Tinna Hrund Birgisdóttir fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík 5. desember 1982. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 20. mars 2025.

Foreldrar hennar eru hjónin Linda Hannesdóttir, f. 2. júlí 1962, fyrrverandi framkvæmdastjóri, og Birgir Sævar Jóhannsson, f. 17. janúar 1962, fyrrverandi forstjóri.

Bræður Tinnu Hrundar eru Jóhann Leó, f. 20. nóvember 1986, grafískur hönnuður, unnusta Nike Holberg markaðsfræðingur, og Nikulás Búi, f. 8. febrúar 1995, viðskiptafræðingur, í sambúð með Iðunni Hafsteinsdóttur fjármálaverkfræðingi.

Þann 9. ágúst 2008 giftist Tinna Hrund eftirlifandi eiginmanni sínum, Inga Birni Sigurðssyni framkvæmdastjóra, f. 3 mars 1978. Foreldrar hans eru Kolbrún Björnsdóttir, f. 4.3. 1960, og Gunnar Már Þórðarson, f. 18.2. 1957. Börn þeirra eru: 1) Maríanna Mist nemi, f. 6. apríl 2004. 2) Elías Óli, f. 10. febrúar 2009. 3) Birgir Már, f. 20. febrúar 2012. 4) Kolbrún Linda, f. 9. apríl 2019.

Tinna Hrund bjó í Reykjavík fyrstu æviárin þar til fjölskyldan fluttist til Skotlands árið 1987 og bjó þar í eitt ár. Eftir nokkurra ára stopp á Íslandi fluttist fjölskyldan til Frakklands árið 1992 og bjó í Royan, þar sem faðir hennar starfaði á vegum SÍF. Árið 1998 fluttist síðan fjölskyldan til borgarinnar Boulogne S/Mer í Frakklandi og hélt þar heimili til 2010. Tinna Hrund fluttist til Íslands árið 2003 til að hefja háskólanám.

Árin 2000-2001 fór Tinna Hrund til Argentínu sem skiptinemi. Í Argentínu eignaðist Tinna yndislega fjölskyldu sem hún hefur alltaf haldið sambandi við.

Tinna útskrifaðist úr Saint Joseph de Tivoli College St Joseph í Bordeaux í Frakklandi árið 2003 með stúdentspróf. Eftir námið fluttist hún til Íslands til að hefja háskólanám í mannfræði við Háskóla Íslands. Hún bætti síðan frönsku við sem aukafagi og útskrifaðist með BA-próf. Á námstímanum fór hún einnig í skiptinám, til Aþenu í Grikklandi. Tinna nam alþjóðleg viðskipti við Háskólann í Reykjavík og lauk því námi árið 2011 með meistaragráðu.

Á námstímanum og eftir námið starfaði Tinna Hrund við fjölskyldufyrirtækið, Ópal Sjávarfang ehf. við sölu- og markaðsstörf. Árið 2016 fór Tinna að vinna við markaðssetningu á nýjungum og afurðum Reykjavik Foods, þar til 2018. Tinna var meðstofnandi Mood of Iceland en fyrirtækið starfaði frá 2019 til 2021. Tinna fór að vinna hjá Íslandsstofu árið 2021 sem verkefnastjóri. Þar starfaði hún eins lengi og heilsa og orka leyfðu, Tinna fékk einstakan stuðning frá forráðamönnum Íslandsstofu í veikindunum.

Tinna Hrund var félagi í KIS (Félag kvenna í sjávarútvegi) frá upphafi og var í stjórn á árunum 2016 til 2018.

Tinna elskaði að ferðast með fjölskyldunni og þau ferðuðust mikið hér heima og erlendis. Jafnframt hafði Tinna mikinn áhuga á matargerð af öllum toga og tók til að mynda þátt í fyrstu og einu „Master Chef“-keppninni sem haldin var hér á landi, með ágætum árangri.

Útförin fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 3. apríl 2025, kl. 13.

Þó þung séu oft sporin á lífsins leið,

og ljósið svo skelfing lítið,

skaltu eiga þér von, sem þinn vin
í neyð,

það virkar, en virðist skrýtið.

Því vonin hún vinnur gegn myrkri
og kvíða,

og veitir þér styrk sinn, í stormi
og byl,

sjá ljósið mun stækka, og þess skammt er að bíða,

að sólskinið sjáir, ég veit það er til.

(SHL.)

Með mikilli sorg í hjarta kveðjum við yndislegu tengdadóttur okkar, Tinnu Hrund Birgisdóttur, sem lést eftir erfið veikindi.

Við kynntumst Tinnu þegar hún fór að venja komur sínar í Undraland til að hitta Inga Björn. Við vorum að vonum mjög forvitin að vita hver þessi unga kona var. En okkur varð fljótt ljóst að þarna var einstök kona á ferð, sterk, hjartahlý og umfram allt frábær manneskja. Það var yndislegt að fylgjast með unga parinu feta sig áfram í lífinu og sjá ást og kærleika þeirra vaxa. Það var unun að sjá hvernig samband Tinnu og Maríönnu þróaðist og finna hvað fjölskylda Tinnu tók vel á móti þeim feðginum. Það var gleðistund þegar þau giftust í Skálholtskirkju. Lífið blasti við þeim og litla fjölskyldan stækkaði, fyrst fæddist Elías Óli, síðan Birgir Már og loks Kolbrún Linda. Börnunum sínum bjuggu þau fallegt heimili.

Tinna kom með ferskan andblæ í fjölskylduna okkar. Hún kynnti okkur allskonar nýjungar, ekki síst í matargerð. Hún elskaði að elda og var alltaf til í prófa eitthvað nýtt og við nutum góðs af. Hún fann alltaf tækifæri til að gleðjast og halda veislur sem voru eftirminnilegar.

Henni þótti mikilvægt að halda í hefðir hvort sem það var þegar við fjölskyldan bökuðum saman piparkökur fyrir jólin eða fórum saman í réttir. Hún naut þess að koma í sveitina okkar, þar komst hún í snertingu við náttúruna og fylgdist með lífinu í sveitinni, hestunum, hænunum og fór í heita pottinn.

Hjónin nutu þess að ferðast með fjölskyldunni til útlanda enda hafði Tinna búið erlendis á sínum yngri árum. Einnig ferðuðust þau innanlands og fóru í útilegur með vinum sínum.

Börnunum sínum leiðbeindi hún og kenndi þeim góð gildi, umfram allt kurteisi og virðingu. Einnig vildi hún að þau vissu að það væri mikið af góðu fólki í kringum þau. Tinna hafði hæfileika til að laða að sér frábært fólk sem stóð þétt við bakið á fjölskyldunni í veikindunum. Þá komu mannkostir og baráttuvilji Tinnu í ljós, uppgjöf var ekki til í hennar orðabók. Með jákvæðni, hugrekki og ekki síst von tókust þau Ingi Björn á við hvern dag. Traustið og kærleikurinn á milli þeirra var aðdáunarverður.

Elsku Ingi Björn, Maríanna Mist, Elías Óli, Birgir Már, Kolbrún Linda, foreldrar Tinnu og bræður, sorg ykkar og missir er mikill, orð mega sín lítils á svona stundu. Megi sól vorsins lýsa inn í hjörtu ykkar, veita ykkur von og huggun. Við þökkum elsku hjartans Tinnu fyrir samfylgdina, alla þá ást og umhyggju sem hún sýndi okkur.

Kolbrún og Gunnar Már.

Elsku hjartans Tinna okkar.

Fyrsta barnabarnið okkar, hún Tinna, kvaddi okkur 20. mars eftir erfið og langvarandi veikindi af völdum krabbameins.

Okkur koma margar hlýjar minningar í hug, sérstaklega þegar þessi litla fallega stúlka kom fyrst til okkar í Stykkishólm, aðeins þriggja vikna gömul – dökkhærð, falleg og kraftmikil. Hún heimsótti okkur oft og lýsti alltaf upp heimilið með nærveru sinni. Við afi sáum snemma að hér var á ferð ákveðin og drífandi manneskja sem lét ekkert stöðva sig.

Hún bjó um tíma í Skotlandi þar sem hún hóf skólagöngu og lærði ensku. Síðar flutti fjölskyldan til Íslands, þar sem hún naut samvista við ættingja og vini. Að því loknu lá leiðin til Frakklands, þar sem hún dvaldi í fimmtán ár og varð reiprennandi í frönsku. Hún var einnig skiptinemi í Argentínu í heilt ár og bætti þar við sig spænsku.

Tinna hafði yndi af því að ferðast og kynnast nýju fólki og menningu. Hún var víðsýn og fróðleiksfús, og sótti sér reynslu af heiminum með opnum huga.

Þegar hún sneri aftur til Íslands giftist hún Inga Birni. Hann átti fyrir yndislega dóttur, Maríönnu, sem Tinna tók með kærleika í móðurstað. Saman eignuðust þau tvo drengi, Elías Óla og Birgi Már, og svo síðar litlu Kolbrúnu Lindu. Hún elskaði fjölskylduna sína heitt og sýndi henni daglega hlýju og umhyggju.

Við afi eigum ómetanlegar minningar um morgunstundir yfir kaffi og spjalli – samverustundir þar sem við ræddum um lífið og tilveruna, og hlógum saman.

Þegar þessi erfiða sjúkdómsgreining kom fyrir einu og hálfu ári trúðum við, ásamt Tinnu, að bati væri í sjónmáli. Hún barðist af krafti, en það varð ekki að raun.

Enginn sem kynntist Tinnu gleymir henni.

Megi Guð blessa og varðveita þig, kæri Ingi Björn, og ykkar yndislegu börn – Maríönnu, Elías Óla, Birgi Már og Kolbrúnu Lindu.

Við minnumst hennar með þöglu þakklæti og ómældum kærleika.

Hinsta kveðja,

Svala og Jóhann.

Það er erfitt að setja í orð hvað manneskja getur skilið eftir sig í hjarta annars, en þegar ég hugsa um Tinnu, stóru frænku mína, þá fyllist ég hlýju og þakklæti. Þó níu ár hafi verið á milli okkar þá fann ég mig alltaf tengda henni.

Frænka mín var ákveðin, skemmtileg, víðsýn og einstaklega lífleg. Með dökka síða hárið sitt og dökk í yfirlitum, sem var í skemmtilegum andstæðum við mitt rauða hár og freknur. Þó við værum ólíkar í útliti og mörgu öðru þá langaði mig oft að vera eins og hún – hún hafði einhvern sérstakan glans yfir sér, eitthvað spennandi og litríkt sem ég dáðist alltaf að. Hún var mín fyrsta fyrirmynd.

Þegar hún bjó í Frakklandi og síðar í Argentínu sem skiptinemi, man ég alltaf hvað ég hlakkaði mikið til þegar hún kom heim til Íslands, mér fannst það alltaf stórviðburður. Við sendum hvor annarri bréf og nammi yfir hafið og sögurnar sem hún sagði mér frá ævintýrum sínum voru bæði spennandi og framandi. Það var eins og hún lifði lífi sem var fullt af tónum og tilfinningum – sem hún miðlaði örlátlega.

Mér eru minningar dýrmætar þar sem hún bauð mér í frænkukvöld í litlum íbúðum sínum í miðbænum, ég fann mig alltaf heppna að fá að eyða tíma með henni. Við leigðum spólur, gengum um götur Reykjavíkur þar sem Tinna sagði mér að í þessu hverfi þyrfti maður ekki að eiga bíl né vera með bílpróf. Hún fylgdi því sjálf enda tók hún ekki ökuprófið fyrr en 26 ára.

Hún var frábær kokkur og fór sínar eigin leiðir. Ég man hvað ég gapti yfir að hún gæti bara búið til sitt eigið majónes þegar ég sat sem límd og horfði á sjónvarpið, þegar að hún tók þátt í matreiðsluþættinum. Hún hvatti mig áfram að prufa nýjungar við matargerð og gaf mér iðulega uppskriftabækur í gjafir og þótti mér þær alltaf jafn framandi.

Tinna var einstök móðir, umhyggjusöm og hugsaði út fyrir kassann.

Eitt af því sem ég dáðist að er hversu fallegt og hjónaband hennar og Inga Björns var. Ást þeirra var sýnileg í litlum og stórum hlutum, hvernig þau hlógu saman, virðingin, samvinnan og vináttan.

Það er ólýsanlega sárt að missa elsku Tinnu svona snemma, þyngra en tárum taki. – En það sem hún gaf og það sem hún kenndi manni, ekki síst eftir að veikindin bönkuðu upp á, er vonin og góðmennskan. Minningin er ljós í lífi og hjarta mínu.

Góður guð varðveiti og styrki Inga Björn, Maríönnu, Elías Óla, Birgi Má, Kolbrúnu Lindu, Birgi, Lindu, Jóhann, Nikulás, ömmu, afa og okkur öll sem elskuðum Tinnu Hrund.

Þín litla frænka

Rakel Amlín Svansdóttir.

Það eru jafndægur að vori og brátt mun páskasólin skína og angan af vorinu fylla vit okkar, fuglar munu brátt syngja og blómin teygja anga sína á móti sólinni. Ég sest niður með tár á hvarmi og trega í hjarta til að setja nokkrar línur á blað um vinkonu mína Tinnu Hrund Birgisdóttur sem var kölluð á vit æðri máttarvalda allt of fljótt og aftur spyr maður sig spurninga og fær ekki svör. Hún fékk stórt verkefni í fangið í september 2023 og af æðruleysi og mikilli baráttu tókst hún á við það, gerði ýmislegt til að sigra sem því miður tókst ekki. Aftur hefur myndast stórt skarð í fjölskyldunni okkar, ofarlega er mér í huga þegar frændi minn Ingi Björn kynnti Tinnu Hrund sína fyrir okkur. Hún var mikill gleðigjafi, stór persónuleiki, fallega brosið hennar og hlýja heilluðu okkur. Tinna og Ingi Björn voru samhent hjón, gerðu allt saman og voru miklir vinir. Síðustu ár hafa þau búið í Hafnarfirði, á Hólabrautinni bjó hún fjölskyldunni fallegt heimili sem stóð öllum opið, vinkonum og vinum. Hún tók Maríönnu Mist í fangið á unga að aldri og gekk henni í móðurstað. Elías Óli, Birgir Már og Kolbrún Linda bættust svo í hópinn. Móðurhjartað var stórt, hún umvafði þau ást og umhyggju, leiðbeindi þeim í leik og starfi fyrir framtíðina. FH-drengjunum sínum fylgdu þau vel eftir. Fótboltamót úti á landi þýddu kannski útilegu sem þau nutu og kynntust um leið öðrum foreldrum, tengslin leiddu til enn meiri vináttu. Við Óli erum þakklát henni fyrir að fá að taka þátt í öllum afmælum barnanna þeirra. Við vorum stödd í einu slíku fyrir fjórum vikum, þar átti ég einmitt gott spjall við Tinnu, ekki grunaði mig að þetta væri hinsta faðmlagið og okkar síðasta samtal, það er dýrmætt að geyma það í hjarta sínu.

Sælureitur Kolbrúnar og Gunnars, Votamýri, heillaði og þangað var oft farið til styttri eða lengri dvalar í sveitinni, börnin frjáls, kyrrðin og fegurðin allsráðandi. Votamýri var líka miðdepill Skálholtsfjölskyldunnar, þar hittumst við eina helgi að sumri í útilegu. Þessa helgi fengu allir að njóta sín, ungir sem gamlir. Nú síðast starfaði hún sem verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, það var krefjandi starf sem kallaði á ferðir erlendis og þarna nýttist tungumálakunnátta hennar vel.

Við fjölskyldan frá Skálholti biðjum góðan Guð að láta birtuna af minningum hennar lýsa í hjörtu sorgmæddrar fjölskyldu. Megi fallegi sálmurinn hans Sveinbjörns Egilssonar gefa ykkur styrk:

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Elsku Ingi Björn, Maríanna Mist, Elías Óli, Birgir Már, Kolbrún Linda, Linda, Birgir, Kolbrún, Gunnar og fjölskyldur, við vottum ykkur innilaga samúð og kveðjum Tinnu Hrund Birgisdóttir með virðingu og þökk.

Minningin lifir um hetjuna okkar allra.

Kristín Björnsdóttir.

Tignarlegt ástand hugans.

Það er ekkert sem stendur í vegi hér, með breiðan veg og gylltan handa þér.

Þú, alls staðar í endurspeglun glitsins, þinn bjarti blossi í
ljósbrotum tára

og minninga sem liðast um
krókaleiðir hugans.

Alltaf hér.

Því ekkert stendur í vegi fyrir þér.

(Helga Rán)

Það er ekkert eins og að missa sína nánustu konu.

Vita að með henni hyljast tengingar og gömul fliss sem eru svo samtvinnuð manni að engin kann að hlæja að þeim, nema hún. Og mikið sem við hlógum.

Við höfum nefnilega alltaf átt hvor aðra, og skarðið sem nú situr eftir get ég aðeins fyllt með minningum og góðum ráðum. Og þótt það sé af nógu að taka eftir okkar samfylgd þá harma ég og sakna þess sem við munum ekki ná að fara saman.

En þú hafðir farið víða og ávallt verið óhrædd við að leggja þig fram í forvitnilegri viðleitni til að sækja draumana þína og hugmyndir, með ósérhlífni og sjálfstæði að leiðarljósi. Ferðalögin spanna ung ár í Skotlandi, sæt og prúð í skólabúningi. Unglingsár í Frakklandi, flakkandi um í ævintýrum með Veru á „scooter“. Ung snót í argentískum tangó, umvafin þinni góðu aupair-fjölskyldu þar, og svo komstu heim og elskaðir íslenska sumarnótt og Nínu, sem strýkur okkur um vangann. Skaust smá til Grikklands en vissir að ástin fyndist heima, og hana fannstu svo stóra og góða í elsku Inga Birni. Og saman stiguð þið taktföst spor í að byggja ykkar víðu og breiðu veröld, með kæra vini um allan heim.

Þú naust þinnar frönsku tungu og beittir við fjölbreytt störf. Ég man þegar ég stóð eitt sinn með þér á frönskum fiskmarkaði og dáðist að þér vera að víla og díla við franska karla, og hvað þér fannst gaman að hafa unnið að heimsókn þáverandi forseta, Guðna Th., til Kanada og geta státað þig af frönskunni þinni þar.

Það var alltaf bjart og hlýtt með þér elsku frænka mín, og þrátt fyrir þín ferðalög þá stigum við saman gegnum lífsins tímabil. Allt frá því að læra að reima skó, græða tánings hjartasár, vera í þínu liði í spennandi nýsköpunarverkefnum, verða guðmóður dóttur þinnar og nú að halla höfði hvor að annarri á lífsins ósanngjörnu stundum. Það að eiga þig að í sama takti er lífs míns gæfa og að geta leitað í öll þín jákvæðu samtöl mun ég gera um ókomna tíð.

En nú þarf ég að sakna þín á hverjum degi. Nú þarf ég að bíða svaka lengi þar til við hittumst í ljósinu.

En þannig kvaddir þú mig: Sjáumst í ljósinu. Og við munum sjást þar, því allt sem þú hefur komið nærri gefur ljós. Fallegu börnin þín svo miklir ljósberar og þinn trausti maður sannur ljósvíkingur. Og ég mun sjá þau og þá þig, og ég mun segja þeim frá ljósbrotunum okkar sem fyllt hafa ævina kæti og dýrmætum minningum. Og ljósið í minningu þinni verður það skærasta sem við þekkjum og hlýja þín mun ávallt fylgja okkur.

Allt fram streymir endalaust

ár og dagar líða.

Nú er komið hrímkalt haust

horfin sumars blíða.

(Kristján Jónsson Fjallaskáld)

Fljótið liggur nú lygnt og kyrrt við þreytta fætur, tilbúið að fleyta þér áfram til góðra verka.

Sé þig í ljósinu.

Þín frænka,

Helga Rán Sigurðardóttir.

Tinna okkar, hún kom til Íslandsstofu svo full af orku, gleði og sérstakri reynslu. Bakgrunnurinn hennar var óvenjulegur og afar mikils virði fyrir okkur samstarfsfólk hennar. Tinna ólst upp í Frakklandi og var því franskan hennar annað móðurmál. Búseta fjölskyldu hennar í Frakklandi tengdist vinnu við útflutning á íslenskum sjávarafurðum. Þannig kynntist Tinna því ung hversu mikilvæg grein sjávarútvegurinn er okkur Íslendingum og hversu vel franska sælkeraþjóðin kann að meta sjávarfangið okkar. Það var því ekki tilviljun að sjávarútvegurinn varð um tíma starfsvettvangur Tinnu, bæði í fyrirtæki foreldra sinna sem og hjá Íslandsstofu þar til hún veiktist. Þá sat Tinna einnig í stjórn Félags kvenna í sjávarútvegi og gaf þar mikið af sér.

Við sem unnum náið með Tinnu, bæði á skrifstofunni og á ferðalögum úti á mörkuðunum, áttuðum okkur fljótt á því hversu skörp, úrræðagóð, dugleg og jákvæð hún Tinna var. Í vinnuferðum þar sem vinnudagarnir geta verið æði langir og strangir er gott að hafa gleðina og húmorinn með í farteskinu en það voru eiginleikar sem einkenndu Tinnu svo vel. Hún var ósérhlífin og afar fljót að koma auga á lausnir við hinum ýmsu verkefnum sem gjarnan koma upp í slíkum ferðum. Á sama tíma var hugurinn hennar heima hjá fjölskyldunni og það var gaman og gleðilegt að upplifa tilhlökkunina hjá henni við að koma heim til barnanna sinna og hans Inga Björns eftir langar flugferðir. Tinna var afar stolt af börnunum sínum og naut þess svo mjög að vera mamma. Svo átti hún líka fjölskyldu í Argentínu, sem henni þótti mjög vænt um, en Tinna fór ung sem skiptinemi til Argentínu og bætti þá spænsku við þau tungumál sem hún talaði fyrir.

Að gefa af sér virtist Tinnu í blóð borið, bæði gagnvart fjölskyldunni sinni sem og okkur samstarfsfólkinu. Við minnumst þess þegar Tinna kom á skrifstofuna með þá bestu hindberjaköku sem við höfum smakkað, tilefnið var fertugsafmælið hennar. Þar sveif franskur sælkerablær yfir vötnum sem Tinna toppaði svo með smitandi glaðværð sinni. Við samstarfsfólkið söknum hennar Tinnu mikið en erum í leiðinni full þakklætis yfir að hafa átt hana að sem samstarfskonu og vinkonu. Fjölskyldu Tinnu sendum við okkar dýpstu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Tinnu.

Fyrir hönd starfsfólks Íslandsstofu,

Sigríður
Ragnarsdóttir.

hinsta kveðja

Þú kenndir mér að hlæja,

að finna sól í skýjum.

Þó þú sért nú horfin,

ert þú enn í draumum mínum.

Ég sakna þín í leik og hlátri,

í litlum hlutum dagsins.

En í hjarta mínu geymi
ég þig –

eins og fallegustu stjörnuna á himni nætur.

Takk fyrir allt, elsku Tinna Hrund.

Þín litla frænka,

Hanna Rún
Svansdóttir.