Opnað hefur verið fyrir umsóknir Reykvíkinga um matjurtagarða.
Um 600 matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar, þar af eru tæplega 200 í Skammadal. Matjurtagarðarnir eru í boði í Vesturbæ, Fossvogi, Laugardal, Árbæ, Grafarvogi og Kjalarnesi. Garðarnir verða opnaðir 1. maí.
Morgunblaðið fékk þær upplýsingar hjá Reykjavíkurborg að í fyrra hefðu verið leigðir út rúmlega 500 garðar. Sum svæði seldust upp en helst var hægt að fá lausa garða í Skammadal.
Fram kemur á heimasíðu Reykjavíkurborgar að vatn verði aðgengilegt á öllum svæðum. Garðáhöld, plöntur og útsæði fylgja ekki með görðunum. Fyrir byrjendur má geta þess að algengast er að fólk rækti kartöflur og alls konar kál og rófur. Einnig sé gott að hafa í huga að hægt er að nálgast forræktað grænmeti í allflestum gróðrarstöðvum.
Leigugjöld ársins 2025 eru 7.500 krónur fyrir garðland í Skammadal (um 100 fermetrar) og 6.200 krónur fyrir garð (um 20 fermetrar). Kassar í Grafarvogi, Árbæ, Fossvogi og Kjalarnesi verða á 5.000 krónur kassinn (8 fermetrar). Umsóknir sendist á netfangið matjurtagardar@reykjavik.is. sisi@mbl.is