Veronika Ruby Sheila Kumari Palaniandy fæddist í Singapúr 3. maí 1958. Hún lést 24. mars 2025.
Foreldrar Ruby voru Lily Sarojini Annamalay lögreglukona og Cpt. Smna Michael Palaniandy.
Ruby var næstelst fimm barna og voru systkini hennar Charles, Michael, Daisy og Annie.
Ruby var gift Birgi Ólasyni til margra ára en leiðir þeirra skildi 2023.
Börn og stjúpbörn Ruby eru Alba, f. 1982, Lísa, f. 1997, Hólmsteinn Bjarni, f. 1979, Sigurlaug, f. 1983, og Rúnar Óli, f. 1989.
Ruby var lengi vel með eigin rekstur en starfaði einnig sem matreiðslumaður ásamt því að kenna matreiðslu í nær 30 ár.
Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Reyjavík í dag, 3. apríl 2025, klukkan 13.
Mér var óneitanlega talsvert brugðið þegar mér í síðustu viku barst fregnin um að elsku Ruby væri látin. Þrátt fyrir að hún hafi glímt við erfið veikindi undanfarna áratugi kom fráfall hennar afar óvænt. Alltaf heldur maður einhvern veginn að maður hafi meiri tíma.
Ruby kom inn í líf mitt og sonar míns þegar leiðir okkar Ölbu lágu saman fyrir tæpum 16 árum. Hjartahlýrri manneskju er leitun að og Ruby stækkaði hjarta sitt enn meir til að gera pláss fyrir okkur mæðgin, sem fengum frá fyrsta degi að upplifa þá einstöku hlýju sem Ruby sýndi sínu fólki.
Í gegnum Ruby fengum við líka að kynnast öðrum menningarheimi, matargerð, siðum og venjum sem voru okkur annars framandi. Í einni af fyrstu heimsóknum mínum til hennar, með son minn þá þriggja ára, gleymi ég ekki jafnt undruninni og aðdáuninni í augum þeirra beggja þegar Úlfur Kári sporðrenndi stærðarinnar fullorðinsskammti af Biryani-kjúklingarétti og kjamsaði auk þess alsæll á Ikan bilis, eins og hann hefði hreinlega aldrei fengið neitt að borða. Ofan á allan kærleik okkar til Ruby var einlægari matarást vandfundin.
Þrotlausa þolinmæðin sem hún svo sýndi algjörlega vonlausum nemanda, við að reyna að kenna mér (að hennar mati) einföldustu rétti eða uppskriftir, verður mér líka alltaf minnisstæð þó ekki hafi mér nokkurn tíma lukkast að leika eftir neitt af því sem hún töfraði áreynslulaust fram í eldhúsinu.
Efst í huga Ruby voru alltaf dætur hennar og fjölskyldan. Stoltið var óendanlegt af afrekum þeirra og sigrum en Ruby afneitaði alla tíð forskeytinu „tengda-“. Það var nú meiri vitleysan í hennar huga. Dætur voru dætur og engu tauti við hana komið með það. Sama gilti um Hjalta hennar Lísu, sem hefði allt eins getað verið hennar eigin sonur. Jafnvel eftir að leiðir okkar Ölbu skildi kom aldrei til greina að ávarpa hana öðruvísi en „ma“ og þegar henni hlotnaðist önnur dóttir stækkaði hjartað og faðmurinn enn meir við að taka á móti Sólrúnu í fjölskylduna.
Elsku Alba og Lísa. Sú dýrðlega kona sem mamma ykkar var lifir nú áfram í ykkur báðum. Einlægustu samúðarkveðjur ná ekki að lýsa þeim hlýhug og kærleik sem ég sendi ykkur á þessum erfiða tíma. Megi minningin um glettnina í brosi hennar, takmarkalaust stolt hennar af ykkur og auknu lífsgleðina sem einkenndi hennar síðustu ár ylja ykkur, lifa og vera ykkur huggun í sorginni.
Hjalta og Sólrúnu, Sillu, Rúnari og Hólmsteini, Úlfi Kára mínum og öllum barnabörnum, stórfjölskyldunni í Singapúr og öllum sem þekktu Ruby og lánaðist að vera samferða henni um lengri eða skemmri tíma samhryggist ég einnig innilega og sendi mínar hlýjustu kveðjur.
Gríma.
Þú komst eins og sólargeisli inn í mitt líf elsku Ruby. Tíminn sem við áttum saman er einn sá besti í mínu lífi. Jákvæðari, umburðarlyndari, umhyggjusamari konu hef ég aldrei kynnst á lífsleiðinni. Áhugamálin voru nánast þau sömu. Var að rifja það upp í huganum að við rifumst aldrei sem er merkilegt fyrir mig þar sem ég hef verið þessi pirraða týpa! Þeir sem þekkja mig best vita það. En þannig var Ruby, engin vandamál. Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Ruby, hún þurfti alveg að berjast fyrir sínu, en hún hafði trúna sér til halds og trausts sem var hennar haldreipi í lífinu. Við töluðum saman á hverjum degi sem ég mun sakna mikið elsku Ruby. Þær minningar munu ylja mér um hjartarætur alla tíð. Þú átt risastóran stað í hjarta mínu elsku Ruby.
Guð geymi þig og varðveiti elsku Ruby.
Grétar Pétur Geirsson.