Nyrsti kafli Hringbrautar er sennilega sá vegarspotti á landinu þar sem finna má flestar ljósastýrðar gangbrautir. Alls eru þær sex.
Nú stendur til að fjölga þeim í sjö. Í Morgunblaðinu kom fram í liðinni viku að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefði ákveðið að ganga til samráðs við Vegagerðina um gangbrautarljós til móts við Sæmundargötu yfir í Hljómskálagarðinn.
Fyrir tólf árum hófust framkvæmdir við gangbraut á þessum stað, en þeim var hætt þar sem gleymst hafði að láta lögreglu vita.
Árið 2012 var gangbrautin við Þjóðminjasafnið færð ofar í götuna og nær Melatorginu. Það varð til þess að það varð meiri krókur fyrir þá sem komu gangandi eða hjólandi eftir Sæmundargötunni, að komast að gangbrautinni.
Það hafði einnig í för með sér að á annatíma teygist biðröð bíla á ljósunum inn á Melatorgið, sem getur verið hættulegt, enda er bannað með lögum að stöðva bifreið á hringtorgi.
Nær hefði verið að sleppa því að færa ljósin.
Frá Sæmundargötu að Framnesvegi eru um 1.300 metrar. Nú stefnir allt í að á þessum kafla verði sjö ljósastýrðar gangbrautir. Bilið á milli er tæpir 200 metrar. Það er vel í lagt.