Stórstjarna Val Kilmer lék í fjölda kvikmynda á löngum ferli.
Stórstjarna Val Kilmer lék í fjölda kvikmynda á löngum ferli. — AFP/Jason Merritt
Bandaríski Hollywoodleikarinn Val Kilmer er látinn, 65 ára að aldri. AFP greinir frá og segir Mercedes dóttur leikarans hafa greint frá því í samtali við The New York Times að dánarorsök föður hennar hafi verið lungnabólga

Bandaríski Hollywoodleikarinn Val Kilmer er látinn, 65 ára að aldri. AFP greinir frá og segir Mercedes dóttur leikarans hafa greint frá því í samtali við The New York Times að dánarorsök föður hennar hafi verið lungnabólga. Kilmer greindist með krabbamein í hálsi árið 2014 og sigraðist á því en hefur síðustu ár glímt við lungnabólgu. Þá gekkst hann undir lyfja- og barkaaðgerð sem hafði áhrif á rödd hans.

Kilmer var afkastamikill leikari og spannaði ferill hans marga áratugi. Hann varð fyrst frægur fyrir hlutverk sitt í myndinni Top Gun árið 1986 þar sem hann lék Iceman á móti Tom Cruise og fór einnig eftirminnilega með hlutverk Jims Morrison í kvikmynd Olivers Stone, The Doors, árið 1991. Árið 1995 lék hann svo sjálfan Leðurblökumanninn í myndinni Batman Forever á móti Jim Carrey og Tommy Lee Jones. Kilmer lætur eftir sig tvö börn en auk dóttur sinnar átti hann soninn Jack.