Lilý Erla Adamsdóttir og Thora Finnsdóttir opna sýninguna Að lesa í hraun á morgun kl. 17 í Listvali Galleríi á Hólmaslóð 6. Í tilkynningu segir að kröftug einkenni íslensks landslags myndi sameiginlegan snertiflöt í samstarfi Lilýjar Erlu og Thoru sem nú sýna í fyrsta sinn á HönnunarMars. Þær nálgast listina hvor með sínu móti, en í samvinnu þeirra myndast samtal þar sem hugmyndir, aðferðir og efnisnotkun fléttast saman. Lilý Erla vinnur með efnismiðaða og rýmislega nálgun þar sem textílverk hennar spretta úr persónulegum upplifunum. Thora skoðar hins vegar tengsl manns og náttúru og með skúlptúrum og steinþrykki leitar hún að sögum sem búa í efninu. Sýningin, sem stendur til 19. apríl, varpar ljósi á hvernig þessar ólíku aðferðir hafa áhrif hvor á aðra og mynda lifandi samtal milli textíls og keramíks.