Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Svo virðist sem hreyfing sé að komast málefni skiptistöðvar Strætó í Mjódd.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur nýlega voru fluttar tvær tillögur um málið. Meirihlutaflokkarnir fluttu tillögu þess efnis að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að koma með tillögur að útfærslu umbóta. Var hún samþykkt. Þá fluttu sjálfstæðismenn tillögu í sama anda en afgreiðslu hennar var frestað.
Á næsta fundi, 19. mars, var tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins lögð fram að nýju. Samþykkti ráðið að vísa tillögunni í vinnu við úrbætur á biðstöðinni í Mjódd, samanber samþykkt tillögu meirihlutans á fyrri fundinum.
Viðbrögð fulltrúa fulltrúa Sjálfstæðisflokksins voru að leggja fram svohljóðandi bókun:
„Allt frá árinu 2016 hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins barist fyrir úrbótum á skiptistöðinni í Mjódd í því skyni að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega. Þær tillögur hafa ýmist verið felldar eða svæfðar af hinum ýmsu vinstri meirihlutum í borgarstjórn. Óþarfi er að vísa fyrirliggjandi tillögu um Mjódd til enn einnar skoðunar í rangölum borgarkerfisins enda hefur lengi legið fyrir hvað gera þurfi í málefnum skiptistöðvarinnar.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að nú verði verkin látin tala í stað áralangs skeytingarleysis.“
Leggja þeir til fernt: 1. Kvöldopnun. Biðsalurinn verði opinn farþegum á kvöldin á meðan strætisvagnar ganga. 2. Auka þarf gæslu í biðsal, lagfæra salerni og koma salernisþrifum í lag. 3. Bæta þarf og lagfæra húsgögn í biðsal og gera salinn hlýlegri, t.d. með uppsetningu listaverka. 4. Ráðast verður í viðhald og lagfæringar á brautum, köntum og gangstéttum á skiptistöðinni með sérstakri áherslu á þá staði þar sem farþegar stíga í eða úr strætisvögnum.
Fram kemur í tillögu sjálfstæðismanna að um fjórar milljónir farþega fari árlega um stöðina í Mjódd og því sé um að ræða fjölförnustu umferðarmiðstöð landsins.