Vindorkugarður Áformuð staðsetning vindorkugarðsins er rétt sunnan við Nesjavallaveg, innan bláa rammans efst á afstöðumyndinni.
Vindorkugarður Áformuð staðsetning vindorkugarðsins er rétt sunnan við Nesjavallaveg, innan bláa rammans efst á afstöðumyndinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt fram matsáætlun til kynningar á þeim áformum fyrirtækisins að byggja vindorkugarð við Dyrveg á Mosfellsheiði, en í áætluninni er kynnt hvernig fyrirtækið ætlar að standa að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Orkuveita Reykjavíkur hefur lagt fram matsáætlun til kynningar á þeim áformum fyrirtækisins að byggja vindorkugarð við Dyrveg á Mosfellsheiði, en í áætluninni er kynnt hvernig fyrirtækið ætlar að standa að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Staðsetning vindorkuversins er við Nesjavallaleið, á að giska mitt á milli höfuðborgarsvæðisins og Hengilsins, og er orkuverinu ætlaður staður skammt sunnan vegarins, á hægri hönd þegar ekið er í átt til Nesjavalla.

Umrætt svæði er innan sveitarfélagsmarka Ölfuss, en auk þess er einnig litið til svæðis við Lyklafell sem mögulegs kostar fyrir vindorkuver, en það svæði liggur við hlið fyrrnefnds svæðis við Dyrveg.

Áform Orkuveitunnar lúta að byggingu 108 megavatta vindorkugarðs á ríflega 7 ferkílómetra svæði, en gert er ráð fyrir að þar rísi 15 vindmyllur og afl hverrar verði 7,2 megavött.

210 metra háar vindmyllur

Í gögnum sem liggja frammi í Skipulagsgátt kemur m.a. fram að hæð vindmyllanna verði 210 metrar að hámarki og er þá miðað við vindmylluspaðana í hæstu stöðu, með vélarhús í 125 metra hæð og lengd spaða 87,5 metra. Við hverja vindmyllu þarf steypta undirstöðu sem orðið getur allt að 30 metrar í þvermál og 3-4 metrar að þykkt. Í vindorkugarðinum er áformað að leggja 1.500 fermetra kranaplan og 5.000 fermetra geymslusvæði.

Fram kemur að tengja þurfi vindorkugarðinn, annaðhvort við Nesjavallaveg eða þjóðveg 1, með lagningu 1,3-4,5 kílómetra aðkomuvegar að svæðinu. Einnig þurfi þjónustuvegi að hverri vindmyllu sem orðið geta alls 8-12 kílómetra langir samtals. Allar vindmyllurnar á að tengja með 33 kílóvatta jarðstrengjum við safnstöð raforku sem verður 2.000-3.000 fermetra mannvirki. Líklegt er talið að vindorkugarðurinn verði tengdur við raforkuflutningskerfið með jarðstreng sem liggja á í tengivirki Landsnets við Kolviðarhól. Gert er ráð fyrir að hlutarnir sem vindmyllurnar verða settar saman úr verði teknir í land í Þorlákshöfn og fluttir þaðan á framkvæmdasvæðið í sérbúnum flutningabílum.

Hentar vel fyrir vindorkugarð

Í matsáætlun Orkuveitunnar sem fyrir liggur kemur m.a. fram að greiningar fyrirtækisins gefi til kynna að téð svæði á Mosfellsheiði henti vel fyrir uppbyggingu vindorkugarðs og því sé tímabært að hefja matsferli til að rannsaka umhverfisáhrif mögulegra framkvæmda og tryggja aðkomu almennings að verkefninu á frumstigum þess.

Ekki á að taka ákvörðun um hvort af byggingu vindorkugarðsins verði, fyrr en að afloknu lögbundnu ferli í samræmi við lög um rammaáætlun og samþykktri þingsályktunartillögu um rammaáætlun af Alþingi. Falli vindorkukosturinn í nýtingarflokk rammaáætlunar muni Orkuveitan taka næstu skref með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna, í samráði við nærsamfélagið og í samræmi við eigendastefnu félagsins, að því er segir í matsáætluninni.

Í sátt við samfélag og náttúru

Í matsáætluninni segir að við þróun nýrra orkukosta hafi Orkuveitan sett sér það markmið að vera í sem mestri sátt við samfélag og náttúru. Því hafi staðarvalsgreiningu vegna fyrirhugaðs vindorkugarðs verið settar þær skorður að vera í nálægð við þegar röskuð svæði, við dreifikerfi og starfssvæði fyrirtækisins, að áhrif á umhverfi, náttúru og dýralíf verði í lágmarki sem og sjónræn áhrif við mikilvæg náttúru-, ferðamanna- og útivistarsvæði.

Af þessum sökum telji fyrirtækið að svæðið við Dyrveg henti vel fyrir starfsemi vindorkugarðs. Það sé í um 8 km fjarlægð frá bæði Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun ásamt því að vera í grennd við Nesjavallaveg, háspennulínur og hitaveitulögnina frá Nesjavöllum. Af þeim sökum teljist svæðið innan landsvæðis sem almennt teljist raskað af mannavöldum. Einnig vegi nálægð við orkuinnviði þungt, en norðan við framkvæmdasvæðið liggi Sogslína 3 sem og Nesjavallalína 2.

Óbyggt svæði í þjóðlendu

Í Aðalskipulagi Ölfuss fyrir tímabilið 2020-2036 er áformað framkvæmdasvæði vindorkugarðsins, sem reyndar er þjóðlenda, skilgreint sem óbyggt svæði, en slík svæði eru skilgreind sem svæði þar sem ekki sé gert ráð fyrir búsetu eða atvinnustarfsemi, að mestu án mannvirkja annarra en þeirra sem þjóni útivist, afréttarnotum, öryggismálum og fjarskiptum.

Komi til byggingar vindorkugarðsins þurfi að gera breytingar á aðalskipulaginu á þann veg að fyrirhugað virkjunarsvæði verði afmarkað sem iðnaðarsvæði. Ekki er hafin vinna við breytingar á aðalskipulagi vegna verkefnisins.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson