Ísafjörður Starfsfólk HVest er ósátt við skýrslu rannsóknarnefndar.
Ísafjörður Starfsfólk HVest er ósátt við skýrslu rannsóknarnefndar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Við teljum það gagnrýnisvert að Samgöngustofa hafi gefið út opinbera skýrslu án þess að leita gagna eða upplýsinga frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,“ segir Súsanna Björg Ástvaldsdóttir yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við teljum það gagnrýnisvert að Samgöngustofa hafi gefið út opinbera skýrslu án þess að leita gagna eða upplýsinga frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða,“ segir Súsanna Björg Ástvaldsdóttir yfirlæknir og framkvæmdastjóri lækninga á stofnuninni.

Hún vísar hér í skýrslu um slys um borð í Sólborg RE-27 í september sl. þar sem rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að komið sé á verklagi sem tryggi að sjómenn sem þangað þurfa að leita á öllum tímum sólarhrings fái tilskilda umönnun.

„Hér er enginn læknir í húsi og engin opin bráðamóttaka, heldur metur læknir hverju sinni hvort tilfelli krefjist samstundis skoðunar. Í þessu tilviki voru mennirnir tveir skoðaðir um leið og þeir komu í höfn en ástand þeirra metið þess eðlis að ekki þyrfti að leggja þá inn og það mætti bíða með frekari rannsóknir þar til daginn eftir,“ segir Súsanna.

„Það er ekki í höndum heilbrigðisstofnana að útvega einstaklingum gistingu, og hefði verið best að útgerðin gerði ráðstafanir daginn áður þegar ljóst var í hvað stefndi. Það var fyrir góðvilja HVest að við buðum þeim að gista hjá okkur heldur en vísa þeim á dyr. Þeir voru því á eigin vegum á spítalanum, ekki innlagðir. Af aðspurðu starfsfólki var þeim færður morgunverður í því herbergi þar sem þeir fengu að gista. Þeir fóru í rannsóknir daginn eftir og héldu svo heimleiðis líkt og mat læknisins hafði verið um nóttina.“

Súsanna segir að starfsfólki HVest hafi sárnað þessi umfjöllun, enda leggi það sig í líma við að veita öllum góða þjónustu. Þegar slys eða veikindi verða utan hefðbundins dagvinnutíma er verklagið þannig að læknir er ræstur út til að meta stöðuna. Það hafi verið gert í máli skipverjanna tveggja.

„HVest hefur þegar haft samband við Samgöngustofu til að fá frekari útskýringar á hvernig á þessu stendur og við bíðum eftir fundi með þeim.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir