Ráðhildur Ingadóttir (1959) Iður / Vortex, 1998-2021 Silkiþrykk á bómullarboli og flístreyju, bývax (skúlptúr), vídeó
Ráðhildur Ingadóttir (1959) Iður / Vortex, 1998-2021 Silkiþrykk á bómullarboli og flístreyju, bývax (skúlptúr), vídeó
Ráðhildur Ingadóttir nam myndlist í Englandi, við Emerson College í Sussex frá 1981 til 1986 og við St. Albans College of Art and Design. Hún hefur verið virk í sýningarhaldi um árabil. Ráðhildur vinnur með ólíka miðla; teiknar, málar, gerir skúlptúra og myndbönd og notfærir sér margvísleg efni

Ráðhildur Ingadóttir nam myndlist í Englandi, við Emerson College í Sussex frá 1981 til 1986 og við St. Albans College of Art and Design. Hún hefur verið virk í sýningarhaldi um árabil. Ráðhildur vinnur með ólíka miðla; teiknar, málar, gerir skúlptúra og myndbönd og notfærir sér margvísleg efni. Þetta fléttar hún saman í margþættar innsetningar sem byggjast á hugmyndum „um rúmfræðilega vörpun og hliðrun í rými og tíma“.

Iður á uppruna sinn að rekja til ársins 1998 þegar hörmungar borgarastríðsins í Júgóslavíu voru enn ljóslifandi í huga Evrópubúa. Tengja má verkið við þá liststefnu sem kölluð hefur verið venslalist, en franski fræðimaðurinn Nicolas Bourriaud sagði hana felast í því að listamenn ynnu með tengsl á milli fólks og félagslegt samhengi þess. Ráðhildur lét þrykkja geómetrískar teikningar sem tengdust eðlisfræði og geimnum á 500 flístreyjur. Alþjóða Rauði krossinn fjármagnaði verkefnið, fann út hvar treyjurnar kæmu að bestum notum og dreifði þeim síðan á meðal bosnískra og króatískra Serba í grennd við Belgrad. Þetta ferli var skrásett á myndband árið 1998.

20 árum síðar, árið 2018, fór Ráðhildur aftur til Belgrad og með aðstoð Rauða krossins náði hún sambandi við nokkra einstaklinga sem höfðu fengið treyju á sínum tíma og tók myndbandsviðtöl við þá og fleiri. Skúlptúrarnir í verkinu eru gerðir eftir hlutum sem Ráðhildur sá hjá og inni á heimilum viðmælenda sinna í þessari heimsókn. Upp úr þessum tveimur heimsóknum varð síðan heildarinnsetning Ráðhildar til. Hún var sýnd í Listasafni Reykjanesbæjar 2021-2022, á sýningunni Skrápur sem fjallaði um fólksflótta og flóttamenn í heiminum, í sýningarstjórn Helgu Þórsdóttur. Listasafn Íslands keypti hluta innsetningarinnar; myndbandið frá 1998 og áprentaða flíspeysu, eitt af viðtölunum frá 2018-2021 og skúlptúr úr bývaxi, Jugo, auk tíu áprentaðra bola frá 2018-2021, Vinklar, en á þá eru prentaðar setningar úr viðtölunum.

Verkið í heild flakkar í rými og tíma og varpar ljósi á einstaklinga í stríði þá og síðar. Ráðhildur Ingadóttir býr og starfar í Reykjavík, á Seyðisfirði og í Kaupmannahöfn og verk eftir hana eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins.