„Í stuttu máli sagt eru hugmyndirnar í hinum framlögðu frumvarpsdrögum skilvirk leið til að gera Ísland fátækara og fábreyttara. Vandséð er hvernig það getur talist réttlætismál. Það mun að minnsta kosti ekki bæta hag almennings í…

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

„Í stuttu máli sagt eru hugmyndirnar í hinum framlögðu frumvarpsdrögum skilvirk leið til að gera Ísland fátækara og fábreyttara. Vandséð er hvernig það getur talist réttlætismál. Það mun að minnsta kosti ekki bæta hag almennings í landinu,“ segir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, í umsögn sinni um frumvarpsdrög ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalds.

„Veiðigjald er skattur á atvinnulíf sem er fyrst og fremst utan höfuðborgarsvæðisins. Það stuðlar því að veikara og fábreyttara atvinnulífi á landsbyggðinni,“ fullyrðir hann og segir ljóst að þeir sem fyrst og fremst hagnast á því að veiðigjöld verði hækkuð til muna séu samkeppnisaðilar Íslands á alþjóðlegum fiskmörkuðum.

Ragnar er ómyrkur í máli og segir þá umfangsmiklu hækkun sem lögð sé til í frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra að öllum líkindum veikja sjávarútveginn sem atvinnuveg, minnka útflutningsverðmæti sjávarafurða og lækka þannig tekjur þjóðarbúsins.

„Áhrifin á aðra atvinnuvegi eru einnig neikvæð. Þau munu að öðru jöfnu draga úr fjárfestingarvilja í landinu sem dregur úr hagvexti og lækkar þjóðartekjur framtíðarinnar enn frekar. Lækkun þjóðartekna rýrir lífskjör landsmanna. Þar með mun draga úr eftirspurn í hagkerfinu og aðrir atvinnuvegir þjóðarinnar veikjast enn meira. Þegar fram í sækir munu skatttekjur hins opinbera því minnka þrátt fyrir hækkuð veiðigjöld.“

Aðeins 1.705%

Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðum aflaverðmætis til grundvallar útreikningum á veiðigjaldi verði breytt. Gert er ráð fyrir að veiðigjald á þorsk og ýsu taki aðeins mið af fiskmarkaðsverði. Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að innheimtur hefði verið 13,1 milljarður króna vegna tegundanna á síðasta ári ef þessi viðmið hefðu verið í gildi þá, en það er rúmlega 75% hækkun frá þeim 7,5 milljörðum sem innheimtir voru.

Jafnframt er gert ráð fyrir að veiðigjald á norsk-íslenska síld, kolmunna og makríl taki mið af uppboðsverði á mörkuðum í Noregi. Í greinargerðinni er áætlað að á síðasta ári hefði ríkissjóður innheimt 1.705% meira í veiðigjöld vegna makrílveiða en raunin varð og munar um 2,7 milljarða króna.

Þá voru á síðasta ári greiddar 554 milljónir króna í veiðigjald vegna síldar en upphæðin hefði verið 174% hærri miðað við fyrirhugaðar breytingar ríkisstjórnarinnar. Veiðigjald af kolmunna hefði þó dregist saman um 9,5% og numið 929,5 milljónum króna.

Gagnrýnir vinnubrögð

Einboðið er að þær hækkanir á veiðigjaldi sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum séu af slíkri stærðargráðu að þær muni breyta með afdrifaríkum hætti rekstrarskilyrðum í sjávarútvegi, að sögn Ragnars.

Hann segir þó „engin merki [um] að höfundar draganna hafi nýtt sér eða yfirleitt tekið tillit til þeirrar miklu þekkingar sem til er um sjávarútveginn. Engu líkara en drögin hafi verið samin í samræmi við fyrirframgefna niðurstöðu án nokkurrar marktækrar viðleitni til að hafa það sem sannara reynist.

Þegar ríkistjórn í lýðræðisríki leggur fram tillögu um gjörbreytingu á rekstrarskilyrðum eins veigamesta atvinnuvegar landsmanna virðist það lágmarkskrafa að þjóðhagslegar afleiðingar slíkrar breytingar séu raktar eins ýtarlega og framast er unnt og kostnaður og ábati þjóðarinnar af framkvæmd hennar sómasamlega reiknaður. Þetta er ekki gert í þessum drögum. Í þeim er látið nægja að áætla tekjur ríkissjóðs af næstum tvöföldun veiðigjalds og reynt að halda því fram að sjávarútveginn muni ekkert um þennan viðbótarskatt. Enga raunverulega greiningu á þjóðhagslegum áhrifum veiðigjaldsins er þar að finna. Hvernig á þjóðin, sem á lífsafkomu sína undir því að atvinnuvegum hennar vegni vel, að geta tekið upplýsta afstöðu til svona tillögu nema afleiðingar hennar séu vandlega útskýrðar og rökstuddar?“

Skammsýni og skilningsleysi

Ragnar segir frumvarpsdrögin afhjúpa „einstaka skammsýni og skilningsleysi“ á íslenskum sjávarútvegi og á atvinnulífi almennt.

„Sú mikla hækkun á veiðigjaldi sem boðuð er í frumvarpsdrögunum er til þess fallin að lækka útflutningsverðmæti sjávarafurða, draga úr þjóðartekjum, rýra kaupmátt almennings og lækka skatttekjur hins opinbera er fram í sækir. Það er því furðulegt að þetta frumvarp komi úr ráðuneyti sem falið er að efla atvinnulíf á Íslandi og e.t.v. enn furðulegra að fjármálaráðuneytið þar sem ætla má að einhver hagfræðiskilningur sé til staðar skuli vera aðili að samningu þess.“

Hann bendir á að íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni á erlendri grundu við sjávarútveg annarra ríkja.

„Öfugt við það sem fullyrt er í frumvarpsdrögunum búa þessar þjóðir við fiskveiðistjórnarkerfi svipað því sem er hér á landi og í mörgum tilvikum sveigjanlegra og öruggara en það er hér á landi. Í engu þessara landa eru lögð sérstök veiðigjöld á sjávarútveg. Þvert á móti nýtur sjávarútvegur í mörgum þeirra (t.d. Noregi og löndum ESB) verulegra opinberra styrkja.“

Vekur Ragnar einnig athygli á því að framleiðsla eldisfisks af ýmsum toga eykst ár frá ári og sé því samkeppnin sífellt harðari á alþjóðlegum mörkuðum.

„Enginn vafi er á því að stóraukið framboð eldisfisks í heiminum hefur nú þegar þrýst heimsmarkaðsverði fiskafurða verulega niður á við. Jafnframt má ganga að því vísu að þessi þróun haldi áfram á komandi áratugum. Því er alveg ljóst að hefðbundinn sjávarútvegur, bæði Íslands og annarra þjóða, á við þungan mótstraum til langs tíma að etja. Við þessar aðstæður er í besta falli sérkennilegt að leggja enn auknar byrðar á íslenskan sjávarútveg.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson