Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Landsnet hefur gert margvíslegar ráðstafanir til að verja Suðurnesjalínu 1 ef hraunrennsli verður á svæðinu þar sem línan liggur.
Halldór Halldórsson öryggisstjóri Landsnets segir að fyrstu viðbrögð séu að leiða hraunið frá möstrunum með leiðivarnargörðum og rósettum.
„Það er búið að skilgreina efnistökusvæði sem næst línunni og semja við verktaka með stórvirkar vinnuvélar um að hægt sé með mjög stuttum fyrirvara að verja betur möstur sem kunna að vera í hættu. Þetta er fyrst og fremst plan í viðbragðsáætlun, hvar sé hægt að setja upp varnargarð og rósettuvarnir í kringum möstrin,“ segir Halldór en að hans sögn á Landsnet tíu neyðarmöstur ef ekki tekst að verja möstrin.
„Ef við skoðum svæðið sem nú er undir á Reykjanesskaga þá létum við hraunmæla það í gær og herma hvernig hraunið rynni í átt að línunni. Þá sjáum við að það eru 4-5 möstur sem eru í rennslislínunni ef gosið kæmi nákvæmlega upp þar sem óróinn er mestur við sprunguna lengst til norðurs. Ef til þess kemur eigum við þessi aukamöstur og það tæki okkur 7-10 daga að koma því í kring, eftir að óhætt verður að fara inn á svæðið.“
Viðbrögð ef línan slitnar
Halldór segir að ef línan slitnar kæmi til skerðinga á rafmagni til Suðurnesja.
Hvaðan kemur rafmagnið til Suðurnesja ef línan slitnar?
„Þá verður notast við Reykjanes- og Svartsengisvirkjanir og Reykjanesið keyrt í eyjarekstri. Með þessu móti verður hægt að tryggja rafmagn til íbúa og flestra fyrirtækja, og er flugvöllurinn þar með talinn.“
Möstrin verða hátt í landinu
Spurður hvenær Suðurnesjalína 2 verði tilbúin segir Halldór að gert sé ráð fyrir því að hún verði komin í rekstur í september eða október.
„Við höfum látið gera sérstakar hraunrennslismælingar og við vitum samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hvaðan hraunið kæmi ef það leitaði þarna upp á yfirborðið. Út frá þessum rennslisprófunum var Suðurnesjalína 2 hönnuð.“
Hann segir að við hönnun á Suðurnesjalínu 2 hafi verið tekið mið af því að allar staðsetningar á möstrum séu eins hátt í landinu og kostur er og í einhverjum tilfellum hafa verið settir sérstakir púðar undir möstrin til að hækka þau upp. Þessu til viðbótar sé búið að hanna leiði- og varnargarða og svokallaðar „rósettuvarnir“ utan um möstrin sjálf, sem hafa sannað sig við Svartsengi þegar hraunið rann þar.