40 ára Birgitta er fædd og uppalin á Þingeyri við Dýrafjörð. „Rúmlega tvítug tók ég mig til og elti bróður minn suður með sjó til Grindavíkur og hef búið þar síðan eða þar til við þurftum að rýma bæinn okkar. Í Grindavík var dásamlegt að búa og góður staður til að ala upp krakkaskara.
Lengst af starfaði ég í Grunnskóla Grindavíkur þar sem ég kynntist fullt af frábæru samstarfsfólki, foreldrum og börnunum þeirra og búum við að þeim auði enn. Fjölskyldan var búin að hreiðra um sig í Þórkötlustaðahverfinu, þar fann vestfirska sveitastelpan vel fyrir uppruna sínum í nálægð við náttúruna og sjóinn.“
Birgitta tók sæti í bæjarstjórn vorið 2022. „Fram undan voru mörg metnaðarfull verkefni sem heldur betur hefði verið gaman að fá tækifæri til að fylgja eftir en þess í stað fengum við risavaxið verkefni upp í hendurnar, verkefni sem engan óraði fyrir og öllum ætti að vera kunnugt um.“
Áhugamál Birgittu eru að ferðast og skapa minningar með fjölskyldu og vinum.
Fjölskylda Eiginmaður Birgittu er Heiðar Elís Helgason, f. 1985, en þau eiga og reka byggingarfyrirtækið HE Helgason ehf. Börn þeirra: Gunnar Helgi, f. 2008, Kristján Örn, f. 2012, Hekla Rut, f. 2018, og svo tvíburarnir Hilmar Þór og Sigurður Þór, f. 2020. „Sigurður Þór fæddist andvana og bróðir hans Hilmar Þór barðist hetjulega fyrir lífi sínu á vökudeild Landspítalans í margar vikur. Í dag gefur Hilmar Þór systkinum sínum eða öðrum ekkert eftir þrátt fyrir að hafa verið agnarsmár við fæðingu. Þar fann fjölskyldan hversu öflugt og einstakt samfélagið í Grindavík er ásamt því að vera ótrúlega rík að fjölskyldu og vinum sem stóðu þétt við bakið á okkur þegar virkilega á reyndi.“
Foreldrar Birgittu: Friðfinnur S. Sigurðsson, f. 1951, d. 2023, og Sigríður Helgadóttir, f. 1957, búsett á Þingeyri. Þau ráku F og S hópferðabíla ásamt því að vera eigendur Gistihússins við fjörðinn.