Garðabær Stjörnumennirnir Orri Gunnarsson og Jase Febres sameinast um að stöðva ÍR-inginn Jacob Falko, sem skoraði 41 stig í leiknum.
Garðabær Stjörnumennirnir Orri Gunnarsson og Jase Febres sameinast um að stöðva ÍR-inginn Jacob Falko, sem skoraði 41 stig í leiknum. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Álftanes gerði góða ferð í Reykjanesbæ og sigraði Njarðvík, 95:89, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í gærkvöldi. Njarðvík endaði í þriðja sæti í deildarkeppninni með 30 stig, aðeins tveimur minna en deildarmeistarar Tindastóls

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Álftanes gerði góða ferð í Reykjanesbæ og sigraði Njarðvík, 95:89, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í gærkvöldi.

Njarðvík endaði í þriðja sæti í deildarkeppninni með 30 stig, aðeins tveimur minna en deildarmeistarar Tindastóls. Álftanes endaði í sjötta sæti með 22 stig.

Þá vann Njarðvík tvo sigra á Álftanesi í deildinni en þrátt fyrir það voru það gestirnir sem voru sterkari í kaflaskiptum leik í gærkvöldi.

Njarðvík vann fyrsta og þriðja leikhluta með samanlagt 15 stigum. Álftanes vann hins vegar annan og fjórða með samanlagt 21 stigi.

Var um góða liðsframmistöðu að ræða hjá Álftanesi. Fimm leikmenn skoruðu níu stig eða meira og þá fékk liðið 22 stig af bekknum, gegn aðeins fimm hjá Njarðvík. Álftnesingar áttu meira á tankinum í lokin og gat Njarðvík helst þakkað Khalil Shabazz fyrir að munurinn var ekki meiri, þar sem hann skoraði ævintýralegar körfur í lokin.

Justin James skoraði 23 stig fyrir Álftanes og Haukur Helgi Pálsson 18. Áðurnefndur Shabazz skoraði 30 fyrir Njarðvík.

Fjórir á móti einum

Þá vann Stjarnan öruggan sigur á ÍR á heimavelli, 101:83. Stjarnan endaði í öðru sæti deildarinnar og ÍR í sjöunda og áttu því flestir von á Stjörnusigri.

Það tók Garðbæinga tíma að hrista ÍR-inga af sér. Munaði aðeins þremur stigum þegar þriðji leikhluti var tæplega hálfnaður. Þá tóku Stjörnumenn hins vegar völdin og sigldu sannfærandi sigri í höfn.

Fleiri leikmenn Stjörnunnar spiluðu vel í gær og það skilaði sigrinum. Shaquille Rombley (27), Ægir Þór Steinarsson (24), Júlíus Orri Ágústsson (16) og Orri Gunnarsson (15) skoruðu allir meira en tíu stig.

Á meðan treystu ÍR-ingar fyrst og fremst á Jacob Falko, sem skoraði 41 stig. Hann var hins vegar eini leikmaður liðsins með meira en tíu stig og þurfti Bandaríkjamaðurinn meiri hjálp frá liðsfélögum sínum.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson