Kiljur Lesmálið í miklu úrvali.
Kiljur Lesmálið í miklu úrvali. — Morgunblaðið/Eggert
Kröftug, metnaðarfull og skapandi ritmenning og fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treystir stöðu íslenskrar tungu og lýðræðis. Þetta er megininntak bókmenntastefnu stjórnvalda fyrir árin 2025-2030 sem liggur fyrir Alþingi sem tillaga til þingályktunar frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra

Kröftug, metnaðarfull og skapandi ritmenning og fjölbreytt útgáfustarfsemi sem treystir stöðu íslenskrar tungu og lýðræðis. Þetta er megininntak bókmenntastefnu stjórnvalda fyrir árin 2025-2030 sem liggur fyrir Alþingi sem tillaga til þingályktunar frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Starfsumhverfi rit- og myndhöfunda á Íslandi verði hvetjandi og stuðlað verði að framgangi íslenskra bókmennta á innlendum og erlendum vettvangi, segir í ályktuninni. Fólk á öllum aldri hafi greiðan aðgang að margvíslegu lesefni og lestur verði sjálfsagður hluti af daglegu lífi þar sem aukið læsi stuðli að bættum skilningi á samfélagslegum málefnum, málfrelsi og gagnrýninni hugsun.

Bókmenntastefna 2025-2030 hverfist um þrjú meginmarkmið, segir í greinargerð. Hið fyrsta er að stuðlað verði að sköpun á íslensku, útgáfu og aðgengi að fjölbreyttu efni á íslensku og treysta með því stöðu tungunnar í samfélaginu. Að stuðlað verði að auknum og bættum lestri sem víðast í samfélaginu, með sérstakri áherslu á unga lesendur. Einnig að tryggður stuðningur við sköpun og útgáfustarfsemi sé skilvirkur og taki mið af örri tækniþróun og samfélagsbreytingum á hverjum tíma.

Eitt af því sem tiltekið er í stefnunni er að mótuð verði opinber stefna um skólasöfn á öllum skólastigum og samstarf þeirra við almenningsbókasöfn skilgreint. Kannaðir verði kostir þess að starfrækja sérstaka skólasafnamiðstöð sem hafi það hlutverk að veita skólasöfnum um allt land þjónustu og faglegan stuðning. Við þetta atriði lýsir Rithöfundasamband Íslands einlægum stuðningi. Skólabókasöfn á Íslandi séu allt frá því að vera stórkostlegar menningarstofnanir niður í fátæklega bókahillu sem enginn sinnir. Í þessu felist gríðarleg misskipting er kemur að tækifærum barna til náms og lestrar. sbs@mbl.is