Tveir karlmenn voru handteknir hér á landi vegna tengsla við vefsvæði sem notað var fyrir myndefni af kynferðislegri misnotkun barna. Um er að ræða íslenska ríkisborgara. Að sögn Bylgju Hrannar Baldursdóttur, aðstoðaryfirlögregluþjóns á kynferðisbrotasviði lögreglunnar, var gerð húsleit á heimilum mannanna og lagt hald á muni. Fleiri liggja ekki undir grun í þessu tiltekna máli. Greint var frá því í gær að lögreglan í Bæjaralandi hefði náð að leysa upp vefsvæðið, sem finna mátti á hinum svokallaða myrkravef, en um alþjóðlega aðgerð var að ræða sem náði til 38 landa. Rannsóknin var sú umfangsmesta sem hefur nokkurn tímann verið framkvæmd undir forystu Europol gegn vefsvæði af þessu tagi.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að nálægt tvær milljónir notenda höfðu skráð sig inn á vefsvæðið undanfarin þrjú ár.
Var þar að finna um 72 þúsund myndbönd þegar lögregla lét til skarar skríða og leysti upp svæðið.
Þá kemur fram á heimasíðu Europol að 79 manns hafa verið handteknir vegna tengsla við vefsvæðið og kennsl verið borin á 1.393 aðra sem liggja undir grun. Einnig hefur verið lagt hald á yfir 3.000 raftæki.