Málþing He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, fyrir miðju, ásamt ræðumönnum á hringborðinu sem fram fór í hátíðasal kínverska sendiráðsins.
Málþing He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, fyrir miðju, ásamt ræðumönnum á hringborðinu sem fram fór í hátíðasal kínverska sendiráðsins. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugur var í mönnum á viðskiptaþingi sem kínverska sendiráðið efndi til í fyrradag. Meðal annars eru gerðar miklar væntingar til beins flugs milli Íslands og Kína. He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, stýrði hringborðsumræðum, en hann hefur í…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hugur var í mönnum á viðskiptaþingi sem kínverska sendiráðið efndi til í fyrradag. Meðal annars eru gerðar miklar væntingar til beins flugs milli Íslands og Kína.

He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, stýrði hringborðsumræðum, en hann hefur í sendiherratíð sinni lagt mikla áherslu á að auka viðskipti ríkjanna og fylgja þannig eftir fríverslunarsamningnum frá 2013, þeim fyrsta sem Kína gerði við ríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Viðskipti ríkjanna hefðu aukist ár frá ári og numið 1,2 milljörðum dala í fyrra sem hafi gert Kína að fjórða helsta viðskiptaríki Íslands.

Hlutur í heimsvextinum 30%

Sendiherrann lýsti í ávarpi sínu hagþróun í Kína og hrakti sem fyrr hrakspár um kínverska hagkerfið. Tekist hefði að ná fram stöðugum vexti og hefði hagkerfið vaxið um 5% í fyrra og framlag Kína til heimsvaxtarins verið um 30%. Samkvæmt áætlun Alþjóðastofnunar um endurnýjanlega orku (IRENA) hefði hlutur Kína í nýrri uppsettri endurnýjanlegri orku í heiminum numið 64% í fyrra. Af því leiddi að gríðarleg tækifæri væru í samstarfi Kína og Íslands í endurnýjanlegri orku.

Þá vakti sendiherrann meðal annars athygli á því að Kína væri nú orðið mesta útflutningsríki bíla í heiminum og þar með komið vel fram úr Japan og Þýskalandi. Jafnframt sagði hann frá því að nýjar iðngreinar, til að mynda gervigreind og kvikmyndagerð, væru að skila sífellt meiri tekjum. Um það vitnuðu miklar vinsældir teiknimyndarinnar Ne Zha 2 (2025), sem væri þegar orðin fimmta tekjuhæsta kvikmynd sögunnar.

Yang Jing og Dai Ke, starfsmenn kínverska sendiráðsins á Íslandi, tóku einnig þátt í umræðunum, sem fjölmargir aðrir fulltrúar sendiráðsins fylgdust með.

Vanvirða alþjóðalög

Jónína Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, sagði marga Vesturlandabúa hafa gert sér ranga mynd af Kína. Það stafaði að hluta af áróðri Bandaríkjastjórnar gegn Kína, en valdhafar í Washington vanvirtu nú alþjóðalög og viðskiptasamninga. Hún kvaðst tala frá hjartanu og lýsti yfir þeirri von sinni að fulltrúar íslenskrar utanríkisþjónustu myndu móta eigin skoðanir á grundvelli staðreynda.

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, setti aukin viðskipti Kínverja og Íslendinga í sögulegt samhengi. Hann vakti meðal annars athygli á því að fiskeldi væri vaxandi atvinnugrein á Íslandi en með beinu flugi frá Íslandi til Kína myndu skapast miklir möguleikar til sóknar í þeirrri grein.

Guðmundur Ólason, ráðgjafi stjórnarformanns Arctic Green Energy, lýsti samstarfi Arctic Green og Sinopec, eins stærsta fyrirtækis heims, við uppbyggingu hitaveitna í Kína sem milljónir Kínverja njóta í dag. Má rekja það samstarf til heimsóknar Jiang Zemin, þáverandi Kínaforseta, til Íslands árið 2002, en forsetinn hreifst af beislun jarðhitans á Íslandi.

Lyftistöng fyrir útflutning

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia, setti áform um beint flug milli Íslands og Kína í sögulegt samhengi, en Isavia hefði fylgst með Asíumarkaði frá 2017. Beina flugið myndi umbylta samskiptum Íslands og Kína og skapa mikil tækifæri í útflutningi á ferskvöru. Spáð væri miklum vexti í millilandaflugi frá Kína en nú þegar væru forsendur fyrir beinu flugi til Kína.

Kristjana María Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá Carbon Recycling International (CRI), sagði frá samstarfi fyrirtækisins við kínverska aðila, en kínverski fjárfestirinn Geely, sem smíðar meðal annars Volvo-bíla, kom inn í fyrirtækið 2015. Fyrsta verksmiðjan í Kína sem framleiðir eldsneyti með lágu kolefnisspori með aðferð CRI var gangsett 2022 og verksmiðja númer tvö ári síðar. Þriðja verksmiðjan, sem mun framleiða rafeldsneyti og verður sú stærsta í heiminum, verður gangsett í ár.

Kínversk einingahús

Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, sagði frá samstarfi við kínverskt fyrirtæki um uppsetningu einingahúsa á Íslandi. Nánar tiltekið lýsti hann því hvernig Aðaltorg hefði falið félaginu, sem heitir CIMC, að smíða fullbúnar og forsmíðaðar einingar, samkvæmt íslenskri byggingarreglugerð, fyrir Marriott Courtyard-hótelið við Aðaltorg, gegnt Keflavíkurflugvelli. Það hefði verið reist á aðeins 14 mánuðum, eða á helmingi styttri tíma en hefðbundnar byggingaraðferðir hefðu tekið. Með því hefðu sparast miklir fjármunir. Fram undan væri enn meiri uppbygging á svæðinu í samstarfi við kínverska félagið.

Anna Morris, eigandi verslunarinnar Mjúk Iceland á Laugavegi 23, átti ekki heimangengt en ávarpaði málþingið með myndskeiði. Lýsti hún hvílíkum árangri það hefði skilað fyrir verslunina að fá umfjöllun í kínverskum félagsmiðlum, en á það var bent á málþinginu að Kínverjar héldu í þá hefð á ferðalögum erlendis að kaupa góðar gjafir handa ástvinum sínum.

Mikil tækifæri í fluginu

Þorlákur Einarsson, sérfræðingur á skrifstofu alþjóðapólitískra málefna hjá utanríkisráðuneytinu, sem jafnframt hefur landaumsjón með Kína, og Ólöf Dögg Sigvaldadóttir, sérfræðingur á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, sátu í pallborði fyrir hönd utanríkisráðuneytisins. Sagði Þorlákur að mikil eftirvænting ríkti gagnvart beinu flugi milli Íslands og Kína enda myndi það skapa mikil tækifæri.

Jakob Frímann Magnússon, fyrrverandi alþingismaður og forystumaður í útflutningi íslenskrar tónlistar, tók síðastur til máls. Vakti hann athygli á miklum möguleikum í samstarfi á menningarsviðinu. Sigurganga Laufeyjar Línar, sem væri af íslenskum og kínverskum ættum, væri ágætt dæmi, en tónlist hennar væri nú meira streymt en tónlist Bítlanna. Þá hefði sendiherrann boðið Stuðmönnum til Kína á næsta ári, en þá verða 40 ár liðin frá því að sveitin gerði víðreist í Kína.

Mæltust illa fyrir

Hringborðið fór fram nokkrum dögum eftir að Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn sagði njósnir vera stundaðar á Íslandi, m.a. af hálfu Kína. Mæltust ummælin illa fyrir í kínversku utanríkisþjónustunni og voru þau tekin mjög alvarlega.

Höf.: Baldur Arnarson