Hafsteinn Oddsson fæddist 7. ágúst 1947 á gamla sjúkrahúsinu á Siglufirði. Hann lést á Hrafnistu Hlévangi 13. mars 2025.

Foreldrar Hafsteins voru Oddur Vagn Hjálmarsson, f. 11.7. 1912, d. 10.6. 1979 og Gunnfríður Friðriksdóttir, f. 24.8. 1920, d. 4.11. 1996.

Systkini Hafsteins eru Erna Margrét, f. 20.5. 1937, d. 13.5. 2020, Hannes Friðrik, f. 26.12. 1939, og Ingibjörg, f. 23.10. 1943, d. 16.2. 2022. Hálfbróðir Hafsteins var Svanur Geirdal Oddsson, f. 16.9. 1935, d. 12.12. 2008.

Eiginkona Hafsteins var Sigrún Guðbjörg Ásgeirsdóttir, f. 5.5. 1951, d. 3.7. 2022. Foreldrar hennar voru Ásgeir Ólason, f. 26.4. 1925, d. 22.1. 2002 og Torfhildur Jóhannesdóttir, f. 12.11. 1926, d. 20.1. 2004.

Börn Hafsteins og Sigrúnar eru: 1) Hjálmar Vagn, f. 25.4. 1971, d. 9.7. 2005. 2) Sonja Drífa, f. 30.4. 1973, gift Halldóri Þorvaldssyni, f. 25.8. 1971. Börn þeirra eru: a) Hafrún Ýr, gift Atla Einarssyni og eiga þau tvö börn, b) Stefanía Malen, í sambúð með Ólafi Guðmundssyni og eiga þau fjögur börn og c) Aron Ingi. 3) Ásgerður Hafdís, f. 26.4. 1978, gift Úlfari Erni Jónssyni, f. 21.2. 1980. Börn þeirra eru: a) Andrea Sól Garðarsdóttir, b) Antonía Ísey og c) Ernir Ísarr. 4) Díana Signý, f. 16.2. 1984. Dóttir hennar er Viktoría Lilja Mavropulo.

Útför Hafsteins fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 3. apríl 2025, og hefst athöfnin kl. 13.

Jarðsett verður í Njarðvíkurkirkjugarði.

Mikið óskaplega finn ég til í hjartanu að vera búin að missa þig elsku pabbi minn. Besti og skemmtilegasti pabbinn. Ég er svo innilega þakklát fyrir samferðina með þér, sögustundirnar, ferðalögin, brasið og aðstoðina sem þú veittir mér alltaf þegar ég þurfti á þér að halda. Nú ertu kominn til mömmu og Hjálmars og ég veit að þið vakið yfir okkur sem eftir erum.

Minningarnar streyma fram þegar maður stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að fleiri verða þær ekki en þær eru ótal margar dásamlegar sem ég á með þér elsku pabbi. Alltaf að brasa eitthvað. Úti í skemmu að gera við bíla, tól og tæki eða smíða hitt og þetta. Ég man þegar þú dróst fram forláta framköllunargræjur og kenndir mér að framkalla ljósmyndir í þvottahúsinu heima á gamla mátann, eins og ég sá stundum í bíómyndunum, pabbi kunni allt. Þar áttum við margar góðar stundir og áhugasamt barn dáðist að ljósmyndunum sem birtust hægt og rólega á pappírnum sem skipulega var hengdur á snúruna.

16 ára gamla fékkstu mig með þér að fella grásleppunet í sveitinni fyrir komandi vertíð. Eldsnemma alla morgna var ræs og brunað í sveitina og ferðin nýtt til að kenna unglingnum að keyra því þarna var ég komin með æfingaakstur. Allan daginn unnum við saman og spjölluðum. Þetta er tími svo dýrmætur í minningunni og í dag er ég þakklát fyrir að hafa verið vakin kl. 6 á morgnana fyrir hann. Þegar þú opnaðir svo kajakleiguna nokkrum árum seinna áttum við oft þessar umræður saman því ég fór að hjálpa þér með leiguna þegar ég gat. Þá sátum við oft, drukkum kaffi og þú sagðir mér sögur af Siglufirði. Sögur sem ég hafði oft heyrt áður en sama hversu oft, þær voru alltaf jafn fyndnar og ótrúlegar. Það voru nokkrar ævintýralegar ferðir sem við fórum í saman á kajökunum. Stendur upp úr ferðin sem við fórum saman í Drangey og lentum í hvalatorfu. Ég man ekki eftir að hafa orðið eins hrædd á ævi minni en þú, pollrólegur, stappaðir í mig stálinu og hvattir mig til að halda áfram að róa en þegar við komum í land sagðirðu mér að þér hefði nú ekki verið alveg sama á tímabili. Þarna þurftir þú bara að halda ró þinni til að passa stelpuna þína.

Þegar maður opnar minningabankann þá skjótast alltaf upp minningar af ferðalögum. Þú varst algjör útilegukarl og þú smitaðir mig sannarlega af því. Það er líklega ykkur mömmu að þakka að ég var og er nokkuð klár í íslenskri landafræði því það var sennilega ekki til sá staður á landinu sem ég hafði ekki heimsótt með ykkur. Útilegubúnaður í kerru aftan í bílinn og brunað af stað allar helgar allt sumarið. Þetta eru æskuminningarnar sem standa upp úr. Í minningunni var alltaf gott veður, nema einu sinni, og það var alltaf gaman. Ég held að mörg í stórfjölskyldunni deili þessum minningum með okkur systrum með bros í hjarta. Minningarnar eru þúsund sinnum fleiri en þangað til við hittumst aftur geymi ég þær í hjarta mér.

Takk fyrir allt elsku pabbi.

Takk fyrir allt elsku afi, sem varst börnunum mínum svo dásamlegur.

Takk fyrir minningarnar, hláturinn og grátinn.

Takk fyrir ástina og hlýjuna.

Ég mun elska þig að eilífu.

Þín dóttir,

Ásgerður.

Það er komið að stundinni sem hefur vofað yfir síðustu misserin, að fylgja pabba síðasta spölinn. Sorgin er mikil en það er skrítið að syrgja og finna fyrir létti á sama tíma, létti fyrir hans hönd að loksins sé hann laus úr þeim hlekkjum sem heilabilun er. Ég hélt að ég væri vel undirbúin, þar sem maður byrjar að syrgja þegar ástvinur greinist og þar sem það er ekki svo langt síðan mamma kvaddi okkur eftir stutt en erfið veikindi. En þegar kom að kveðjustundinni var sorgin yfirþyrmandi en ég fann líka fyrir létti og þakklæti. Ég er svo þakklát fyrir að við systur fengum að halda í hönd hans, umvefja hann ást og hughreysta hann fyrir ferðalagið sem fram undan var. Ég er ekki viss um að það hafi verið margt sem pabbi hræddist annað en það að erfa þennan hræðilega sjúkdóm sem heilabilun er, að enda inni á stofnun og þekkja kannski ekki fólkið sitt. En við vorum svo heppin og sérstaklega hann að komast að inni á Hrafnistu Hlévangi þar sem var hugsað svo einstaklega vel um hann og honum leið vel.

Pabbi var stríðinn, skemmtilegur, glaðlyndur og góðhjartaður. Hann mátti hvergi aumt sjá og var einstakur dýravinur og oftar en einu sinni kom hann heim með hvolpa sem þurftu heimili eða voru móðurlausir og þurfti jafnvel að gefa þeim úr skeið eða pela til að halda í þeim lífinu. Hann var einstaklega handlaginn og það var fátt sem pabbi gat ekki gert. Eitt sinn t.d. saumaði hann og mamma á mig kjól. Hann var óeigingjarn á tíma sinn og sérstaklega hjálpsamur, og því miður eru alltaf einhverjir sem kunna við að misnota þann eiginleika hjá fólki og pabbi fór ekki varhluta af því.

Pabbi hafði sterkar skoðanir og lá ekkert á þeim, sérstaklega hvað varðaði pólitík og gat hann skemmt sér við að skjóta mönnum hátt upp í hversdagslegum umræðum ef sá gállinn var á honum og leiddist það ekki.

Pabbi var eins og fyllingin í besta konfektmolanum. Ómissandi hluturinn í tilverunni, hvað sem það var, hann var alltaf fasti punkturinn.

Eftir stendur tóm sem áður var fullt af tilhlökkun eftir því að hitta hann og hlæja saman, knúsast og njóta örstuttra augnablika sem glitti í pabba fyrir innan þokuna sem umlukti hann síðustu árin. Í fyllingu tímans mun þetta tóm þó fyllast með góðum minningum um yndislegan pabba sem gerði allt fyrir alla og meira til.

Elsku pabbi, takk fyrir allt sem þú kenndir mér, allt sem þú varst mér og alla þína ást.

Þín

Sonja.

Elsku besti, hjartans pabbi minn.

Ég á eftir að sakna hans svo sárt og lífið verður svo tómlegt án hans. Ég get ekki bara droppað við í sögustund með pabba yfir kaffibolla lengur. Maður gat setið með pabba tímunum saman og hlustað á sögurnar um öll prakkarastrikin frá því hann var krakki og sögurnar af sjónum og um alla karlana sem hann þekkti sem allir báru einhver skrýtin gælunöfn.

Síðustu árin fóru sögurnar þó smám saman að gleymast og missa samhengið en alltaf talaði hann eins og enginn væri morgundagurinn og það var alltaf jafn gaman að hlusta. Að fara til pabba þegar ég átti erfiðan dag gerði allt betra, tala nú ekki um þegar hann þekki mig með nafni. Síðustu daga hef ég staðið mig oft að því að hugsa „ég ætti kannski að kíkja á pabba“ þegar ég keyri einhvers staðar nálægt Hlévangi en um leið hellist yfir mig tómleikinn þegar ég fatta að hann er ekki lengur þar.

Ég hef alltaf verið mikil pabbastelpa og eyddi ófáum stundum í að skottast í kringum hann á verkstæðinu, úti á bryggju, í trillunni og í bílskúrnum, fiktandi í verkfærunum hans og skoða hvern einasta hlut sem þar var. Og hann virtist hafa endalausa þolinmæði í að segja mér og sýna hvernig þeir virkuðu. Þetta voru gæðastundirnar okkar fram yfir þrítugt og hefur haft þau áhrif að mér finnst miklu skemmtilegra í verkfærabúð en í fatabúð.

Pabbi var þúsundþjalasmiður og alltaf ef það þurfti að gera við eitthvað þá gat maður hóað í pabba og hann lagaði það. Hann kunni allt og hann gat allt, og ef hann kunni það ekki þá fann hann út úr því. Það var því nokkurt áfall þegar sjúkdómurinn var farinn að taka af honum þessa hæfileika og maður þurfti að leita aðstoðar utan að.

Pabba fannst ís í brauði með súkkulaðidýfu alveg rosalega góður þannig að það var yndisleg stund sem ég átti með honum viku fyrir andlátið þar sem ég kom með handa honum ís úr vél með súkkulaðidýfu. Þar kjaftaði á honum hver tuska á meðan hann hámaði í sig ísinn. Þarna hvarflaði ekki að mér að þetta væri okkar síðasta almennilega stund saman.

Heilabilun er alveg hræðilegur sjúkdómur. Að sjá pabba minn hverfa frá mér smátt og smátt og missa svo getuna til að gera einföldustu hluti er rosalega vont. Að fylgjast með honum gleyma mér smátt og smátt er ólýsanlega sárt. Það glitti nú samt alltaf í hans persónuleika og hann hætti aldrei að syngja, segja sögur eða að stríða, sérstaklega starfskonunum á Hlévangi. Uppáhaldslagið hans var Prins Póló.

Hjarta mitt er brotið í þúsund mola. En á sama tíma er ég fegin fyrir hans hönd að vera laus frá þessum sjúkdómi en mest af öllu er ég svo óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar okkar saman og að hafa getað verið til staðar fyrir hann eftir að mamma dó.

Elsku pabbi minn. Ég veit að þú ert kominn á betri stað og vil trúa því að þú sért núna kominn til mömmu og Hjálmars og að þar hafi verið miklir fagnaðarfundir. Gefðu þeim gott knús frá okkur Viktoríu.

Elska þig og sakna þín!

þín dóttir,

Díana.

Í dag er lagður til hinstu hvílu elsku afi okkar, Hafsteinn Oddsson. Afi hafði, eins og flestir afar, ótal mannkosti. Hann var sterkur, ljúfur, skemmtilegur, algjör prakkari, reglulega fyndinn en fyrst og fremst uppátækjasamur.

Afi naut sín best umkringdur fólkinu sínu að segja sögur frá æskuárunum á Siglufirði, siglingunum um heimshöfin og öllum þeim ævintýrum sem lífið hafði boðið honum upp á. Sögurnar frá æskuárunum á Siglufirði voru sveipaðar sannkölluðum ævintýraljóma fyrir lítil eyru sem hlustuðu af miklum áhuga og reyndu að ímynda sér afa sinn sem lítinn strák að sigla í sjóorrustum um Siglufjörð á bátum úr útflöttum bárujárnsplötum, berjast í hverfastríðum milli Bakkagutta og Villimanna þar sem hann fór að eigin sögn fremstur í flokki og var þá yfirleitt kallaður Bakka-Tarzan.

Við minnumst gæðastundanna okkar með afa, hvort sem það var að brasa með honum í skúrnum, og þegar verkefnin þar kláruðust voru bara búin til ný verkefni, að spjalla yfir góðum kaffibolla í sólstofunni eða deila góðum sögum yfir sígarettu. Hann afi kenndi okkur ótal margt og var partur af mörgum ógleymanlegum augnablikum í lífi okkar. Hann var mjög þolinmóður við okkur systkinin og kennd okkur ýmist að hjóla, sigla á kajak eða að rafsjóða. Afi var líka alltaf boðinn og búinn að kippa barnatönnunum úr þegar þær fóru að losna.

Við vildum að við gætum fengið eina stund í viðbót með honum, bara eina sögu í viðbót. Afi á stóran stað í hjörtum okkar allra og hans verður sárt saknað. Hvíldu í friði elsku afi. Knúsaðu ömmu frá okkur og við lofum að við munum ekki gera neitt sem þú myndir ekki gera.

Hafrún Ýr, Stefanía Malen og Aron Ingi.