar um daginn hitti hún fráfarandi formann stjórnarinnar, Múte B. Egede. Egede tók á móti Frederiksen, og eiginmanni hennar, Bo Tengberg, á flugvellinum og fóru þau svo til fundar við Frederik-Nielsen.
Ræða frekara samstarf
Frederiksen greindi frá Grænlandsferð sinni síðustu helgi, skömmu eftir Grænlandsheimsókn J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir: „Ég ber mikla virðingu fyrir því að Grænlendingar og grænlenskir stjórnmálamenn hafi staðið sig í því álagi sem hefur verið á Grænlandi að undanförnu.“
Á meðal þess sem Frederiksen kemur til með að ræða við Frederik-Nielsen er frekara samstarf Danmerkur og Grænlands.
Meta kostnaðinn
Vill kaupa Grænland
Ríkisstjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta er sögð vera að meta hversu mikið það myndi kosta Bandaríkin að kaupa Grænland. Washington Post greinir frá þessu og kveðst hafa þrjá heimildamenn sem þekkja til málsins.
Trump hefur ekki farið leynt með áhuga sinn á að gera Grænland að yfirráðasvæði Bandaríkjanna.
Á meðal þess sem felst í kostnaðargreiningunni er að skoða hvað það kostar að eiga og reka Grænland.
Einn kostur sem til skoðunar er í greiningarferlinu er að bjóða Grænlendingum hærri framlög til landsstjórnarinnar en Danir, sem leggja árlega um 600 milljónir evra til hennar. J.D. Vance varaforseti Bandaríkjanna sótti landið heim í síðustu viku og lét m.a. þau orð falla að Danir hefðu ekki gert nóg fyrir Grænland.