Helga Sjöfn Helgadóttir fæddist á Sauðárkróki 25. júní 1975. Hún lést 17. mars 2025. Helga ólst upp á Laugarbökkum í Skagafirði.
Foreldrar hennar eru Edda Stefáns Þórarinsdóttir, f. 28. maí 1939 og Helgi Þormar Svavarsson, f. 7. maí 1934, d. 9. júní 2018.
Helga var yngst fimm systkina. Þau eru: Þormar Skaftason, f. 1958, d. 2018, Svavar, f. 1960, Sigríður Margrét, f. 1961, og Guðbjörg Elsa, f. 1965.
Eiginmaður Helgu Sjafnar er Gunnlaugur Hrafn Jónsson, f. 7. apríl 1975. Foreldrar hans eru Jón Gunnlaugsson, f. 28. september 1954 og Jónína Stefánsdóttir, f. 3. desember 1953.
Helga og Gulli giftu sig árið 2004 í Reynistaðakirkju. Börn þeirra eru: Jón Dagur, f. 20. nóvember 1994. Sambýliskona hans er Eyrún Sævarsdóttir, börn þeirra eru María Sjöfn og Hólmar Daði. Dagmar Ólína, f. 20. nóvember 2000, og Hrafn Helgi, f. 5. desember 2005, kærasta hans er Selma Leifsdóttir.
Helga Sjöfn hóf nám í matvælafræði við Háskóla Íslands árið 1996, eftir tveggja ára nám ákvað hún að skipta yfir í kennaranám, sem hún tók í fjarnámi. Eftir að hún útskrifaðist sem grunnskólakennari starfaði hún við kennslu í Varmahlíðarskóla um árabil, auk þess sem hún gegndi stöðu aðstoðarskólastjóra til tveggja ára.
Eftir að Helga hætti kennslustörfum í Varmahlíðarskóla starfaði hún sem bóndi í Hátúni ásamt eiginmanni sínum og sinnti því starfi til æviloka.
Útför Helgu Sjafnar fer fram í kyrrþey frá Glaumbæjarkirkju í dag, 3. apríl 2025, kl. 14.
Þótt sólin nú skíni á grænni grundu
er hjarta mitt þungt sem blý.
Því burt varst þú kölluð á
örskammri stundu,
í huganum hrannast upp sorgarský.
Fyrir mér varst þú ímynd hins
göfuga og góða,
svo gestrisin, einlæg og hlý.
En örlög þín ráðin – mig setur
hljóða,
við hittumst ei framar á ný.
Megi algóður Guð þína sálu nú
geyma,
gæta að sorgmæddum, græða
djúp sár.
Þó komin sért yfir í aðra heima
mun minning þín lifa um ókomin ár.
(Sigríður Hörn Lárusdóttir)
Við vorum heppin að fá að eiga þig að. Við erum þér þakklát fyrir allt þitt. Minning þín er ljós í lífi okkar.
Þín
Gunnlaugur (Gulli), Jón Dagur, Dagmar og Hrafn.
Það er komið að kveðjustund, en í dag berum við elsku tengdamóður mína til sinnar hinstu hvílu.
Á síðustu tólf árum hef ég verið þeirrar gæfu aðnjótandi að verða hluti af fjölskyldu þeirra Helgu og Gulla í Hátúni. Helga af sinni einstöku alúð tók mér opnum örmum sem tengdadóttur og þróaðist með okkur gott samband sem einkenndist af vináttu, gleði og væntumþykju. Helga var mér mikil fyrirmynd, hún stóð vörð um fjölskylduna, studdi, hvatti og elskaði, án þess að ætlast til neins til baka.
Það var algjörlega einstakt að fylgjast með þeim Helgu og Gulla þegar við Jón Dagur eignuðumst Maríu Sjöfn og síðar Hólmar Daða, en þau tóku ömmu- og afa hlutverkinu fagnandi og hafa reynst börnunum okkar einstaklega vel. Það er í raun aðdáunarvert hversu dugleg Helga Sjöfn var að rækta sambandið við fjölskylduna, hún fór oft og iðulega með barnabörnin á skauta, í gönguferðir og ferðalög um fjörðinn að skoða náttúruperlur, í berjamó og lautarferðir, að ógleymdum öllum kajakferðunum þar sem hún leyfði krökkunum að sitja með sér á bátnum og réri með þau á vit ævintýranna. Hún dreif okkur hin af stað í ævintýri sem maður hafði oft hugsað um en aldrei látið verða af og lagði sig fram við að skapa gæðastundir og minningar sem við munum ylja okkur við í sorginni.
Helga var náttúrubarn af guðs náð og kunni svo sannarlega að njóta alls þess sem landið hafði upp á að bjóða. Hún hafði líka græna fingur en í kringum hana blómstraði allt og var fátt notalegra en að sitja með henni í sólstofunni í Hátúni og drekka kaffibolla umvafin blómum og hlýju.
Flestir hafa orð á því hversu nærandi það var að umgangast Helgu, hún hafði einstaka nærveru og manni leið alltaf vel eftir að hafa eytt tíma með henni. Það var því ekki erfitt fyrir okkur Jón Dag að taka þá ákvörðun að flytja í Hátún enda samskipti okkar við Helgu og Gulla alltaf verið góð og forréttindi að geta leyft börnunum að alast upp undir verndarvæng ömmu sinnar og afa.
Elsku Helga Sjöfn, tíminn sem við áttum saman var dýrmætur, en mikið hefðum við óskað þess að hann hefði verið lengri. Ég vona þú hvílir í friði og sért umvafin blómum í sumarlandinu. Ég mun gera mitt allra besta til að passa upp á fólkið okkar.
Umhyggju og ástúð þína
okkur veittir hverja stund.
Ætíð gastu öðrum gefið
yl frá þinni hlýju lund.
Gáfur prýddu fagurt hjarta,
gleðin bjó í hreinni sál.
Í orði og verki að vera sannur
var þitt dýpsta hjartans mál.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Þín
Eyrún Sævarsdóttir.
Elsku Helga amma.
Við höfði lútum í sorg og harmi
og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.
Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið
því fegursta blómið er frá okkur horfið.
Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir
og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir
þótt móðuna miklu þú farin
sért yfir
þá alltaf í huga okkar myndin
þín lifir.
Við kveðjum þig, amma, með
söknuð í hjarta,
en minning um faðmlag og brosið
þitt bjarta.
Allar liðnar stundir um þig okkur
dreymi
og algóður Guð á himnum þig
geymi.
(Sigfríður Sigurjónsdóttir)
Þín ömmubörn,
María Sjöfn og Hólmar Daði.
Ég er svo heppin að hafa í mínum uppvexti átt fallegar og sterkar fyrirmyndir sem mótuðu mig sem manneskju. Ein af þessum fallegu fyrirmyndum var Helga Sjöfn móðursystir mín sem ég hef alltaf litið á meira eins og systur en móðursystur. Margar góðar og skemmtilegar minningar koma upp í hugann og margt sem ég gerði í fyrsta skipti gerði ég með Helgu Sjöfn. Þegar ég fór í fyrsta skipti á skauta þá var það Helga Sjöfn sem tók litlu frænku með. Eitthvað gekk þetta nú brösuglega til að byrja með en alltaf hvatti hún mig til að standa upp og halda áfram alveg þar til ég var farin að skauta sjálf og snúa mér í hringi á skautunum. Þegar ég fékk í fyrsta skipti andlitsfarða og maskara þá var það Helga Sjöfn sem sá um verkið og kenndi mér hvernig best væri að bera sig að við þetta. Þegar ég fór í fyrsta skipti í ljós, þá var það hún sem bauð mér með sér í smá kósí frænkustund. Ótal fleiri svona stundir áttum við saman og fyrir þessar stundir er ég þakklát. Eftir að ég varð fullorðin og aldursbilið milli okkar minnkaði var Helga Sjöfn ein af mínum dýrmætustu vinkonum, við gátum spjallað og brallað saman svo ótal margt og alltaf ríkti gagnkvæm virðing og traust á milli okkar. Helga var þeim eiginleikum gædd að fólki leið vel í kringum hana. Hún hafði þessa fallegu hlýju útgeislun og var alltaf tilbúin að gefa af sér og njóta stundarinnar með þeim sem henni þótti vænt um. Hún var mikill náttúruunnandi og snillingur í að búa til ógleymanlegar samverustundir fyrir fólkið sitt. Helga hafði unun af því að vera úti í náttúrunni og njóta þess sem umhverfið býður upp á hverju sinni. Sigla á kajak, fara á skauta, fara í gönguferðir, lengri og styttri í hóp eða ein með sjálfri sér, gjarnan að fanga fegurðina á mynd, en hún var virkilega flink í því að taka fallegar myndir. Enginn veit hvað í annars huga býr og ekki er alltaf hægt að sjá í fari fólks að það sé að glíma við erfiðleika sem á endanum taka völdin.
Eftir stendur stórt skarð sem aldrei verður brúað, breyttur veruleiki sem við þurfum að læra að lifa með en munum aldrei sætta okkur við. Það er mikilvægt að muna að njóta stundarinnar, vera dugleg að vera með fólkinu sem okkur þykir vænt um og skapa góðar og dýrmætar minningar.
Minningarnar um glæsilega frænku sem alltaf átti stund, góð ráð, hlýtt faðmlag, glaðværð og hlýju að gefa okkur öllum sem henni þótti vænt um, þær eru okkur dýrmætar og það sem við getum nú leitað í.
Elsku frænka mín, takk fyrir allt sem þú hefur verið mér, ég mun bera það með mér alla tíð og kann sannarlega að meta það.
Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag
enginn gengur vísum að.
(BVS)
Þangað til næst, ég elska þig.
Þín frænka,
Þyrey.
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Ómar Ragnarsson/Gísli á Uppsölum)
Í dag fylgi ég elsku vinkonu minni til hinstu hvílu. Skarð er höggvið í vinahópinn sem aldrei verður fyllt. Ég minnist Helgu Sjafnar af virðingu og kærleik. Þegar ég hugsa til hennar færist ósjálfrátt bros um varir. Margt höfum við brallað í gegnum tíðina og er það svo sem ekki allt hæft til birtingar. Steinsstaðaskóli, kallaðar inn til skólastjórans fyrir að hafa strítt samnemanda okkar aðeins of mikið. Við rifjuðum þetta reglulega upp og skömmuðumst okkar auðvitað. Hvítvínskvöld i Gröf, nokkrar vinkonur samankomnar heima hjá Helgu og Gulla. Komið var að heimferð þegar Helga segir: Heyrið þið stelpur, ég var að prófa að brugga hvítvín, viljið þið ekki smakka?“ Ó, jú, það gerðum við og ekki var mikið eftir þegar við fórum heim. Hún sagði alltaf að við hefðum klárað allt upp til agna og hló svo sínum prakkaralega hlátri á eftir.
Sumarbústaðaferðir vinkvennanna, þar sem eftirvænting var að byggjast upp í að minnsta kosti tvær vikur með tilheyrandi pípi í snjallsímanum. Talað um krakkana okkar og hvað við erum allar stoltar af okkar afleggjurum. En líka rifjaðir upp gamlir kærastar og prakkarastrik. En nú verða þær aldrei eins. Á svona stundum þegar hugurinn er þrunginn af sorg og söknuði er svo gott að eiga góðar og fallegar minningar um vinkonu sem var svo frábær, gladdi aðra og gaf af sér. Kalli minn lýsti henni svona þegar við ræddum að hún væri dáin: „Helga, hún var svo hávaxin og góð.“ Held að henni hefði líkað þessi lýsing nokkuð vel. Mikið er vont til þess að hugsa að henni hafi liðið svona illa en ég mun virða ákvörðun hennar og halda minningu hennar á lofti á meðan ég lifi.
Ég þakka fyrir tímann og allar glaðar stundir sem við áttum saman hérna megin.
Hvíl í friði elsku vinkona, bið að heilsa yfir og við hittumst síðar.
Ég votta Gulla og öllum ástvinum mína dýpstu samúð. Guð blessi ykkur og veiti ykkur styrk.
Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir.