Karlakórinn Heimir í Skagafirði leggur land undir fót suður yfir heiðar um helgina. Tónleikar verða í Tónbergi á Akranesi á föstudagskvöldið kl. 20 og daginn eftir í Langholtskirkju í Reykjavík kl. 16.
Um er að ræða vortónleikaröð Heimismanna, þar sem flutt er fjölbreytt úrval innlendra og erlendra sönglaga. Um þar síðustu helgi var kórinn á Austurlandi, með tónleika í Eskifjarðarkirkju og Egilsstaðakirkju laugardaginn 22. mars. Stjórnandi Heimis er Jón Þorsteinn Reynisson og meðleikari Alexander Smári Edelstein. Jón Þorsteinn tekur einnig í harmonikkuna á tónleikunum. Einsöng syngja þeir Árni Geir Sigurbjörnsson, Guðmundur Ásgeirsson og Snorri Snorrason.
Miðasala á tónleikana í Tónbergi á Skaganum fer fram við innganginn, líkt og í Langholtskirkju nema hvað þar er jafnframt hægt að kaupa miða á tix.is.
Karlakórinn verður að vanda með tónleika á Sæluviku Skagfirðinga í vor en í sumar er stefnan tekin á tónleika- og menningarferð til suðurhéraða Englands.