Skokk Gott fyrir líkama og sál.
Skokk Gott fyrir líkama og sál. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tryggja skal að ákvarðanir stjórnvalda byggist á vandaðri og heildstæðri greiningu á heilsufarslegum áhrifum þeirra. Því ætti að skoða stjórnarfrumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi með tilliti til þess hvaða áhrif efni þeirra og inntak hefur á lýðheilsu

Tryggja skal að ákvarðanir stjórnvalda byggist á vandaðri og heildstæðri greiningu á heilsufarslegum áhrifum þeirra. Því ætti að skoða stjórnarfrumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi með tilliti til þess hvaða áhrif efni þeirra og inntak hefur á lýðheilsu. Þetta er inntak tillögu til þingsályktunar sem Jóhann Friðrik Friðriksson úr Framsóknarflokki hefur nú lagt fram á Alþingi.

Í tillögunni segir að skipa eigi sérfræðihóp fulltrúa frá fagráðuneytum, fræðasamfélagi, sveitarfélögum og embætti landlæknis til að slíkt mat á heilsufarslegum áhrifum stjórnarfrumvarpa verði gert.

Jóhann Friðrik hefur áður lagt tillögu þessa efnis fram á þingi og segir í greinargerð nú að umsagnir á sínum tíma hafi undirstrikað mikilvægi lýðheilsumats í íslenskri löggjöf. Þá megi taka fram að aldurssamsetning þjóðarinnar sé að breytast og eldra fólki að fjölga. Færri verði á vinnumarkaði fyrir hvern og einn sem er 65 ára og eldri. Samhliða þessu aukist sú byrði sem hlýst af langvinnum sjúkdómum og ýmsar áskoranir eru uppi meðal annars vegna loftslagsbreytinga.

„Ef ekki verður brugðist við með markvissum hætti er ljóst að kostnaður og þjónustuþörf í heilbrigðiskerfinu og öðrum kerfum mun aukast verulega. Það veldur verulega neikvæðum áhrifum á samfélagið í heild. Flutningsmaður telur því mikilvægt að innleiða lýðheilsumat til að bregðast við,“ segir í greinargerð. sbs@mbl.is