Endurfundir Helga Ólafs ásamt kettinum Emil, sem kominn er til síns heima eftir sjö ára fjarveru.
Endurfundir Helga Ólafs ásamt kettinum Emil, sem kominn er til síns heima eftir sjö ára fjarveru. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Helga Ólafs og hennar fólk endurheimtu köttinn sinn Emil á dögunum. Ein og sér væri slík staðreynd líklega ekki efni í fjölmiðlaumfjöllun en heimkoma Emils er allsérstök því hann var á bak og burt í sjö ár

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Helga Ólafs og hennar fólk endurheimtu köttinn sinn Emil á dögunum. Ein og sér væri slík staðreynd líklega ekki efni í fjölmiðlaumfjöllun en heimkoma Emils er allsérstök því hann var á bak og burt í sjö ár.

Helga býr í Mosfellsbæ og segir Emil hafa horfið vorið 2018 en á þeim tíma hafi verið nokkuð um að heimiliskettir á svæðinu hyrfu. Sá orðrómur gekk að kisurnar væru teknar ófrjálsri hendi og keyrðar í Kjósina sem dæmi. Einnig var fjallað um þetta í fjölmiðlum. „Það er ofsalega grimmt og ljótt að taka heimilisketti og fara með þá í umhverfi sem þeir þekkja ekki,“ segir Helga.

Segist hún hafa leitað kattarins vandlega, og auglýst eftir honum reglulega, en Emil var þá um það bil tveggja ára. „Manni þykir vænt um kisuna sína og þess vegna er erfitt þegar hún hverfur og maður veit ekkert hvað varð um hana. Ég vonaðist til þess að Emil væri á lífi. Ég lifði í voninni í fimm ár eða svo en eftir það dvínaði vonin hægt og rólega.“

Mikilvægt að örmerkja

Helga vissi vart hvaðan á sig stóð veðrið þegar hún fékk símhringingu á dögunum varðandi köttinn. „Ég hafði syrgt þennan kött í mörg ár. Allt í einu fæ ég símhringingu frá dýralækni sem segir mér að Emil sé á lífi. Ég hef varla tyllt niður tánum síðan,“ segir Helga og leggur áherslu á mikilvægi þess að örmerkja heimilisketti. Eru þeir þá eyrnamerktir og upplýsingar um umönnunaraðila fylgja með. Fyrir vikið gat dýralæknirinn haft samband við Helgu, vitandi að þar hefði kötturinn átt heimili.

„Ég fékk Emil í hendurnar á ný á fimmtudaginn en hann hafði verið heppinn því hann hafði dvalið hjá yndislegu fólki sem tók hann að sér og annaðist hann vel. Það var líkt og Emil hefði aldrei farið og hefur sofið upp í hjá okkur hjónum síðan hann kom heim,“ segir Helga og hlær.

Emil hafði verið að slæpast nærri sumarbústað sem fólkið átti í Eilífsdal í Kjós. Fóru þau að gefa honum mat og að tveimur árum liðnum varð hann heimilisköttur hjá þeim. Þegar dóttir þeirra fór með köttinn til dýralæknis nýlega kom í ljós hvar hann átti rætur vegna örmerkingarinnar.

Unir sér vel

Fleiri kettir eru á heimilinu en Helga segir Emil ekki láta það slá sig út af laginu. Hann hagi sér eins og hann hafi aldrei farið frá þeim.

„Það hefur verið nokkuð til umfjöllunar að heimiliskettir hverfi. Þessi saga endaði vel og ég hvet fólk til að örmerkja kisurnar sínar. Það er einnig fallegt hversu vel kattasamfélagið stendur saman. Það leggjast allir á eitt við að leita þegar á þarf að halda,“ segir Helga Ólafs.

Höf.: Kristján Jónsson